laugardagur, janúar 31, 2004

Laugardagsljóðið

Eins og veðrið er kemur bara eitt ljóð til greina, ljóð sem Hallgrímur Indriða las svo snilldarlega um jólin, ég samdi þetta þegar ég var eitthvað álíka gamall og krakkarnir sem ég er að kenna núna, frímó á efri hæð Gamla skóla …


Snjór

Hvít snjókorn
falla
letilega
til jarðar

hylja allt

Gera stytturnar tvær
fyrir utan gluggann
hvíthærðar

Hægt
falla þau
hægja á öllu,
hugsunum mínum ...

og hugsanir mínar eru um þau

það er eins og þau vilji fá mig út til sín
tæla mig
en ég get ekki farið

Ég þarf að fara í tíma

og á meðan falla þau
í huga mínum,
yfir hugsanir mínar,
hylja allt

föstudagur, janúar 30, 2004

Föstudagslagið

Ég er búinn að taka til! Þeim sem til þekkja vita að hér er um að ræða heimsfréttir, Reuter hafa hringt látlaust í allan dag og CNN eru ansi ágengir líka. En ég hef náttúrulega engan tíma fyrir frægðina núna, nóg að kenna í dag og svo mun ég náttúrulega bjóða nýtt sjónvarp í hús auk gullfallegs DVD spilara. Af því tilefni er föstudagslagið að sjálfsögðu síðasta sjónvarpslagið, lagið sem var titillagið í hinni ódauðlegu ritgerð “Lofgjörð um Sjónvarpsguðinn” eftir undirritaðan – en lagið er eftir maus.

gefðu eftir (síðasta sjónvarpslagið)


það er eitthvað sem dregur mig aftur til þín,
það er eitthvað sem dregur mig til þín.
þegar dagur er búinn en kvöldið eftir,
þá er eitthvað sem dregur mig til þín.

en ekki vaka,
ekki muna heldur gleyma.
ekki vaka,
ekki framkvæma heldur dreyma.

er það sakleysisbjarmi sem sýnir mér lit,
eða er það dýptin inn í skjáinn?
kannski sé ég í kvöld það líf sem ég vil,
þú er sáluhjálparbláminn.

en ekki hugsa,
ekki upplifa heldur dreyma.
ekki hugsa,
ekki gera heldur gleyma.

ég vil fá að ofnota þig,
þú sýnir mér enn nýja hlið.
þú ofhitnar við álagið,
og það kveiknar í þér
og ég anda þér inn, og þú andar mér inn

ég stari djúpt inn í logann sem umlykur mig,
og armar hans loka mig svo inni.
og faðmurinn brennir síðasta viljann frá mér,
þetta var ekki á sjónvarpsdagskránni.

en gefðu eftir,
það er svo miklu auðveldara.
gefðu eftir,
það er ekkert úti að fara.

ég vil fá að ofnota þig,
þú sýnir mér enn nýja hlið.
þú ofhitnar við álagið,
og það kveiknar í þér,
þú varðst hluti af mér,
það kveiknar í þér,
þú sameinaðist mér,
og ég anda þér inn,
og þu andar mér inn.

- af plötunni
í þessi sekúndubrot sem ég flýt
sproti
4. nóvember 1999

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Bókahorn Gambrans snýr aftur

Eftir að hafa farið í eins árs, eins mánaðar og ellefu daga frí þá snýr Bókahorn Gambrans aftur! Bókahornið er þessa stundina mest að velta fyrir sér hvað það á að lesa þetta árið. Kennslan tekur sitt, ég þarf að fara að endurlesa Mother Night, A Star Called Henry, In the Country of Last Things og About a Boy fljótlega - en þar sem Gambrinn er bókabúðafíkill af verstu sort þá á hann allt of mikið af ólesnum bókum heima hjá sér enda kaupir hann alltaf tíu bækur fyrir hverja eina sem hann les. Því er raunar stórmerkilegt að ég sé þó búin að lesa meirihlutann af bókunum heima hjá mér. En minnihlutinn er stór. Þannig að þetta er í raun tossalisti, tíu bækur sem ég ætla hér með að lofa sjálfum mér að lesa á þessu ári:

Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason

Just to know what all the fuzz was about ... hef samt aðeins á tilfinningunni að HH sé að taka sig of alvarlega þarna

