laugardagur, maí 31, 2003

Rainy day

Veðurguðirnir hafa loks látið af tímabundnu minnisleysi sínu og munað hvernig veður á að vera í Reykjavík. Ég var farinn að halda að ég væri á Akureyri undanfarnar vikur!
Kommentið sem komst ekki í kommentakerfið:

Ég er ekki að segja að hvíti karlinn hafi það slæmt - en það sem þó hrjáir hann er að miklu leiti komið til út af því að hann undirokar aðra hópa og þess vegna ætti hann að berjast gegn ójafnrétti eins og aðrir. Það að undiroka aðra er ekki lykillinn af hamingjunni.

Ég sló þann varnagla að ég hafi örugglega ekki gert nóg á móti ýmiskonar óréttlæti þó ég hafi ekki staðið fyrir sjálfur – það er efni í annan langan pistil en passaði ekki í þennan – enda nógu langur fyrir.

Ég er hins vegar almennt ekkert sérstaklega hrifin af öfgaróttækni í pólitík – hún getur verið rómantísk og virkað í einhvern smátíma en á endanum gerist annað tveggja: þú nærð völdum og verður jafn slæmur eða verri en sá sem fyrir er – eða, sem er mun algengara, þú færð þá uppá móti þér sem voru ekki endilega á móti þér áður. Það er eitthvað furðulegt tískufyrirbrigði að halda því fram að ef þú færð sterk neikvæð viðbrögð þá sértu að gera eitthvað rétt. Kannski ef það er frá ákveðnum ómerkilegum aðilum – en viðbrögðin, hvort sem þau eru jákvæð, neikvæð eða engin segja merkilega lítið um hvort þú sért að gera rétt eða ekki. Frekar hvort þú hafir verið réttur / rangur maður á réttum / röngum tíma.

Jú, Kaninn hefur ýmislegt á samviskunni en eitthvað af ástandinu er samt alfarið sök Íslendinga sjálfra.

Og pólitíkin? Ég tek fram að með kommúnisma þá á ég ekki við VG eða Samfylkinguna – með kommúnisma á ég við þessa hreinu stefnu sem Karl Marx skrifaði endanlega upp á og var upphafspunkturinn sem Sovétmenn og fleiri byggðu á áður en þeir afskræmdu það. En héldu sig samt að einhverju leiti í Austur-Evrópu við þessa hreinu vinstristefnu, allir eru jafnir og eiga að fá það sama í hendurnar. Það var þetta hreina kerfi sem virkar ekki, hvort sem það er vinstri eða hægri. Ég skrifa hiklaust undir það að allir eigi að fá sömu tækifæri óháð kyni, þjóðerni eða ætterni – en þar sem skilur að er hvernig þeir spila svo úr sínum tækifærum. Og leikreglurnar þurfa að vera sanngjarnar.

Hins vegar finnst mér ekki hafa komið nógu skýrt fram hjá íslenskum vinstri mönnum að þeir aðhyllist ekki algert jafnræði, manni sýnist það en það er lítið um garantí – það er eins og flestir flokkarnir séu að nálgast miðjuna án þess í raun að hvika frá gömlu kreddunum sem skapar oft mistrúanlega flokka. Miðjan í íslenskum stjórnmálum er svo kapítuli út af fyrir sig – út af því hún er í raun ekki til sem slík. Alvöru miðjustefna, sem byggir á ákveðnu common sense í því hvort velji skuli hægri eða vinstri, ríkisafskipti eða einkarekstur etc. hefur ekki átt upp á pallborðið heldur eingöngu hentistefna Framsóknar og popúlismi Samfylkingar.

