þriðjudagur, júní 28, 2005

Kvöldið hans Eiríks

Eiríkur Jónsson fékk að njóta sín í báðum eftirfréttaþáttum kvöldsins.

Eiríkur Jónsson vinnur við fjölmiðla sem eru bestir af því þeir tala til fólksins. Hvaða óskilgreinda massa af fólki hann er að tala um veit ég ekki, ég veit bara að það lesa færri DV en nokkuð annað dagblað landsins.

Hins vegar gerir það hluti ekkert betri þó það sé talað við fólkið. Nasistarnir töluðu við fólkið. Ólíkt Eiríki Jónssyni voru þeir góðir í því. Því miður.

Það var heldur ekki fólkið sem ákvað að gefa út Hér og nú heldur fjölmiðlamógúlar í Skaftahlíð.

Sú staðreynd að til séu blöð úti sem eru jafn vond er engin afsökun fyrir að gefa út vond blöð hér. Í það minnsta eru þau blöð ekki svo illa haldin að afsaka sig með því að svona geri menn jú á Íslandi.

Eiríkur reynir að halda því fram að fréttamennskan sem blaðið stundi sé óhefðbundin. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er afskaplega hefðbundinn plebbaskapur. Rétt eins og karlaklúbbarnir og fermingarveislurnar sem Eiríkur sækir – nema ef vera skyldi að eingöngu þeir plebbalegustu nenni að tala við hann þar.

Eiríkur Jónsson fullyrðir að meintur viðmælandi hans – sem hafði gagnrýnt vinnubrögð hans við meint viðtal – sé einfaldlega rugluð og geri fátt annað en að ljúga. Teljast það sem sagt marktækir heimildamenn sem eru ruglaðir og gera fátt annað en að ljúga? Nógu marktækir til að byggja heila forsíðufrétt á?

Eiríkur talar fjálglega um það ábyrgðarlausa fólk sem hleypur frá börnum með allt niðrum sig - en á þó aðeins við fólk sem er fráskilið, alveg óháð því hvernig það sinnir börnunum sínum. Eiríkur Jónsson er fráskilinn.

Umræður spinnast um það í Íslandi í dag hvort þetta sé innanhúsmál 365 eða mál sem varði alla fjölmiðla. Eiríki finnst þetta prívatmál sem á að ræða í reykpásum hjá 365 - hins vegar er það forsíðufrétt þegar Bubbi kveikir sér í rettu.

Eiríkur fullyrðir að málið virðist ekki varða alla fjölmiðla enda sé aðeins talað um þetta hér innanhúss (á fjölmiðlum 365). Korteri seinna er hann mættur í Kastljós Ríkissjónvarpsins að ræða sömu hluti.

Eiríkur afrekar það í Kastljósinu að misnota fleiri spakmæli á um hálftíma en áður var talið mögulegt.

„Þú ert fulltrúi hræsninnar“ – segir holdgervingur hræsninnar.

Símon Birgisson er einhver vandaðasti maður sem Eiríkur Jónsson hefur kynnst. Menn sem Eiríkur Jónsson hefur kynnst íhuga meiðyrðamál.

Helga Vala fékk helling af rokkprikum fyrir að jarða Eirík Jónsson með aðra hendi aftan við bak.

Eiríki Jónssyni tókst að láta Kristján Jóhannsson líta vel út.

föstudagur, júní 24, 2005

Spegillinn

Mér datt aldrei í hug að ég myndi segja þetta en pistill Bloggþórsins í Speglinum var bara reglulega góður. Hann hefur líklega fyllst svona mikilli andagift við það að vera á eftir systur minni í útsendingu. Þið getið hlustað hér.
Kastljósið í kvöld fannst mér sorglegt. Þrír viðmælendur, allt vel skarpir einstaklingar og allir tengdir listum – en umræðan er öll á markaðsnótunum. Eru viðskiptafræðingarnir búnir að selja bóhemunum sína orðræðu? Hvað varð um byltingarnar, hugsjónirnar og rokkið? Vissulega er þetta ennþá til staðar en þetta virðist vera orðið óttalegt feimnismál.

Opið bréf til Svíakonungs

Kæri Karl Gustav,

Ég veit þú lest þetta reglulega, værirðu nokkuð til í að splæsa á mig sænskum ríkisborgararétti í eins og eina kvöldstund? Ég lofa að skila honum aftur á morgun.

Hvernig sér maður að stúlka sem gengur inní strætó sé útlensk?