Bókin um hlátur og gleymsku eftir Kundera

Byrjaði einhverntímann á henni og hún var góð en svo varð hún óvart skilin eftir heima hálfkláruð þegar ég fór út til Austurríkis að vinna

The Book of Illusions og / eða Oracle Night eftir Paul Auster

Því það er nauðsynlegt að lesa Auster reglulega

Lolita eftir Vladimir Nabakov

Leit á fyrstu síðuna, ótrúlegur stíll

Golem eftir Gustav Meyerink

Sumar bækur eru göldróttar, Gólem tengir Prag og Akureyri í einhverri grárri forneskju, löng saga sem ég fer kannski betur í þegar ég er búin að lesa hana og sjálfsagt kominn með allt aðrar hugmyndir um hana

Steppenwolf eftir Herman Hesse

Virkar spennandi þó ég hafi ekki hugmynd um hvað hún er

On the Road eftir Jack Kerouac

Því ef nafnið væri ekki frátekið myndi ég nota það, hefur lengi glumið í hausnum á mér eins og eitthvað ósungið lag

A Moveable Feast og / eða The Sun Also Rises eftir Hemingway

Alltof langt síðan maður hefur kíkt almennilega á kallinn

Total Fears og / eða I Served the King of England eftir Bohumil Hrabal

Hrabal er einfaldlega yndislegur á sinn alPragverska hátt. Langar meira að lesa Total Fears, en I Served ... hlaut frábær meðmæli frá manneskju sem ég tek mark á

The Ground Beneath Her Feet eftir Salman Rushdie

Rushdie inspíreraður af U2, hljómar skemmtilega brjálæðislega allt saman

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Kommentakerfið loksins komið í lag, nú loksins getið þið farið að æsa ykkur yfir röflinu í mér ...

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Þriðjudagsbíó

Gullhnötturinn var ágætur en úrslitin skipta náttúrulega ekki meira máli en Deildarbikarinn og Reykjavíkurmótið í fótbolta, þetta er aðallega skemmtilegt þegar maður er að spá í Óskarinn – þegar að honum kemur verða allir búnir að gleyma þessu. Hefði svo sem orðið eftirminnilegt ef Nicole Kidman hefði orðið að afhenda Krúsa gamla verðlaun.

Sýnist vera fjórar myndir nokkuð öruggar með Óskarstilnefningu, Lord of the Rings, Mystic River, Cold Mountain og Lost in Translation. Ansi margar sem eiga séns á síðasta sætinu, Master and Commander, Big Fish, The Last Samurai og eitthvað sem ég er að geyma.

Besti leikari verður væntanlega á milli Sean Penn og Bill Murray, með Jude Law í smá séns, hjá leikkonunum verður þetta á milli Charlize Theron og Nicole Kidman þó Uma Thurman eigi allt gott skilið. En tilvitnun kvöldsins er í snillingin Ricky Gervais sem vann tvöfalt fyrir The Office:

"I'm not from these parts. I'm from a little place called England ... We used to run the world before you."

Svo veit ég ekki hvort 21 Grams á mikinn séns en mig dauðlangar í hana, kæruleysi að fara ekkert í bíó í Reykjavík – en þetta er bara alltof stuttur tími til að gera eitthvað af viti. En bráðum kemur DVD spilarinn og nýja sjónvarpið heim til mín og þá getur þetta kvikmyndahorn farið að verða fróðlegt. Er annars að fara að bombarda bíómyndum á krakkana – Bringing Up Baby og Rushmore í þessari viku, líka Dazed and Confused og Beautiful Girls fljótlega ef ég hef upp á þeim – geymi 12 Monkeys, Dirty Pretty Things, Almost Famous og Bowling for Columbine fyrir vorið.

mánudagur, janúar 26, 2004

Heimurinn

10 % prósent veraldarinnar búið, þar sem ég byrjaði ekki að ferðast fyrr en tíu ára þá er rétt að reikna þetta sem svo að ég þurfi 153 ár til að ná restinni. En hins vegar hefur þetta gengið hraðar undanfarin sex ár þannig að ég er nú nokkuð bjartsýnn á að klára þetta fyrir hundraðasta afmælisdaginn - svo maður geti nú slappað af í ellinni ;)create your own visited country map
or write about it on the open travel guide
Mánudagsmæða ii

