föstudagur, júní 11, 2004

Grikkland - A - riðill

Grikkir eru með óvæntari liðum til þess að komast til Portúgal, þeir hitta hér fyrir Spánverja aftur sem hafa væntanlega lært sína lexíu og eru líklegir til þess að ná fram hefndum. Það merkilega er þó að vandamál Gríska liðsins í gegnum tíðina hefur verið það sama og hjá Spánverjum, ólíkt flestum öðrum þjóðum þá hafa leikmenn oft meiri metnað fyrir hönd félagsliða sinna en landsliðsins. Það hefur þó mikið skánað undanfarið á Spáni eftir því sem erjur veldistíma Franco verða fjarlægari og það er loksins að breytast í Grikklandi, mikið til fyrir tilstuðlan þýska þjálfarans Rehagel – en munurinn á þeim og Spánverjum er þó sá að þeir eru ekki með nándar nærri eins sterka leikmenn. Vörnin er þó traust þó þar séu engir heimsklassaleikmenn frekar en annars staðar í liðinu, þeir fóru í gegnum síðustu sex leiki forkeppninnar án þess að fá á sig mark og hafa verið illsigranlegir í vináttuleikjum undanfarið. En vandamálið er hinsvegar það að þeir skoruðu einungis 8 mörk í jafnmörgum leikjum.

Spá: Neðstir í riðlinum en sleppa líklega við þá martröð sem þeir lentu í síðast þegar þeir komust á stórmót (HM 94) þar sem þeir fengu ekkert stig og markatalan var 0-10 – meira að segja Maradona, kominn á grafarbakkann sem hann hefur verið á síðan, með mark gegn þeim. Núna líklegri til þess að gera markalaust jafntefli eða tapa 1-0.

Lykilmenn: Stelios Giannakopoulos stórstjarna frá Bolton verður mikilvægur, senterinn Demis Nikolaidis frá Atletico er svo eina von þeirra um að setja mark. Varnarjaxlinn frá Roma, Traianos Dellas, þó aðalmaðurinn, bæði bindur hann vörnina saman og eins þá lítur hann alveg eins út og Grísk myndastytta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home