Hún byrjar á að spjalla grunsamlega lengi við bílstjórann. Síðan gengur hún inní vagninn, nóg af lausum sætum, en samt sest hún beint á móti gömlu konunni sem er í tvöfalda sætinu. Gamla konan er alveg sjokkeruð á þessari innrás í hennar persónulega strætórými og færir sig um eitt sæti.

Gíslataka

Dreymdi að ég væri staddur á hóteli sem var búið að taka í gíslingu. Michael Stipe var einn af gíslatökumönnunum. Var orðinn nett pirraður á kallinum og var að spá hvort ég ætti að gefa honum einn á lúðurinn eða fara niðrí herbergi og brenna alla REM diskana mína. Ákvað að líklega væri betra að gefa honum einn á lúðurinn. Er svo að frétta að síðasta færsla, sem var skrifuð undir lögum REM, hafi birst í DV. Einhver fjölmiðlaglöggur draumráðandi þarna úti?

fimmtudagur, júní 23, 2005

At My Most Beautiful

Er að taka til þessa dagana, tek stuttar tarnir í einu. Þarf nefnilega alltaf að skoða svo mikið í leiðinni, rifja upp. Núna eru það minnisbækurnar. Þær eru eitthvað takmarkað skipulagðar þannig að maður veit aldrei hvaða ár er fyrr en eftir að hafa lesið eitthvað smáræði. Oftast er maður þó úti, hérna heima eru minnisbækurnar alltof fastar í vasanum.

Michael Stipe hummar undir At My Most Beautiful. Hvenær var ég mest ég? Eða öllu heldur; hvenær náði ég sjálfum mér best í minnisbækur? Og er ég að leita að sjálfum mér eða einhverjum sem ég þykist vera eða vil vera? Samkvæmt minnisbókunum eru helstu einkennin blankheit, þessi útlenski einmanaleiki og biðin eftir að lífið byrji. Svo eru náttúrulega góður skammtur af aulabröndurum, heimilisföngum sem ég þurfti eitt sinn að finna og lestaráætlanir svo ég gæti nú örugglega rétt misst af lestunum. Það er algjör óþarfi að vera hálftíma of seinn þegar maður getur verið mínútu of seinn.

Nightswimming tekur við. Það er einmitt það sem vantar í þetta sumar. Að nóttin verði óútreiknanleg.

mánudagur, júní 20, 2005

Elísabet Bretadrottning er búin að kaupa sér ipod. Það merkilegasta við fréttina er þó samt sú staðreynd að þetta er undir liðnum "unga fólkið" á vef rúv.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Það stendur Red Barnet: Save the Children Denmark á pennanum mínum. Hef ekki hugmynd um hvar ég fékk þennan penna, en Starra er a.m.k. bjargað frá Baunverjalandi í bili. Stefnan er því á bolta á lördag, veðrinu er skipað að vera gott. Ég meina, rigningin getur fengið næga útrás á morgun enda lögbundinn rigningardagur. Ekki það að ég mótmæli því neitt að veðrið sem er núna haldi sér, rosalega var ljúft að þvælast niðrí bæ áðan að gera akkúrat ekki neitt.

Missing people

Blogg um ímeil

Það er fátt ömurlegra heldur en þegar maður týnir ímeilum útlendinganna sinna eða þau hætta að virka (Það er alltaf hægt að finna Íslendinga í símaskránni). Nema ef vera skyldi allir þeir sem maður hafði ekki vit á að fá ímeil hjá. Brassinn Casio sem ég flakkaði um Berlín með (var búin að fá nóg af honum eftir stanslausar þriggja daga samvistir en saknaði hans náttúrulega eftir klukkutíma), Slóvenarnir Natalije og Sasja, Anka pólska, Kanadísk-tékkneska parið sem ég bjó með í Zizkov, Vera í Prag, þýðverja/belgagengið þar, Bodil og Amalia ...

en allavega, dreif mig í að meila útlendingunum mínum öllum fyrir stuttu. Meilaði líka þeim sem voru orðnir óvirkir, svona af gömlum vana. Og viti menn, haldiði ekki að ég hafi fundið Charlie og Valentinu aftur. Netfangið Valentinu hafði verið óvirkt en var skyndilega orðið virkt aftur, stelpan orðin mamma og allt í lukkunar velstandi í Udine, enda sér Vale um að redda innflytjendum húsnæði. Gott að vera ekki búin að týna síðustu manneskjunni sem ég fór til Auschwitz með og spáði fyrir mér undir súð í Kraká með Wyborova vodka og Prins Póló í maganum.