Ég ætla ekki að skilgreina sérstaklega hvað “glæpamaður” er – það sem ég var að tala um var að þetta hreina kommúnismakerfi – og raunar líka hreinn kapítalismi – gerir lítið til að hvetja fólk til að forðast það að fremja glæpi. Og að hægri fólk sé fljótara með fordómana og refsingarnar? Já, það gæti alveg passað núna – en síður fyrir einhverjum áratugum. Vinstri stjórnir í Rússlandi og Kína voru ansi snöggar upp á lagið að refsa og fordæma – en það var út af þessari ofboðslegu sannfæringu um þjóðskipulagið sem ekki mátti gagnrýna – svo 89 “vinnur” kapítalisminn sigur – unnin á sjálfsmarki. Eða: sigur sem þeir eignuðu sér þegar hinir hrundu og hafa því miður fallið í ískyggilega svipað far og gamlar einræðisstjórnir kommúnismans, sérstaklega eftir að George W tók við og Sjálfstæðisflokkurinn var búin að vera aðeins of lengi við völd. Þeir voru allt of sannfæriðir um að þeirra þjóðfélagshugmyndir væru þær réttu. Fólk sem efast ekki er hættulegt.
Ég efast ekki (svona í framh. af síðustu setningu!) um að þú hafir lent í að vera settur í staðalmynd af hægri mönnum – hægri og vinstri menn eru snöggir að búa til klisjur um hvora aðra – en það sem fer einmitt í taugarnar á mér ef þú slysast í hóp fólks úr innsta hring flokka (skiptir ekki máli hvaða flokk) þá er alltof algengt að allir í hinum flokkunum séu útmálaðir sem hálfvitar eða skúrkar. Kannski einum hrósað til að halda trúverðugleikanum. Ég á vini eða kunningja í öllum flokkum og þeir eru venjulega ágætir þegar þeir missa sig ekki í pólitíkina – eins og ég er auðvitað að gera núna!
Ég er hins vegar ekki sammála því að hægri stefna sé ekkert annað en íhaldsemi og græðgi – græðgina má uppfæra á kapítalismann, hreina kerfið sem allt étur hvort sem það er til vinstri eða hægri. En íhaldsemi? Mér hefur alltaf fundist notkun þess orðs í pólitík út í hött. Flokkarnir eru allir jafn íhaldssamir, bara á mismunandi sviðum. Einkavæðing skóla, slæm hugmynd sem Sjálfstæðismenn einir hafa haldið á lofti, getur þó varla talist íhaldssöm skoðun því það mundi þýða breytingar á því skólakerfi sem verið hefur við líði hér um áratugi. Þarna eru vinstrimenn íhaldsamir, réttilega. Keep the good and throw out the bad! Margt sem þarf að vísu að breyta í skólakerfinu en þetta er ekki rétta skrefið.
Það er búið að vera rólegt hér en mikið stuð í kommentakerfinu. Mjög fín – og löng – komment frá Ernu og Marvin en þegar ég ætlaði að svara Marvin með álíka löngu svari þá fékk það nóg, einhvert hámark á þessu drasli væntanlega. Sem var synd því við vorum á góðri leið með að slá heimsmet í meðallengd kommenta. Skrítið að skrifa svona langt svar um komment sem ég er í flestum atriðum sammála. En best að birta svarið til Marvins hérna fyrir ofan …

föstudagur, maí 30, 2003

Til hvers?

Kynni einhver að spyrja sig. Til hvers að láta sig femínisma skipta sig máli? Eða þá rasisma og annað ofstæki? Af hverju ekki bara þegja og þakka fyrir það að vera hvítur karlmaður í vestrænu velferðarþjóðfélagi? Réttlætiskenndin til að byrja með - en líka þetta:

