föstudagur, október 11, 2002

Matur með mömmu

Ég mæti loks til Zlín klukkan sjö um morgunin og Majka nær í mig á brautarstöðina. Hún segist vera á leiðinni í mat til móður sinnar, ég væri vissulega boðinn með en gæti sofið til hádegis fyrst. Eftir að hafa eldað ofan í mig eitthvað grunsamlegt og hrikalega gott eggja- og beikongums þá flýtir hún för sinni til tíu þannig að ég stekk í bað, kasta kveðju á Klöru dóttur Majku sem var að vakna og reyni að sofna sem fyrst til að ná mínum tveim tímum.Vakna svo korter í tíu, út í bíl og þaðan til Otrekovice. Þegar við komum er neyðarástand, elsti strákurinn af þremur á aldrinum 7-12 er með stærðarinnar gat á hausnum og þarf til læknis. Ég villist inní eldhús, er þar umkringdur konum sem skipa mér að setjast þegar ég leita mér að einhverju til að hjálpa til með við eldamennskuna. Kíki stuttu seinna út fyrir eldhúsið þar sem kamarinn er. Þar eru hundur, köttur, hænsn og svanir í góðu samlæti. Kisi einn sá liðugasti sem ég hef lengi séð og klifrar eins og óður sé. Klósettið er eins og áður segir þarna en baðherbergið og vaskurinn þar með talinn er hinum megin í húsinu. Þetta virðist sértékkneskur siður og þó hann sé skiljanlegur frá frumspekilegum forsendum, saur í einu herbergi og hreinsun í öðru, þá er þetta ekki alveg að virka í praksís. Hver þarf að þvo hendurnar í vask þegar maður er á leiðinni úr eða í bað? Fólk tekur að streyma að, húsmóðirinn er sannkölluð Babitschka, amma aftan úr fornöld og frammí fingurgóma í lopasokkunum sínum, blómakjólnum, tannlausa brosinu og skeggtægjunum í andlitinu. Svo getur hún líka dansað og eldað eins og vindurinn. Majka er eina dóttirinn en synirnir eru sex, þar við bætast svo afkvæmi og eiginkonur. Majka talar ryðgaða íslensku og X, strákur um tvítugt ensku, þess utan þarf ég að bjarga mér á þessum fáu orðum sem ég kann í tékknesku. Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir brandarar verið sagðir um vitlausan Íslending heldur en þennan haustdag í Móravíu.
Um hádegi er komið að matnum en fyrst spyr Jirka hvort ég sé ekki örugglega 21 árs. Fyrst verð ég afar glaður að hann dragi fimm ár frá í ágiskun sinni en átta mig svo á að hann er að fullvissa sig um að það sé óhætt að bjóða mér í glas. Slavneski elddrykkurinn Slivovice, heimabruggaður að sjálfsögðu er svo skenkt í tvö glös og við Jirka skálum. Ég kemst fljótlega af því að það þýðir lítið að neita og nokkrum heimatilbúnum bjórum og slivovicum síðar, svo ekki sé minnst á ósköpin öll af mistorkennilegum mat förum við nokkur út og tökum þátt í skrúðgöngu. Ég er svona rétt að átta mig á því að það er hátíðisdagur í þorpinu og því er slegið saman við nýliðið fertugsafmæli Jirka. Sem þýðir að fullorðnir karlmenn fá útrás til að skrýðast litskrúðugum klæðum, blása í lúðra og reka upp mórövsk jóðl þess á milli. Það gengur fólk á milli og bíður manni upp á sælgæti og slivovice og manni verður óneitanlega hugsað til þess að það sé eitthvað sem vanti á 17. júní hér heima. Þegar heim er komið þá gef ég Jakubi litla sýnikennslu í kitli áður en ég fæ mér hænublund við undirleik gamlingjanna sem syngja sama tékkneska þjóðlagið svona um það bil þrjátíu sinnum í röð og losna þar með við öll sín afkvæmi úr borðsalnum. Eftir klukkustundarkríu sé ég að það er farið að