föstudagur, mars 25, 2005

Ísafjörður II

Er á sæmilegu nostalgíuflippi í kvöld, Ísafjörður / Suðureyri á morgun þannig að það heyrist varla mikið í mér fyrr en á mánudag – ekki segja mér að það séu tölvur þarna? Og er þá ekki ástæða til þess að taka nostalgíuflippið á Ísafjörð? Hef að vísu aðeins einu sinni komið í þennan fæðingarbæ móður minnar og sá mest lítið af honum þá. Þetta var sumarið 1997 og tilefnið var að amma var áttræð og ákvað að halda veisluna fyrir vestan. Ég var auðvitað að vinna um daginn, frá sjö til hádegis, en þá hjólaði ég beint heim og brunaði með familíunni á Ísafjörð. Ekki búinn að borða neitt náttúrulega og þegar ég stakk upp á því að stoppa einhversstaðar til þess þá talaði pabbi um að við þyrftum að ná ferjunni og ég gæti fengið að borða þar. Um borð var svo heil ein ræfilssamloka sem ég lét mig hafa til þess að seðja sárasta hungrið og svo þurfti ég að bíða þangað til að við komumst loksins til Ísafjarðar um kvöldið. Þá var klukkan orðin sæmilega margt og ég hafði ekki hugmynd um hvort það væri nokkursstaðar hægt að fá eitthvað sent. En eins og fólk kannski man þá var þetta á þeim tíma sem Pizza 67 var til á hverju einasta krummaskuði í landinu, ef ekki álfunni. Ég átti bágt með að stökkva ekki á pizzasendilinn og faðma hann. Sem sagt, það er aðallega maginn á mér sem man eftir Ísafirði. Man lítið eftir afmælinu daginn eftir nema að það var á einhverju hóteli væntanlega og pabbi kveikti í jakkanum.
En best að hundskast í bælið svo ég verði sæmilega stemmdur á morgun, varla mikið lífsmark hér fyrr en á mánudag - ekki eins og það hafi verið sérstaklega líflegt undanfarið ...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home