Ég hef aldrei barið né nauðgað konu, ég hef aldrei borgað konu eða svörtum manni lægri laun né hneppt þau í þrælahald eða selt mannsali. Ég hef heldur aldrei hvatt til slíks þó ég sé sekur eins og við öll um að gera ekki nóg á móti í einhverjum tilfellum. En ég hef verið sakaður um allt þetta - þótt óbeint sé. Þetta er stór hluti af ímynd hins hvíta vestræna karlmanns og stundum furðar maður sig á því hvernig maður sem einn slíkur sé ekki í einhverri feitri stöðu með Benz og villu. En oftast er maður samt reiður, reiður þeim aumingjum, kyn- og litbræðrum mínum, sem létu þessa meðferð viðgangast. Hendum biblíunni, þetta er mín erfðasynd. Þó ég hafi ekki gert neitt af þessu. White man's burden? Aumingjaröfl þess sem allt hefur? Nei, reiði yfir því að ég og þeir aðrir hvítir karlmenn sem eiga virðingu skylda séu hólfaðir niður með aumingjum sem deila fyrst og fremst með okkur kynfærum og húðlit. Stundum hefur George Bush sem líklega valdamesti hvíti karlmaður heimsins orðið til þess að mann langar helst að setja poka yfir hausinn áður en maður fer út. Það er ein lykilástæðan fyrir því að ég vil jafnrétti, ég vil að ég sé metin að eigin verðleikum, ekki sem "æðri" af sveittum karlrembupúngum í Hvítum húsum og ekki sem skúrkur af öfgafullum femínistum. Ég er ekki að fíla mitt hólf, það hefur ekki gert mér neitt gott frekar en það hólf sem konur hafa verið settar í. Það eru aðeins þeir sem búa til hólfin – og þeir sem hika ekki við að notfæra sér þau – sem eru að græða eitthvað á þeim. Þetta tengist nefnilega ekki bara femínisma, þetta tengist stærri hlutum sem skiptir okkur öll jafnmiklu máli:

Margir, konur og karlar, hafa notið velgengni sem er verðskulduð, ég bið þá að taka þetta ekki til sín.

En þjóðfélagið okkar er byggt upp á þann hátt að allt of algengt er að fólk njóti velgengni af þessum tveim orsökum: að beita óréttlæti eða að nýta sér kinnroðalaust það óréttlæti sem viðgengst – og í sumum tilfellum er innbyggt – í þjóðfélagið. Fyrst og fremst þetta er ég er helst ósáttur við í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Ég er nefnilega hægrisinnaður af því leyti að ég er mjög harður á því að réttlátt þjóðfélag byggist á því að fólk fái umbunað í eðlilegu hlutfalli við þá hæfileika og dugnað sem það sýnir af sér (án þess þó að einhverjir séu algerlega skildir útundan). En kerfið er því miður ekki að virka þannig. Þetta prinsipp hefur ekkert með afnám ríkisafskipta og kapítalisma að gera þó margir hafi reynt að klína því þar við – gallinn við kapítalismann er einfaldlega sá að hann er ekkert endilega sanngjarn. Höfundar hans hafa ekki sett inn neitt siðferðielement inn í jöfnuna. Hann er ekki heldur skynsamlegur, kerfi sem þegnarnir skynja að er ekki sanngjarnt er aldrei skynsamlegt því þannig dregurðu ekki fram hið besta í fólki. Kommúnisminn er svo allt önnur vitleysa, það eiga ekki allir að vera jafnir því fólk á einfaldlega mismunandi örlög skilið, glæpamenn, morðingjar, letingjar og tækifærissinnar eru ekki líklegir til að láta af sinni iðju ef þeir fá nákvæmlega það sama í launaumslagið og sömu íbúð o.s.frv. og allir hinir – og þessir hinir munu einhverjir halda í sín prinsipp en það brýtur þá alltaf að einhverju leyti niður þessi tilfinning að það skipti einfaldlega engu máli hvort þú gerir hlutina vel og að heilindum eða ekki. Er ekki kominn tími til að hætta þessari vinstrihægri vitleysu, hugsa hlutina upp á nýtt, nota þessa skynsemi sem við mennirnir þykjumst alltaf hafa fram yfir dýrin og gera eitthvað af viti?
Bréf til femínistafélagsins

