mánudagur, ágúst 19, 2002

Free food for the poor!

Roadside Prophets

Lenti á þessari afar óvenjulegu mynd í kassanum í kvöld. Afar óvenjuleg er líklega vægt orðalag - sem sagt, hún hefst á því að tveir vélhjólatöffarar hittast, fara á barinn og annar þeirra fer í tölvuleik sem er þar við einn vegginn. Hann er svo óheppin að það verður skammhlaup í kerfinu og hann drepst við rafstrauminn. Félagi hans sem John Doe leikur ákveður að hann þurfi að finna þennan stað sem sá látni talaði um, El Dorado (spilavíti - ekki áfangastaðurinn í framhaldsteiknimyndaklassíkinni Leyndardómar gullborganna), og dreifa öskunni þar. Það sem á eftir fylgir er einhver alsteiktasta vegamyndarheimspekieinlægni sem nokkurntímann hefur verið fest á filmu. Hann lendir á einhverjum ungpönkara, sem einhver meðlimurinn í Beastie Boys túlkar, sem er munaðarleysingi og gistir á öllum Mótelum í keðjunni Mótel 9 út af því að þangað gistu horfnir foreldrar hans fyrst eftir að þeir stungu af, síðan hitta þeir gestaleikarann John Cusack tvisvar, kauði er með lepp fyrir öðru auganu og á að sjálfsögðu bestu atriðin. Sérstaklega hið fyrra þegar hann virðist ætla að panta svona um það bil allan matseðilinn, kemur þvínæst auga á hetjurnar okkar og heimtar að panta fyrir þá líka. Það sem á eftir fylgir er væntanlega ein eftirminnilegasta átsena kvikmyndanna (hugtakið stuff the food in your face fær nýja merkingu) en þegar þær koma með himinháan reikninginn þá stekkur hann upp á borð, öskrar: "Free food for the poor!" og hleypur út. Næst þegar þeir hitta hann er nýbúið að góma hann, minn er ekki sáttur og lýsir svekktur yfir: "Five more meals and I would have made Guiness" - sem sýnir okkur náttúrulega að jafnvel hugsjónamennirnir hafa sinn hégóma. Svo má auðvitað ekki gleyma indjánastripparanum sem söguhetja okkar á vingott við og á þessa gullvægu setningu: "Stick to the ones that see the truth in your soul. And don’t accept any wooden nickels." Jamm, ef þið hafið misst af þessari þrælskökku snilld þá fáið þið varla annað tækifæri því varla er sú vídjóleiga hér á landi sem býður upp á álíka gullmola, má alltaf reina samt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home