svífa á mannskapinn, ég fer með X í bjórherbergið, við skenkjum bjór (sem er seinlegt því það er engin súrefnisdæla á kútnum og froðan því mikil). Hann er einlægur aðdáandi Azerbædjanna í System of a Down og segir mér frá einni útihátíð í héraðinu sem stendur í þrjá daga og dregur að sér 100 þúsund manns þar sem bjórdrykkja per haus er 100 bjórar yfir hátíðina. Og það eru náttúrulega börn meðferðis sem lækka meðaltalið. Mér íslendingnum finnst eiginlega merkilegt að fólk sé að draga börnin sín með sér á svona hátíðir en það er svo sem ekki eins og börnin séu ekki að njóta sín ágætlega hér á meðan við fullorðna fólkið sötrum bjór, léttvín og slivovice. Síðan er meira etið, eftir kvöldmatinn hamast ég með stráklingunum þremur smávegis og horfi með þeim á tékkneskan fótbolta í sjónvarpinu en fer svo inní matsalinn þar sem gamlingjarnir bíða. Þau segjast glöð að sjá mig. Svo hefst yfirheyrslan. “Hvað ertu að gera í Tékklandi?” Ég muldra eitthvað um lágt verðlag og fallegt land, S hjálpar mér með að minnast á fallegt kvenfólk en samt sýnist mér þau skilja lítið í vitleysunni í mér. Svo kemur öllu erfiðari spurning: “Um hvað er bókin þín?” Ég hafði að mestu sloppið við þessa spurningu heima á klakanum, nóg að segjast bara vera að fara að skrifa eitthvað, stundum lét ég uppi að þar á meðal væri skáldsaga en það dugði oftast. En hérna skiptir víst einhverju máli um hvað blessuð sagan skuli vera. Fjandinn. Ég reyni að útskýra grunnhugmyndina og pælinguna þar á bak við í gegnum túlkinn minn en amman er harður gagnrýnandi og sleppir mér ekki fyrr en hún er búinn að fullvissa sig um það hvernig ég hafi forsendur og reynslu til að skrifa um hitt og þetta, græningi eins og ég náttúrulega er. Tekst þó loks að sannfæra kelluna um að ég viti eitthvað hvað ég er að gera og við tekur meiri tékknesk þjóðlagatónlist um það leiti sem síðasti bróðirinn, prestur í anda Rowan Atkinson, kemur í hús. Nokkrir þjóðdansar eru stignir og íturvaxnasti bróðirinn og amman sýnu flinkust þar. Síðan um ellefuleytið fer Majka að hugsa sér til heimferðar að mér sýnist, hún dregur okkur Klöru með sér en ekki í átt að bílnum heldur að næsta húsi sem er einmitt samkvæmissalur bæjarbúa og nú skal dansað. Ég er yfirheyrður nokkrum sinnum í viðbót og nú er líkast til hálf Otrokovice að bíða spennt eftir að dularfulli Íslendingurinn fari nú að klára bókina sína. En heimasæturnar eru fríðar og kvöldið ungt, það endar um þrjú og fólk sefur á beddum víðsvegar um húsið. Jakubi vekur mig um morguninn og fyrsta sem ég heyri þegar ég kem fram í eldhús er einn bróðirinn að bjóða mér bjór eða slivovice. Ég er ekki alveg að höndla það í morgunsárið og fljótlega er liðið komið í kaffi þannig að ég sé fram á að lifa daginn af, ég var farinn að hafa áhyggjur af því hvort ég hefði úthald í þetta allt saman. Um þrjúleytið kveðjum við, strákarnir þrír fylgja okkur úr hlaði og veifa á meðan ég er að gera mér grein fyrir því að veturinn minn í Prag hafði takmarkað með hið raunverulega Tékkland að gera. Spurning hvort höfuðborgir ríkja séu ekki oft aðallega sparihliðin, öfgarnar, raunveruleikinn er einhversstaðar á bak við – og þar talar engin ensku.


Tad vantar einhver nofn, teim verdur baett vid sidar

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home