Í kjölfar allrar umræðunnar um draum Gyðu - sem ég talaði um hér - bentu sumir feministar á að þetta væri aðeins ein skoðun og allar skoðanir í femínistafélaginu væru jafn réttháar. Sumar eru aftur á móti geymdar á vef Femínistafélagsins, sem öllum er opin án fyrirhafnar, og hinar flestar á póstlista félagsins sem um svipað leiti fór að komast í umræðurnar í þessum skrítna litla heimi sem bloggið er. A.m.k. tveir einstaklingar sem ég tek mikið mark á sögðu sig úr félaginu en þó vildi ég kanna hvað væri á ferðinni sjálfur, ég var nefnilega orðinn svo afskaplega þreyttur á umræðum sem snérust um að einhver vitnaði í eitthvað sem annar vitnaði í og svo var bara alveg ómögulegt að vita hver sagði hvað fyrst (sérstaklega þar sem þetta var vinsælt í pólitíkinni á sama tíma, Ingibjörg sagði að Davíð hefði sagt að Ingibjörg hefði sagt að Davíð hefði sagt að lítill feitur hvítflibbakall hefði mútað etc.) og ákvað því að skrá mig á títtnefndan póstlista. Miðað við að þær skilgreina femínisma sem jafnréttissinnað fólk og að sannir karlmenn séu femínistar þá gat ég ekki betur séð en ég hefði fullan rétt til þess. En seinna fóru að renna á mig tvær grímur.
Fyrsta sjokkið var fjöldi bréfanna - sem eru innan um önnur bréf sem eru annað hvort persónulegs eða professional eðlis og skipta mig því máli á allt annan hátt. Lokuð umræða svona stórs hóps á netinu hlýtur að geta farið fram á skynsamlegri hátt - og svo er spurning hvort það sé rétt að hafa þær lokaðar yfir höfuð. En það er aukaatriði og fer vonandi í skynsamlegri farveg í framtíðinni.
Það er rétt að benda á að það er margt gott í gangi á listanum og ýmist fólk sem á hann skrifar sem ástæða er til að taka mark á. En því miður vitum við dæmi um að sum þeirra hafi verið hrakin á brott. Ástæður þess eru ýmsar, kannski helst sú að öll gagnrýni inn á við er ansi oft rökkuð niður. Sérstaklega ef hún kemur frá karlmönnum - einkennilegt í ljósi eftirminnilegasta slagorðs hópsins: "Sannir karlmenn eru femínistar." Vissulega var einn ákveðinn karlmaður á listanum sem átti harða gagnrýni skilda (mér sýnist að sá hafi nú verið ritskoðaður af listanum sem er umdeilandlegt, kannski ágætt en gæti verið hættulegt fordæmi - það er miklu auðveldara að ritskoða í annað skipti) - en það var sorglega algengt að allir settu okkur hina karlmennina undir sama hatt. Skilaboðin að sannir karlmenn haldi kjafti?
En það sem fyllti mælinn var þegar fræg nauðgunartölfræði VG (flokksins sem ég kaus eftir allt saman þó þetta hefði nærri komið í veg fyrir það) kom til umræðu að nýju. Ég skrifaði þetta um málið og framhaldið af umræðunni um málið þótti mér vægast sagt orka tvímælis - í sumum tilfellum fékk ég vægast sagt upp í kok - sem var synd því í raun var margt ágætt í umræddum bréfum líka. Ég ætla ekki að birta annara manna bréf hér en sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa það sem ég skrifaði hér. Svo vona ég að umræðan á þessum póstlista horfi til betri vegar.

fimmtudagur, maí 29, 2003

Forza Milan

Það er þrátt fyrir allt að myndast skemmtileg hefð að það gerist eitthvað virkilega skemmtilegt á Old Trafford á hverju ári. Seedorf er flottur fýr en það var nokkuð víst að hann myndi klikka á vítinu - hann gerir það oftast en samt er hann alltaf jafn æstur að fá að fara á punktinn. En brasilíski vegabréfafalsarinn og úkraínski skriðdrekinn björguðu málunum - it feels just like old times! Svona eins og þegar við van Basten vorum upp á okkar besta - meiðsli bundu endi á ferill okkar beggja sama veturinn, verst að ég var ekki búin að spila úrslitaleik í meistaradeildinni fyrst en hann grætur það sjálfsagt enn að hafa ekki farið í bókmenntafræðina.

miðvikudagur, maí 28, 2003

Fór í körfu með Þórði í fyrsta sinn síðan á Menntaskólaárunum held ég bara og hélt upp á það með að skalla bróður hans. Eða hann mig. Anyways, ef einhver spyr þá segi ég bara að herbergisfélagi minn berji mig. Merkilegt hvað leikstíllinn hefur lítið breyst, skemmtilegt að hugsa til þess að ef maður væri í einhverju formi þá myndi maður vera yfirburðamaður á vellinum. Þetta hugsuðum við örugglega allir. En annars að fikta í tenglunum, frétti að Sverrir Páll væri kominn með síðu og fyrst maður er á annað borð að þessu ... Það endar með að ég verð kominn með þjóðskránna þarna inn en ég er svo lélegur í að skilja útundan ...

