þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Enskt útlendingahatur og spænskur rasismi

Mikið hefur verið rætt í ensku pressunni um meintan rasisma Spánverja eftir köll þeirra að svörtum enskum leikmönnum í landsleik þjóðanna í síðustu viku. Gagnrýni á þá Spánverja sem þarna bauluðu eða kölluðu niðrandi orð sökum litarháttarins eins er svo sannarlega verðskulduð – en hafa Englendingar efni á að setja sig á háan hest? Sérstaklega þegar gagnrýnin virðist oft ekki vera aðallega beint gegn þessum ræflum sem öskruðu ókvæðisorðin heldur spænsku þjóðinni sem heild?

Phil Ball er frábær penni sem skrifar um spænska boltann á Soccernet – en jafnvel enn meira um spænska menningu og hvernig hún tengist boltanum. Hann talar um muninn á þjóðfélögunum, á Spáni hafi pólitísk rétthugsun átt erfitt uppdráttar og samfélagið sé ekki jafn stofnanavædd og flest sambærileg Evrópuríki. Niðurstaðan er þessi:

It is this that the English have misunderstood, and as a result there now exists a wholly unjustified feeling that Spain is somehow racist. This is nonsense, just as it is nonsense to think that England itself is free of racism, just because the English are better at sweeping it under the institutional carpet.

Þó er rétt að athuga að þetta á allt eins við um Íslendinga, jafnvel frekar en Breta. Enda má segja það um Breta að þó ástandið hafi verið skelfilegt þar fyrir alls ekki svo mörgum árum síðan þá hafi það breyst mikið. Bretland er, í kjölfar nýlendustefnunnar gömlu, orðið fjölþjóðlegt þjóðfélag og hafa blessunarlega verið að bæði sætta sig við þá staðreynd og eru nú meira og meira að taka henni fagnandi. Verðlaunalisti yfir Bookerverðlaunabækur eru núorðið fullir af bókmenntum minnihlutahópa og flestir eru fyrst og fremst Bretar áður en þeir eru svartir, hvítir eða gulir. En á móti kemur að útleningahatur í Bretlandi skelfilegt sums staðar, sérstaklega í götublöðunum sem hafa miklu meiri áhrif í samfélaginu en Bretar vilja viðurkenna. Það að kalla Frakka hvítlauksróna og núa Þjóðverjum endalaust upp úr stríðinu er algjörlega viðtekið. Útlendingahatur og rasismi er vissulega nátengdir þættir en þó ekki alveg það sama, annað snýst um vegabréfið þitt, hitt um húðlitinn. Það er jákvætt ef búið er að ýta öðru út í horn, en bæði sú staðreynd að það sé í horninu og að hitt sé enn að grassera út um allt þýðir að það er töluverð hræsni fólgin í því að úthrópa flísina í augum fólks í öðrum löndum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home