föstudagur, nóvember 15, 2002

Verðandi heimsmeistari í júdó

rant tíu

Rakst á dagbók Venna júdókappa um daginn. Nú veit ég auðvitað að íþróttamenn eru almennt vitlausari en annað fólk af því að Gneistanum finnst það. En mér gekk barasta bölvanlega að koma auga á þennan meinta greindarskort Vernharðs. Síðan er ekkert sérstök útlitslega svosum og vantar aðeins upp á að lýsingarnar á æfingunum sjálfum séu nógu spennandi. En það eru bara smáatriði og restin er tær snilld eins og Akureyringum er einum lagið (Áðurnefndir lögfræðingar eru til dæmis allir Akureyringar nema Schlink. Hrabal var frá Prag sem er Akureyri meginlandsins. Matlock gerðist víst á Akureyri – og það var kötturinn minn sem drap Godzillu! Mamma var búinn að elda risaeðlukjöt fjögur kvöld í röð þegar hún sá myndirnar og komst að því að Godzilla hafði orðið svona stór út af kjarnorkuslysi.) Hér eru tvö dæmi um snilld mannsins sem verður heimsmeistari í júdó von bráðar – ef veimiltítan og merkikertið Bjarni Friðriks nær þriðja sætinu þá fer Venni létt með það fyrsta:

Eftir æfingu, á leiðinni heim keyrði lögreglubíll framhjá mér og löggan sem keyrði brosti svo fallega til mín að ég varð alveg hvumsa. Þetta var auðvitað lögreglukona, svona til að forðast allan misskilning. Í huganum var ég auðvitað strax kominn í Djúpu Laugina og fór að spá í hvernig það væri að vera með löggu. Ég held að ég gæti það bara ekki. Allar andvökunæturnar einn í rúminu og endalausu dagarnir hugsandi “kemur hún heim í dag eða ekki” og ”hvað á ég að segja krökkunum þegar sá dagur kemur að hún skilar sér ekki”. Ég mundi alveg fríka út af áhyggjum.
Eins og allir vita sjálfsagt er dánartíðni í starfi hjá Lögreglunni á Akureyri mjög há, þetta er harður bær. Alltaf einhverjir öpp tú nó gúdd Húsvíkingar og Dalvíkingar á kreiki.

----

Ohhh.... það er komin ný kelling í Melrose. Hún er að pirra mig svo geðveikt mikið. Með varirnar stútfullar af sílíkoni og í hvert sinn sem hún er í mynd þá næ ég ekki fókus á það sem sagt er en stari bara á varirnar. Hún er að eyðileggja allt. Ég kalla hana Andrésínu.


Þá er náttúrulega minnst á Snorra Ásmunds fyrrum borgarstjórakandítat og Rögnvald gáfaða.
Svo var ein æskuminning úr Gagganum sem ég fékk hreinlega gæsahúð yfir og ég er ekkert viss um að það hafi nokkurntímann gerst áður þegar ég hef lesið blogg. Ég veit ekki, Venni minnir mig að mörgu leiti á Bjössa slöngu og nokkra aðra – en svona týpur eru einfaldlega ekki til í Reykjavík. Út af því að í Reykjavík er fólk annaðhvort á Astró eða Kaffibarnum eða Sirkus eftir því hvernig týpur það er. Og úrkynjast. Vissulega eru skemmtistaðir á Akureyri afskaplega misjafnir en það er engin sem maður fær svona creepy hroll niður mjóhrygginn og þegar maður labbar fram hjá sumum stöðum í Reykjavík eins og til dæmis Astró. Og það er sjálfsagt eins með Astrólið sem labbar fram hjá Sirkus (þar sem allir eru að reyna alltof mikið að halda sér í týpu) sem mér ætti sjálfsagt að finnast æðislegur bar samkvæmt skilgreiningunni. Fátækur bókmenntafræðinemi og svona.
Það er nefnilega það sem er eitt af því sem er best við Ísland, það sem er best við að hafa puðað í garðyrkjunni eða gatnagerðinni eða fiskinum eða byggingavinnunni eða hverju sem það nú annars var – við höfum öll farið í gegnum þennan pakka áður en við urðum fullorðin, og þá skiptir stundum merkilega litlu þó einn sé enn í pakkanum og hinn orðinn markaðsfulltrúi eða alþingismaður. En Reykjavík er að týna þessu – er raunar á versta skeiðinu núna, það er eins og þetta þurfi að úrkynjast áður en þetta verður normalt aftur. Evrópskar borgir eru til dæmis flestar orðnar normal, fólk er auðvitað í sínum hlutverkum þar en það er orðið vant þeim og hegðar sér bara eins og eðlilegar manneskjur. Rithöfundinum líður bara vel í sínu skinni og viðskiptafræðingnum í sínu og þeir eiga kannski ekkert mikið sameiginlegt en þeir eru ekkert að forðast það að hittast og eru bara í góðum fíling á sama pöbbnum. Í Reykjavík fer mann aftur á móti að klæja óþægilega í skinninu ef maður villist eitthvað, það er eins og þetta séu náttúruleg viðbrögð og það sé einhver óvinveitt dýrategund í grendinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home