þriðjudagur, maí 27, 2003

Karma hf.

Er að eltast við skugga þessa dagana. Þá skiptir ekki máli hversu hratt maður hleypur eða hversu lengi maður endist.

Frummyndir, eftirmyndir, ljósrit.

Uppskriftin af því að meika það er að verða skuggi sjálfur, verða óljóst ljósrit af óskum mannana. Ekki óskin sjálf, bara slagorð sem minnir á óskina, auglýsing með svipaða litasamsetningu.

Gítargrip sem minnir á ástina, notað aftur og aftur. Ljósrit búið til af ástinni. MTLove, fjöldaframleiðsla er hagkvæm.

Hlutirnir hafa ekki gildi í sjálfu sér, ekki mennirnir heldur. Bara hlutabréfin í þeim.

Voru þeir uppi á réttum tíma? Það skiptir engu að vera réttur maður, tímasetningin skiptir öllu sem og staðsetningin. Þessvegna eru allir sannfærðir um að þeir hafi verið mikilmenni í fyrra lífi.
Mikilmennskubrjálæði heimsins er karma.

Guðir eru ljósrit af eldingu.
Það sannaðist endanlega í kvöld á Fylkisvellinum að Real ætti að kaupa alla aðra heldur en einhverjar pissudúkkur frá Manchester. Þegar þeir hafa ekki á hættu að það sé sparkað í þá fótboltaskóm eða einhverju öðru lauslegu inní klefa eftir leik geta þessi grey ekki neitt og enda bara í fallbaráttu uppi á Íslandi. Framsýnir útgerðarmenn eru sjálfsagt nú þegar farnir að undirbúa samning við Beckham eftir tíu ár ...

föstudagur, maí 23, 2003

Eurovision-stigagjöf

Jæja, þá er Eurovision á laugardaginn og eftir að hafa misst af dýrðinni 3 ár í röð þá er kominn tími til að taka þetta alvarlega. Ég nenni að vísu aldrei mikið að velta mér upp úr því hvar Ísland lendir, við erum alltaf á toppnum í veðbönkum þannig að maður missir alla tilfinningu fyrir þessu. En vissulega er lagið mun betra en hratið sem við höfum boðið Evrópubúum uppá síðustu tvö skiptin og skánaði mikið frá forkeppninni. En mestu skiptir að Skímó kemur hvergi nálægt – þó Írafár sé ekki merkilegt band þá er það mikil framför frá þeim ófögnuði sem sveitaballaband númer eitt. En samkeppnin? Skammarverðlaununum er deilt á milli Bosníu, Kýpur (lag dauðans + eitthvað ljósblátt video), Svía og heimamanna í Lettlandi sem ákváðu að það væri góð hugmynd að sameina 2Tricky og Birgittu í eitt band. Írar og Króatar eru slappir, sömuleiðis Bretar, ennþá í einhverjum spæsgirlfíling. Ísrael, Holland og Slóvenía sæmileg. Spánn, Þýskaland, Grikkland og Tyrkland með týpísk en solid eurovisionlög – ethnotouchið hjá Grikkjum og Tyrkjum er líka alltaf skemmtilegt. Bjartsýnisverðlaunin fara svo vissulega til Rúmeníu. En stigin?

1 stig til Portúgals. Rita er gullfalleg (ha? snýst þetta um tónlist?) og lagið ágætt, fyrir utan að syngja inná Disneymyndir í Portúgal og enda performansið með eina portúgalska orðinu sem ég þekkti. Obrigada.

2 stig til Möltu. Minnir mig á JLove Hewitt en getur hins vegar sungið.

