miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Einstaklega kjánalegur Röskvupistill

Í mánudagsmogganum var pistill tveggja Röskvuliða sem virtist hafa það markmið helst að berjast gegn því að tekjuskerðing námslána minnki. Jú, þau vilja líka að grunnframfærslan hækki, eitthvað sem ég er vissulega algjörlega sammála. En þetta með tekjuskerðinguna, er þetta í alvörunni skrifað af fólki sem veit eitthvað um málefni nemenda við Háskóla Íslands? það er eins og þau haldi að þeir sem verða fyrir tekjuskerðingunni séu bara ríkir forstjórar sem séu bara í Háskólanum á veturna að chilla á námslánum.

Ég skal taka sjálfan mig sem dæmi. Ég var að vinna við kennslu síðasta vetur. Af ýmsum ástæðum, en ein ástæðan var sú að eftir að ég kláraði BA gráðuna hafði ég einfaldlega ekki efni á að vera í skóla þann veturinn ef ég ætlaði ekki endanlega að drukkna í yfirdrætti. Þennan vetur náði ég umræddum yfirdrætti niður og var um það bil á sléttu þegar ég hóf nám í HÍ í haust. Rétt er að taka fram að tekjurnar voru þó ekki meiri en svo að þær voru töluvert fyrir neðan meðaltekjur á Íslandi. Síðan þegar ég hóf MA-nám í HÍ þá er ljóst að sökum þessa ná námslánin varla 50 þúsund krónum, sem þýddi að ég hef þurft að vinna meira, sem þýðir að námslánin skerðast enn meir – um leið og skatturinn er farinn að taka sitt og því áhrifin í raun ekki ósvipuð og um tvísköttun sé að ræða. Um leið þarf maður eðlilega að passa sig að klúðra ekki önninni með því að vinna ekki of mikið því það þýðir einfaldlega engin námslán. Ef einhver er farinn að hafa áhyggjur af mér er rétt að taka fram að önnin kom svo sem mjög vel út árangurslega, þó ekki sé það á neinn hátt LÍN að þakka, en ef það hefði ekki gerst hefði það einfaldlega þýtt að ég hefði einfaldlega þurft að vinna ennþá meira. Ég held ég þurfi ekki að halda lengi áfram til þess að sýna hvaða vítahring nákvæmlega þessi rakalausa tekjuskerðing getur leitt til.

Svo ég nefni eitt annað atriði í greininni:

„Því miður hafa ekki allir kost á því að vinna samhliða námi eða fá aðstoð frá vinum og vandamönnum.“

Hér er reginmisskilningur á ferðinni, og ekki bara einn heldur tveir. Í fyrsta lagi þá er orðalagið “að eiga kost á því að vinna samhliða námi” afskaplega hæpið, persónulega myndi ég vilja eiga þess kost að vinna ekki samhliða námi. Svo er því miður ekki, við erum flest að vinna meðfram námi af því við þurfum þess, ekki af því okkur finnist svo æðislegt að vera alltaf í vinnunni þau skipti sem við erum ekki að læra. Seinna atriðið kemur málinu einfaldlega ekkert við, það er enginn niðurskurður á námslánum vegna þess að þú hafir fengið aðstoð frá vinum og ættingjum, hins vegar er tekjuskerðingin ekki ólíkleg til þess að setja nemendur í þá stöðu að þurfa að fá aðstoð, og ég held að þeir séu fáir háskólastúdentarnir sem njóta þess eitthvað sérstaklega að vera í þeirri stöðu að vera upp á aðra komna. Þeir háskólastúdentar sem eru hins vegar í góðu yfirlæti á framfærslu foreldra þurfa hins vegar síður að vinna eitthvað að ráði og sleppa því að mestu við skerðingu vegna tekna. *

Heilt yfir þá er aumingjalykt af þessari baráttu. Dettur engum í hug að berjast fyrir því að hækka grunnframfærsluna og lækka frádráttinn? Er Röskva ekki nógu dugmikill til þess að leggja það til að breyta námslánum að hluta til – og í fyllingu tímans alveg – í styrki? Eigum við háskólanemar að vera á horriminni til eilífðarnóns?

Læt þetta rant duga í bili, að undanskilinni neðanmálsgrein hér fyrir neðan sem tileinkuð er Vöku. Svo birtist væntanlega fljótlega hugleiðing um svipað efni á síðu H-listans.

* En fá hins vegar ekki full námslán ef þeir búa í foreldrahúsum – fjárhagsleg aðstoð vandamanna kemur hins vegar hvergi inní dæmið. Hugleiðingar Vöku um einmitt þetta mál í þriðjudagsmogganum eru einfaldlega of ruglingslegar til að hægt sé að svara þeim, hugtakaruglingurinn allsráðandi þar sem skipt er í hópana “fjölskyldufólk”, “þá sem búa heima” og “þá sem búa einir” – búa þeir sem búa einir þá ekki heima hjá sér? Er „heima“ bara og eingöngu pabbi og mamma eða eru þau að tala um eitthvað „heima“ sem ég hef aldrei heyrt um? Allavega finnst mér einkennilegt ef þeir eru hlynntir því að námsmenn sem ekki þurfa að greiða húsaleigu og fá að auki reglulegar fríar máltíðir eigi þar af leiðandi rétt af jafnháum lánum og aðrir, þar á niðurskurður alveg rétt á sér. En þeir virðast að vísu alls ekki vissir um það sjálfir.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég tók einmitt líka eftir þessari setningu "því miður eiga ekki allir kost á því að vinna með námi" fyrir sakir þess hve illa hugsuð og mótsagnakennd hún var í grein sem ég renndi yfir í fljótheitum í Mogganum nýlega. Tek fram að ég er hvergi í framboði, er ekki einu sinni í HÍ og hef ekkert á móti Röskvu, en þessi rökstuðningur stóðst engan veginn. Auður

9:56 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home