fimmtudagur, mars 18, 2004

Fimmtudagsbíó

Madonna og dansararnir sjö

Madonna: Truth or Dare

Skjár 1 með tónlistarbíóþema þennan mánuðinn og einhvern veginn festist ég við þessa þegar ég nennti ekki að fara að undirbúa morgundaginn. Ekki nærri því jafn sjokkerandi og hafði verið lofað, smá skot á Kevin Costner og einstaka ögranir og kynlífshjal en lítið meira. En sem heimildarmynd um Ljóskumetnaðstónleikaferðina er hún oft forvitnileg, gallinn er kannski helst sá að myndir einna sterkust þegar fókusinn er á dönsurunum og hinum í fylgdarliðinu – þegar kemur að Madonnu sjálfri þá er hún, eðlilega sjálfsagt, oftast frekar vör um sig. Ekki alltaf þó, þegar hún er spurð um ást lífs síns svarar hún einfaldlega “Sean” – og svo er hún ósköp skotin í Antonio Banderas og kemst svo að því að hann er giftur. Veit væntanlega ekki þarna að hún á eftir að leika á móti honum í Evitu fjórum árum seinna. En mest megnis er hún einhvers konar einkennileg blanda af táningsstelpu og móðurlegum – en mjög kröfuhörðum – yfirmanni. Virkar sem alger vinnualki – og vissulega stórmerkilegt til þess að hugsa að það eru 20 ár síðan hún sló í gegn – ég efast um að margir hafi spáð henni viðlíka langlífi í bransanum þá.

Þó forvitnilegt hvað henni er tíðrætt – þegar hún heimsækir Ítalíu og Kanada sérstaklega – um málfrelsið og hve sterkt það er í Bandaríkjunum. En er vissulega löngu búin að sjá í gegnum það, flutt til Bretlands og semjandi lög þar sem Bandaríski draumurinn og hið svokallaða málfrelsi þeirra er dregin saman í háði. Eða var ástandið kannski svona miklu skárra þar árið 1991?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home