3 stig til Noregs. Jostein Hasselgård er leikskólakennari þannig að mömmu eru tileinkað þessi stig. Fyrir utan að vera svona vonlaust einlægt og sætt lag …

4 stig til Eistlands. Eighties Coming Back er flott lag – en einkennilega kunnuglegt. Stolið eða í spilun?

5 stig til Austurríkis. Save the Alps! Lagið sem allir í VG eiga sjálfsagt eftir að halda með.

6 stig til Úkraínu. Uppgjafarboxarinn Olexander er með flotta og óvenjulega rödd, fyrir utan að það er alltof lítið af lögum um sambandsslit. They didn't live happily ever after ...

7 stig til Belgíu. Vel gert techno-Tolkien dæmi, diplómatískt að búa bara til tungumál til að þurfa ekki endalaust að rífast um á hvaða máli á að syngja.

8 stig til Rússlands. t.A.T.u. eru snilldarband en þetta er ekki þeirra besta lag. Það er þó vissulega betra en flest í þessari keppni.

10 stig til Póllands. Pólska og þýska í bland, gengur glæsilega upp og söngvarinn flottasti rauðhaus Evrópu að Ljungberg undanskildum. Engin landamæri? Afbragðs hugmynd enda eru landamæri siðlaus uppfining.

12 stig til Frakklands. Nei, ekki bara út af því hvað Louisa er falleg. Lagið er nefnilega jafn seiðandi og hún – and that’s saying something …

fimmtudagur, maí 22, 2003

Halelúja! Fékk diskinn hennar Birgittu gefins fyrir að versla í 10-11 og líf mitt hefur öðlast tilgang að nýju. Gaman að segja frá því að félagi minn Nelson Mandela varð einmitt fyrir svipaðri upplifun í gær. Hann fékk notaða peysu gefins frá David Beckham! Við erum að hugsa um að nota frímiðina okkar á Eurovisionkvöldið á Broadway til að halda upp á þetta ...

laugardagur, maí 17, 2003

Night of the Matrix

5 tímar af Matrix er hressandi og þegar við komum út var búið að downloada nýjum degi. Núna ætla ég að hakka mig inní nokkra drauma í morgunsárið og taka svo bláu pilluna á morgun svo ég fúnkeri almennilega á meðan þarf. En ég geymi þá rauðu á vísum stað ...

föstudagur, maí 16, 2003

Það er lífsnauðsynlegt hverjum almennilegum karlmanni að ganga niður Laugarveginn á degi eins og þessum og njóta útsýnisins. Afskaplega rómantískur dagur enda viðeigandi því einhver rómantískasti dagur mannkynssögunar var fyrir nákvæmlega fjörtíu árum. Ég missti af honum en væri víst ekki til ef eitthvað hefði klikkað – gömlu hjónin eiga rúbínbrúðkaup í dag og auðvitað ástfangin upp fyrir haus sem fyrr!
Keypti Art of Travel og World Soccer í Eymundsson. Sumir myndu telja þetta merki um skitsófrenu en þegar betur er að gáð getur hvorugt án hins verið.
Bjór í smásjá

Miðað við hugmyndafræði LoveStar mundi þetta vera Bjórguðinn
Samkvæmt heimasíðu Eurovision þá hefur Birgitta eytt mestallri ævinni "in the small city of Husavik." Hvað gerist þá þegar við sendum Akureyring í keppnina? Svo geturðu líka fundið alla textana á síðunni. Enski textinn er til dæmis töluvert skárri en sá íslenski hjá Rísgyðjunni og textinn við austurríska lagið minnir á Torbjörn Egner og Charlie Kaufman. Ekki komin lengra en spurning um að bæta mér það upp núna að hafa misst af síðustu 3 keppnum og gerast algjör Páll Óskar um þessa keppni?
Skoðanakönnun dagsins: Matrix eða Godfather um helgina?

fimmtudagur, maí 15, 2003

Snillingarnir á DV eru endanlega búnir að afsanna það að erlendir fjölmiðlar séu á einhvern hátt vandaðri og fagmannlegri heldur en þeir íslensku. Umfjöllun um nýafstaðnar alþingiskosningarnar á Íslandi var nefnilega ekki nærri því jafn vönduð hjá þeim eins og hjá íslensku fjölmiðlunum.