Charlie vissi ég að var komin með nýtt meil en sú adressa var grafin í tölvu sem crashaði á Króknum. En fann svo adressuna nýju eftir krókaleiðum og gamli brúarsmiðurinn er núna í Leicester á milli þess sem hann flýgur til Asíu fyrir háskólann sem hann vinnur hjá að reyna að telja þarlendum trú um hvað breska menntakerfið sé æðislegt. Í gamla daga vorum við Charlie í tékkneskutímum saman (ehemm, hóst, stun) og kíktum venjulega á Radegast á eftir – og horfðum á Spörtu Prag taka Barcelona í kennslustund í Meistaradeildinni. Verst að þeir töpuðu.

Svo kom meil frá Piotr, herbergisfélaga mínum á Vétrník, götu vindanna, sem var auðvitað ánægður með landa sinn Dudek. Annars er Pési mest upptekin við það að kenna útlendingum pólsku og lesa pólskar hip-hop vísindaskáldsögur. Jack sendi póst frá Egyptalandi þar sem hann var að þykjast vinna eitthvað. Fyrir þá sem ekki vita er Jack þekktari undir nafninu Volcano Ernie og var annar helmingur merkasta brandaratvíeykis sem nokkurn tímann hefur búið á Gamla garði. Fyrir utan að búa til helvíti góðar chips klukkan fjögur á föstudagsnóttum. Ofurhetjunafn hins helmings tvíeykisins var Crazy Icelandic Person.

Þá má ekki gleyma sjálfskipuðum sálfræðingnum mínum í Oxford. Ilona sér náttúrulega um dramatíkina eins og venjulega. Ennþá afskaplega ástfanginn af Kýpverska stjörnufræðingnum Kostas og staurblönk í Oxford. Sem sleppur alveg því hún borðar eins og kanína.

Tékknesk-Ástralska kengúran Elka skrifaði óvenju stutt bréf (by her standards) og var ennþá að vinna í Radio Australia og nudda fólk í hjáverkum. Jim er í Þýskalandi að klára skáldsögu og kenna ensku. Þau voru einmitt bæði gjörn á að villast með okkur Charlie á Radegast eftir, ehemm, tékkneskutíma.

Svo reikna ég með árlega tölvupóstinum frá Carsten bráðlega, síðast þegar ég vissi var hann að vinna í súkkulaðiverksmiðju eða að þvælast um S-Afríku. Man ekki hvort var á undan ... Jamie var einmitt einhversstaðar þar síðast þegar ég vissi. Þeir voru náttúrulega sidekickin okkar Jacks á Gamla garði. Svo var Karl heima í Ástralíu að surfa, Leos hálfónýtur í Prag og Manuel í ástarsorg á Spáni. Karl vann með mér í Sölden við að bera matarbakka í burtu frá fullum Austurríkismönnum – sömu matarbakka og við renndum okkur svo niður alpana á seint um kvöldið til þess að komast í fótbolta eða á pöbb, svona eftir atvikum. Leos er fyrrverandi Ilonu og besti sénsinn minn á frírri gistingu í Prag. Tékkar eru frábærir fyrrverandi. Manuel var á Gamla garði, solid spánverji sem ég komst að löngu seinna að allar stelpurnar voru brjálaðar í. Ég sem hélt við Cesar værum með það coverað. Cesar var einmitt síðast þegar ég vissi í Finnlandi, meilið hans er löngu dautt. Sarah kann ekki á tölvupóst en Karl ætti að geta komið mér í samband við hana við tækifæri. Mathias geymi ég ennþá sjóarahandklæði fyrir, Jesse er væntanlega í New York sem fyrr og Lúkas er væntanlega á skíðum í Póllandi – það kæmi á óvart ef ég heyri nokkurn tímann í þessum þrem snillingum aftur. En samt ekki nærri jafn mikill missir og ef ég hefði týnt Charlie eða Valentinu.