Horfði á afhendingu Golden Globe í gær og pirraði mig á íslenska kynninum eins og venjulega. Það mætti benda þeim fávita á að best dramatic film útlegst ekki sem besta spennumynd (þó vissulega séu spennumyndir meðal þeirra sem fylla þann flokk) og að Lost in Translation er ekki frumraun Sofiu Coppola sem vakti nú ansi mikla athygli með The Virgin Suicides. Hann getur svo sem ekkert gert að því greyið að vera ekki almennilegt bíónörd en af hverju í ósköpunum fær Stöð 2 ekki almennilegt bíónörd í verkið? Það er nóg til af þeim hérlendis og þeir eru varla allir með jafn mikla munnræpu og Ólafur Torfason í fyrra. Máski hugmynd raunar að leyfa nokkrum nördum að tjá sig þennan klukkutíma fyrir þáttinn og hlífa okkur fyrir þessum leiðinlegu rauðadregilsviðtölum (gætu verið ágæt ef spyrlarnir væru færir um að hugsa heila hugsun) og leyfa einhverjum þeirra svo að koma með fá en vel valin komment á meðan á veislunni stendur. Nei, í staðin eru allar myndir æðislegar eða örugglega æðislegar o.s.frv.
Það sem fer nefnilega mest í taugarnar á mér við þetta er hvað þetta er dæmigert fyrir þetta blessaða þjóðfélag. Það er nefnilega til hellingur af hæfu fólki, það er bara afskaplega lítill metnaður oft hjá mörgum vinnuveitendum við að finna það.
Mánudagsmæða i

Handboltalandsliðið úr leik, var í flugvél þegar það gerðist. Að einhverju leiti var þetta um vanmat að ræða, þeir voru að spila við lið sem voru á mjög svipuðum standard og þeir – ekki lið sem eru slakari og þeir. Ungverjaland, Slóvenía og Tékkland eru öll með lið sem eru vön því að vinna einstaka leiki gegn stóru liðunum – eins og við – en lenda líka reglulega á rassinum – eins og við. Auk þess eru þessi lið í rauninni öll því sem næst á heimavelli, Slóvenía heldur keppnina, Ungverjaland er næsti bær við og Tékkland ekki svo langt undan, þetta eru í raun þrjú best stæðu löndin sem voru handan járntjalds. Ekki nema rúmt ár síðan ég tók rúntinn Tékkland--Ungverjaland-Slóvenía. Slóvakía var að vísu á milli Tékkó og Ungverjalands en ég sá ekki ástæðu til að stoppa þó að símafyrirtækin þar töluðu íslensku.
Það jákvæða er að það er stutt í næsta mót og menn ættu að geta mætt þangað með giska ferskt blóðbragð í munninum – en þetta undirstrikar líka það að það hefði átt að reka Guðmund strax eftir síðustu Evrópukeppni. Það er nefnilega að sannast enn og aftur að af einhverjum einkennilegum ástæðum þá duga landsliðsþjálfarar á Íslandi aldrei nema í eina, mesta lagi tvær, keppnir. Bogdan náði 6. sætinu á ÓL 84 og HM 86, en eftir þetta var allt á niðurleið, 8 sætið á ÓL 88 og 10 sætið á HM 90. Þeir unnu að vísu B-keppnina 89 en ég náði nú aldrei upp í það hvað var merkilegra við að vinna keppni þar sem 9 bestu þjóðir heims eru fjarverandi heldur en að vera í 10 sæti í A-keppninni? Svo kom Þorbergur og eftir að hafa gert það sem þurfti í B-keppninni þá náði hann besta árangri sem íslenskt landslið hafði náð til þessa, 4 sæti á ÓL 92. En eftir það, eintóm niðurleið, 8 sæti á HM 93 og 13-16 sætið á HM 95 á heimavelli. Þá er það Þorbjörn Jensson sem viðheldur þeirri hefð að byrja sitt fyrsta stórmót með stæl, 5 sæti á HM 97 – en hélt síðan upp á það með að komast ekki í næstu keppnir og þegar þeir loksins komust áfram, EM 2000 og HM 2001, þá hefði jafnvel betur verið heima setið. Síðan kemur Guðmundur og rífur liðið upp í 4 sætið á EM 2002, nær svo sem þokkalegum árangri á HM 2003, 7 sætinu, en svo renna þeir á rassinn núna. Er ekki kominn tími til að tæla Alfreð frá Magdeburg?