miðvikudagur, maí 14, 2003

Nei, ég er ekki dauður - it just feels that way. Frekar andlaus þessa dagana - nema á nóttinni enda dreymdi mig æsispennandi draum um gíslatöku á Keflavíkurflugvelli. Þegar hann endaði var ég búin að missa að fluginu mínu og þurfti að fara huldu höfði í flugstöðinni í sólarhring í viðbót án þess að vita hvort farangurinn minn hefði skilað sér eða orðið eftir í Reykjavík sökum Suðurlandsskjálftans sem hafði orðið á leiðinni til Keflavíkur. Það er verst að maður fær sjaldnast framhöld af draumum, oftast bara endurgerðir.

föstudagur, maí 09, 2003

Licence to Shop

Þegar ég tók við afgangnum í 10-11 sagði afgreiðslumaðurinn "takk sömuleiðis, 007." Það reyndust ástæður fyrir því en sagan er betri án þeirra.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Strætóstoppistöð

Nýbyrjað að rigna og hinn strákurinn í biðskýlinu kveikir sér í rettu. Reykjarlyktin og rigningarlyktin sameinast og senda mig fimm ár aftur í tímann, beint aftur í Garðrækt - en hvergi hef ég stundað óbeinar reykingar af jafn miklu kappi og þar. Að vera upp fyrir haus í blautu, dauðu grasi er líklega bara góð tilfinning í minningunni.
Ellen Kristjáns er á stuðningsauglýsingu fyrir Samfó - með VG-barmerki. Það er athyglisvert statement í því. Já, og ef Vinstri-Grænir vilja fá V-atkvæðin vill þá Sjálfstæðisflokkurinn ekki fá S-atkvæðin?

þriðjudagur, maí 06, 2003

Kosningapróf Gambrans

Enginn flokkur hefur séð sér fært að kaupa atkvæði mitt sanngjörnu verði (þó boð eins flokksins um vöflur og bakkelsi séu virðingarverðar) og hef ég því ákveðið að gefa málefnunum séns. Hef ég því ákveðið að senda öllum flokkunum ítarlegan spurningalista um ýmislegt sem mér finnst hafa vantað í kosningabaráttuna að miklu eða öllu leyti og ætla að láta reyna á hvort þeir telji atkvæði mitt nógu mikils virði til að gefa sér tíma til að svara listanum. Við háskólastúdentarnir erum í prófum, flokkarnir hafa gott af því að taka nokkur próf líka. Auk þess er ég náttúrulega hluti af þessu óákveðna fylgi sem mun ráða úrslitum á kjördag. Svarar svo einhver? Sjáum til – stay tuned!
Hnuss, bölvuð illmennska er þetta. Ég hef aldrei skilið þá furðulegu hugmynd sumra háskólanema að það sniðugasta í heimi sé að fara á bókasafn - með sínar eigin bækur - að læra. Bókasöfn eru fyrst og fremst fyrir bækur (og gömul dagblöð, tímarit og eitthvað aðeins af myndböndum og tónlist) og þá sem vilja fá það til láns eða skoðunar á staðnum án þess að gjalda fyrir það dýru verði eins og annars þyrfti. En nei, háskólanemum Íslands finnst þessi þrúgandi þögn (suss, við erum að læra!) vera miklu skemmtilegri.
Jahérna, kosningaumræðan kominn inn á Omega - sá í gær Davíð í viðtali við Gunnar Krosshomma. Það kom samt ekki mest á óvart að sjá Davíð þarna heldur að þetta var bara fínt viðtal. Fjandakornið, verður maður þá að sætta sig við að það er eitthvað gott í öllum illmennum (Gunnari, Davíð er meira svona fallen to the dark side). Og loksins þegar Davíð kemst í gírinn þá verða svona 10 manns vitni að því.
Þetta útskýrir ýmislegt ...

rogue
You are Rogue!

You are sexy and strong willed, and able to take on
just about anyone. You long for a serious
relationship, but whenever you begin to get
close to someone things always seem to take
turns for the worse. But you have dealt with
this lack of closeness with an almost constant
flirtacious behavior.