Gróf svo nú í gær upp meilið hans Padraic sem er í Dyflinni að klippa stuttmyndir. Á heimboð þar.

afskaplega samhengislaus færsla, ég veit, en það er einmitt málið, maður er svo dreifður eitthvað. Allir að fara eitthvað annað, nema ég sé sjálfur að fara. Hef aldrei fattað almennilega hugtakið vinahópa, mínir eru út um allt og ansi langt frá því að vera einhver hópur. Ótrúlegasta fólk sem hefur aldrei séð hvort annað.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Alvöru mótmæli

Ég skil ekkert í því hvernig fjölmiðlar landsins halda ekki vatni yfir þessari saklausu skyrslettu. Ekki vakti neinn því athygli seint á síðustu öld þegar við í Garðræktinni fórum í heilagt stríð við óaldalýðinn sem vann á Leikskólunum. Þá var skyr nú með saklausari vopnum, mygluð mysa, eldgömul tabascosósa og annað miður girnilegt og löngu útrunnið sem við fundum aftast í ísskáp foreldra okkar voru helstu vopnin. Og við létum ekki eina auma slettu duga enda þurftum við að mótmæli óréttlæti gervallrar heimsbyggðarinnar. Eða að minnsta kosti þangað til einhver ábyrgur góðborgari hringdi niðreftir að kvarta yfir okkur.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Útsmogið markaðsbragð

Maður hefur líklega séð frétt um meint samband Angelinu Jolie og Brad Pitt á hverjum degi síðasta árið eða svo. Fréttirnar eru alltaf eins. Slúðurblöðin (og með slúðurblöðunum á ég vitanlega við Fréttablaðið og Moggann enda fæ ég mest mitt slúður þaðan) eru algerlega sannfærð um að þau séu saman þrátt fyrir að þau bæði sem og allir þeim nátengdir þræti eilíflega fyrir það - ef þeir á annað borð tjá sig um málið. En nú er skyndilega fullyrt að þau séu ekkert saman heldur hafi þetta allt saman verið markaðsbrella af þeirra hálfu. Að segjast ekki hafa verið saman til þess að láta líta út fyrir að þau séu saman til að ... Já, ég held að slúðurfréttamennskan hafi náð nýjum hæðum með þessari grein Fréttablaðsins í dag.

Að lokum er rétt að taka fram að við Angelina Jolie erum ekki saman.

Tiltekt og rán

Hérna er frétt um þjóf sem ógnaði fólki með skrúfjárni. Hvað sagði maðurinn eiginlega þegar hann gekk inn? Réttu mér alla peningana eða ég skrúfa þig í sundur?

Annars er ég að þykjast taka til - sem gengur hægt af því ég er alltaf að finna einhverja skondna hluti. Nú síðast rakst ég á bréf, 4 síður, skrifað á pappír, handskrifað. Í alvöru, ég lýg þessu ekki, svona lagað gerði fólk í gamla daga.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Pabbi gamli er í heimsókn, gistir hérna þangað til hann fer til Kanada á morgun. Þegar ég var að rjúka út í morgun áttaði ég mig á því þegar ég var að beygja út úr Öldugötunni að ég hafði tekið vitlausan jakka. Það er vissulega áhyggjuefni hvað jakkinn hans pabba er líkur mínum - þannig að spurningin er einfaldlega: er ég svona mikill lúði eða á ég bara svona svalan pabba?

Byrjun

Mikið af fölskum byrjunum þessar vikurnar, blábyrjunum. Kannski sumar þeirra séu ekta, ég er bara svo vanur þeim fölsku að ég reikna með þeim. Dugar kannski að ein eða tvær séu ekta ef það eru þær réttu. Enda er vor ennþá, sumarið á eftir áætlun þrátt fyrir helgarferð síðustu helgi, enn ein fölsk byrjun eða verður þetta alvöru núna?

miðvikudagur, júní 08, 2005

And here's to you Mrs. Robinson.

Dustin Hoffman valdi augljóslega vitlaust í lokin ...

þriðjudagur, júní 07, 2005

Járnfrúr og ofsatrúarklappstýrur

Í morgun mætti ég ungri stúlku sem signdi sig í gríð og erg og kastaði höfðinu dramatískt aftur í hvert skipti, hún leit út eins og ofsatrúarklappstýra. Síðan var ég áðan á Kaffi Vín þar sem öll goth-wannabe landsins undir tvítugu virtust hafa safnast saman og þau virtust öll vera að taka upp pakka. Fannst þetta allt saman mjög dularfullt en áttaði mig svo á því að jólin hjá þeim eru náttúrulega núna enda Iron Maiden tónleikar í kvöld. Mig grunar að það útskýri líka ofsatrúarklappstýruna.

mánudagur, júní 06, 2005

Ljóð frá síðustu öld

af gefnu tilefni var ég að rifja þetta upp, rúm tíu ár síðan þetta var skrifað en þessi síða hefur nú aldrei snúist um það að vera up to date. Þá var líklega Ráðhústorgið góða nafli alheimsins. Skrítið hvernig tíminn líður. Akureyri er samt ennþá staðurinn, vissulega, bara meira í þátíð eins og er.