sunnudagur, janúar 25, 2004

Sunnudagsgöngutúr

Maður þarf að passa sig að svíkja ekki æskuhugsjónir sínar. Né vanrækja. Jú, jú, stundum þroskast maður frá þeim en oftar þá gefst maður upp á þeim þó maður viti betur. Nei, ég er ekki að tala um að bjarga heiminum – þó vissulega sé þetta allt hluti af stóra planinu. Ein af mínum æskuhugsjónum var sú að það ætti að banna fólki að fá sér göngutúr í joggingalla (nema ef um algera tilviljun væri að ræða) því að fólk má aldrei gleyma því að aðalmarkmiðin með því að fá sér göngutúr er að hugleiða lífið og tilveruna, hugsa / tala (eftir því hvort maður er einsamall eður ei) um stelpur, framtíðina, minningarnar og allt annað sem maður hugsar aldrei skýrar um en á 5 km. hraða á klukkustund. Sálarhraða. Líklega geng ég hraðar, en þetta er meðaltalssál. Það er nefnilega heimspekileg og stórmerkileg athöfn að ganga, sérstaklega þegar ferðinni er ekki heitið á neinn sérstakan stað, og álíka mikill skandall að vera í jogginggalla við þá iðju og að mæta í sama galla á árshátíð.

En vissulega hef ég vanrækt þessa hugsjón óþarflega mikið undanfarin ár. Sú tíð er liðin að við Starri löbbuðum nokkra hringi um gervalla Akureyri sumar næturnar, svo ekki sé minnst á gamla góða Kjarna. Tek þó fram að jogginggallinn tengist enn sem fyrr íþróttaiðkunum. En það að búa ýmist í Reykjavík eða Sauðárkróki þegar ég er ekki í útlöndum er stórhættulegt þessari iðju, þetta endalausa rok sem staðirnir eiga sameiginlegt, maður heyrir ekki nógu vel í sjálfum sér hugsa. Bílaniður truflar mig lítið, enda yndislegt að rölta um margar erlendar stórborgir. Er einmitt að velta því fyrir mér að fara út um páskana – eða í sumar – eða bæði. Mikið að gerjast í þeim efnum enda verð ég náttúrulega kennari í sumarfríi í júní og júlí – nema mér bjóðist eitthvað rosalega skemmtilegt starf. En allavega, til þess að rífa sjálfan mig nú upp í göngutúra æskunnar þá held ég sé ástæða til að búa til þetta vikulega horn hérna – sem og til að mótmæla öllum joggingallalöbburum landsins :-)

Sem sagt, ýmist loginn eða sannur labbitúr, sé til hvort það verður persónulegt eða ekki, fer eftir því hvort eitthvað verður að segja frá, en núna?

Var í Reykjavík um helgina, maður upplifir smá firringu þegar maður rifjar upp hvað það er mikill troðningur bara á venjulegu föstudagskvöldi í borginni – en kemst fljótt yfir það og kemst í gamla gírinn. Var með Kidda bókmenntalöggu og félögum hans, hitti Elísu sem var ógurlega ánægð með mig, Kötu G. sem var búin að eignast barn og Þór sem var glaður
. Einhverjir gamlir draumar létu á sér kræla, ekki út af neinu sérstöku öðru en nostalgíu, þetta verður eins þegar ég yfirgef Krókinn, þetta verður alltaf eins. Stundum er þetta þó miklu sterkara, þegar staðir eru beintengdir sálinni á manni eins og tilfellið er með Akureyri og Prag. Ég veit ekki af hverju en ég held samt að það sé af því ég þekki draugana þar og langar að skilja þá betur. Svo ekki sé minnst á englana. Hvenær er réttur himinn fyrir ofan þig?