Which X-Men character are you most like?
brought to you by Quizilla

sunnudagur, maí 04, 2003

Hlutir hafa sál

Því miður efast sumir um þessa staðhæfingu og lýsir best fordómar okkar sem erum svo heppin að vera lifandi gagnvart "dauðum" hlutum. En fólki sem er nýorðið eða að verða tvítugt er holt að hafa í huga að það er aldrei að vita nema að foreldrar þeirra hafi kynnst þegar þeir voru að kaupa sér fótanuddstæki eða sodastream.

laugardagur, maí 03, 2003

Samkvæmt auglýsingum ungra Sjálfstæðismanna þá erum við að lækka erlendar skuldir á ári sem nemur verði þriggja háskóla. Nú skil ég loksins af hverju Háskóli Íslands er í fjársvelti!
Þessi bútur úr viðtali við Drífu Snædal minnir til dæmis ískyggilega á Sögu þernunnar, dystópíu Margaret Atwood þar sem konur eru kúgaðar, meðal annars með svona hræðsluáróðri.

Þetta þýðir, miðað við tölur Hagstofunnar, að allt að 28 þúsund núlifandi Íslendingar af karlkyni eru núverandi eða verðandi nauðgarar. Þetta þýðir það að dætur okkar, mæður og eiginkonur að þær eru varla óhultar á götum Reykjavíkur?
,,Nei, það hefur líka sýnt sig og við sjáum það á tölum neyðarmóttökunnar."


Það skyldi þó aldrei vera að Staðleysuprófið á eftir verði bara hápólitískt? Kannski ætti ég að koma einni dystópíu upp á hvern flokk?
Hvaða hundalógík er þetta? Að halda því fram að af því 10-20 % kvenna sé nauðgað þýði það að 10 – 20 % karla séu nauðgarar? Hafa Vinstri-Grænir aldrei heyrt hugtakið síbrotamaður? Það mætti til dæmis benda á það að það þarf ekki nema einn mann með vald yfir kjarnorkusprengju til að drepa milljónir – eru þá samt milljón morðingjar í því dæmi samkvæmt þessum hundakúnstum? Það er nefnilega ömurlegra en orðum taki ef 10 – 20 % kvenna er nauðgað – og sérstaklega ömurlegt að misnota þá tölfræði til að fá út einhverja vitleysu.
Hananú? Samkvæmt þessu er ég enn að vinna hjá bóksölunni án þess að vita að því. Ég heimta að fá borgað fyrir óafvitandi vinnu mína undanfarna níu mánuði! Sönnunin er náttúrulega sú að ég er ennþá jafn paranojd og þegar ég var meðvitaður um atvinnu mína þar enda hefur enginn unnið dagsverk í Bóksölu stúdenta án þess að vera orðinn verulega paranojd. Sérstaklega þegar tannlæknanemarnir koma í heimsókn …

fimmtudagur, maí 01, 2003

Það er skrítið að þegar ég fer á leiguna og tek nýja mynd og gamla fríspólu með þá hafa myndirnar tilhneigingu til þess að kallast á þó ég reyni að velja ólíkar myndir. Til dæmis síðast þegar ég sá 24 Hour Party People og Ravenous. Í annari myndinni halda menn sér gangandi á e-pilluáti og í hinni á mannáti. Um leið og þeir verða sterkari verða þeir líka siðlausari. Úrhrök úr samfélagi mannana – þangað til þeir eru komnir í meirihluta. Ókei, á kannski frekar við um mannæturnar í Ravenous en þó er vel hægt að heimfæra þetta upp á pilluæturnar í Manchester.
Voðalega er þessi síða orðinn pólitísk hjá mér undanfarið. Ég held það sé nauðsynlegt að zebrinn fari að koma af svölunum og baka nokkrar pönnukökur til að rífa upp stemmninguna. Svo dansa allir konga og klára allar ritgerðir, próf og annan fjanda á mettíma, vinna í lottói, borgi skuldir og skella sér í sumarfrí til óbyggðrar suðurhafseyju.