Föstudagsnótt

Það er föstudagsnótt
himininn er blár
þó að það sé vetur
og ég sé fólk,
pylsuvagna,
bíla,
fugla
og ljósastaura

Það er öruglega einmanalegt að vera ljósastaur
þeir eru aðeins nokkrum metrum frá næsta ljósastaur
en þeir geta aldrei snert hann,
faðmað hann

eða þá að vera pylsa
einn blautur koss,
svo allt búið

Ég fer að hugsa málið...
ég er líklega einhvorskonar blanda
af ljósastaur og pylsu,
ljósastaur í pylsubrauði

eða kannski er ég fugl,
fugl sem getur ekki flogið
af því að hann er með brotna vængi

Já,
ég er líklega bara vængbrotinn fugl,
sem líður eins og ljósastaur
í pylsubrauði

...eða kannski er ég bara búinn að drekka of mikið?

sunnudagur, júní 05, 2005

Sleepless in Reykjavík

Rosalega gengur eitthvað takmarkað að sofa þessa helgi, næ ekki fjórum tímum í einu. Ég meina, hvað á maður eiginlega að gera klukkan tíu á sunnudagsmorgni annað en að sofa? En helgin hefur verið ágætlega góð. Nokkur tóndæmi:

Kíkti til Ella þar sem við og fleiri reyndum að hjálpa Arndísi að finna ástina með sms-skeytum. Tæknin maður, tæknin.

Hvað sem hægt er að segja um Sylvíu Nótt (og það er líklega flest slæmt) er þátturinn hennar kjörinn fyrir drykkjuleiki.

Það er erfitt að vera andpólitískur á bar. Ef maður talar hlutlaust um einhvern flokk er reiknað með að maður styðji hann. Held samt að það hafi komist á hreint að mér er illa við viðkomandi flokk, enda er mér almennt illa við flesta flokka. Nema þá sem hafa ekki verið stofnaðir ennþá. Og þá sem heita eftir mér.

Varð hugsanlega óvart valdur að stofnun Forleiksflokksins. Pre-Ásterisma flokkurinn var ekki að virka jafn vel.

Maturinn á Caruso er allsvakalega góður. Svo veit ég núna hvar víngeymslan þeirra er.

Maður þarf bara að vera í tvær mínútur inni á Ara í Ögri til að týna öllum.

Maður finnur annað fólk á Grand Rokk.

Maður týnir því líka seinna.

Trabant eru góðir á sviði en ég náði bara endanum.

Þýskukennarar eru skyndilega byrjaðir að þamba kók.

Umsjónarmenn Stundarinnar okkar drekka líka. Sakleysið er týndur gripur ...

Ég kom því aftur í tísku að sitja úti á Kaffibarnum. Næsta sem maður kemst útlöndum án þess að fara.

Ég var þrisvar minntur á borgina mína. Ég er búin að vera of lengi í burtu.

Svo er allt hitt sem gerðist kannski bara í hausnum á mér.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Háspekileg blótsyrði

Ísfirski næturvörðurinn er ritskoðaður í nýjasta Grapevine, ekkert alvarlega, bara það að fuck verður að f%&$. Áttaði mig svo skyndilega á því að þessi útgáfa fokksins er í raun háspekileg myndagáta, prósentur og dollarar hverfast gildishlaðið utan um blótsyrðið þannig að það fær alveg nýja vídd. Við erum öll hórur á prósentum hjá Kananum þar sem ástarlífið er orðin af ofnotuðu ofskilgeindu blótsyrði. Annars er ég að hugsa um að hringja í Kolbein kaftein og biðja hann að útskýra þetta betur fyrir mér.

Annars er rétt að benda öllum á, nei, skipa öllum að lesa leiðarann í Grapevine, þar sem hinir svokölluðu fjölmiðlar Íslands fá rækilega og verðskuldað á baukinn.

Hungry Hippos

Mig langar í flóðhest. Það væri afskaplega fallegt að sjá stöku flóðhest á beit umkringdan rollum þegar maður æki eftir þjóðvegum landsins. Annars gleyma þeir samt alveg að taka fram í svarinu á vísindavefnum að flóðhestar eru mannskæðustu skepnur Afríku.