-------------------------

Hversdagurinn er óþolandi þegar hann er ekki viðeigandi. Ég man ennþá þegar turnarnir féllu og maður varð að halda áfram að afgreiða viðskiptabækur. Eftir á að hyggja var það að vísu viðeigandi – en maður vorkenndi samt Kananum þá. Í fyrra dó Dalli frændi og kötturinn minn með stuttu millibili. Ég var hér, aðeins klukkutíma akstur í burtu en langt upp fyrir haus í vinnubrjálæði. Vinnu sem skiptir mann of miklu til að hunsa hana. Þannig að hvorugt fékk minningargreinina sem þau áttu skilið frá mér. En hvað er betra en góður labbitúr til að koma hlutunum á hreint:

Dalli, ég vildi að ég hefði þekkt þig betur og ég vildi að ég hefði borið kistuna þína. En ég veit þú ert skautandi þarna einhversstaðar á ísilögðum himninum.

Loppa kisa, ég heyri þig stundum enn koma tiplandi niður stigann. Þú átt öll mín leyndarmál í gulum glyrnunum, ég næ ekki réttum takti í sálina stundum án þess að hafa malið þitt sem undirspil.

Já, væntanlega þarf sálin að finna réttu undirleikarana til að virka rétt. En stundum þarf líka að breyta til í bandinu svo maður fari ekki að framleiða lyftutónlist. Svo er einnig nauðsynlegt að gefa reglulega út sólóplötur.
Nýkominn að sunnan, keypti loksins sjónvarp og dvd-spilara þannig að gamla trausta tækið vantar nýtt heimili. Hvern langar ekki í aldarfjórðungsgamalt sjónvarp? Annars kominn aftur á Krókinn og er að hugsa um að láta verða af því sem ég var að velta fyrir mér um áramótin - gerbyllta þessari síðu. Bæði gera hana virkari - verður nú varla mikið vandamál miðað við ládeyðuna undanfarið - en þó aðallega með því að leika mér að því að gera mismunandi dagskrárliði. So, without further ado, Gambrinn presents ....

föstudagur, janúar 23, 2004

Höfuðborgarbúum til ómældrar gleði þá mun ég hrella íbúa borgarinnar um helgina. Almennt pöbbarölt, bíógláp, át og sjónvarpskaup eru á dagskránni.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Svo má ekki gleyma því að hún skuldar mér bjór!
Mér finnst það ætti að leggja janúar af. Einstaklega andlaus mánuður. Svo finnst mér líka að einhver ætti að gefa mér flugmiða til Reykjavíkur. Annars gert lítið gáfulegt undanfarið, kennt og aðstoðað Gettu betur-liðið eitthvað aðeins. Það gekk svo sem þokkalega eftir atvikum, en þegar atvikin eru þau að það er byrjað að æfa í janúar þá er þokkalegt að tapa naumlega í fyrstu umferð. Og þýskukennarinn er alltaf að bögga mig. Hún hendir í mig þolmyndum, kvartar yfir nágrönnunum og sparkar í húsvörðinn þegar hún dettur á hausinn á svellinu fyrir framan skólann

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Það fer alveg skelfilega illa saman að halda úti bloggsíðu og vera kennari, vinnustaðafréttir verða alltaf svo ritskoðaðar ... ekkert samt sem bendir til þess að litlu dýrin hafi fundið síðuna en það kemur að því. Ekki það að það sé neitt að ritskoða akkúrat í augnablikinu, þetta er ekki jafn skrautlegt og rétt fyrir jól. En núna er ég að fara að undirbúa morgundaginn, sé samt fram á því að það séu ágætar líkur á því að ég sleppi við það þessa önn að vinna öll kvöld og helgar, og þó, ég verð sjálfsagt bara enn manískari með hvern bekk núna þegar ég hef færri fórnarlömb ...

sunnudagur, janúar 04, 2004

Fer heim á morgun - að heiman - er búin að vera nógu lengi í burtu frá Króknum til að kalla það heim, hversu lengi sem það endist. Skemmtilegt bjórkvöld að baki, árið hingað til, fyrsta hlaupaár í 8 ár, ekkert um það að segja annað en eintóm og verðskulduð leti. Var algjörlega punkteraður vissulega, núna er spurning hvað verður næst, allavega, næsta færsla verður frá höfuðstað Norðurlands vestra, miklar pælingar um byltingu á þessari síðu en hingað til ekki mikið meira en pælingar. Sjáum til, núna er ég að fara að sofa. Eða lesa, það rennur allt saman ... bið bara góða nótt í bili, örlítil koss út í nóttina til þeirra sem eiga hann inni ...