miðvikudagur, ágúst 31, 2005

what goes around comes around

Litlu yndin mín héðan eru að verða fullorðin og fara í Háskóla og kaupa skólabækur af gamla kennaranum sínum. Og gott ef sú fyrsta sem ég afgreiddi þaðan hafi ekki verið sú eftirminnilegasta. Bækurnar voru Psychology eftir Gleitman plús vinnubók og Gagnfræðakver og mér heyrist að minnsta kosti ein í viðbót vera að fara í sama fag. Þannig að það verður fróðlegt þegar ég leggst í sófann eftir tuttugu ár ... raddirnar í hausnum á mér segja mér að það sé óþarfi að finna mér sála strax ...

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Kominn heim og orðin hefðbundinn vinnuþræll

Annars er það helst að frétta að ef ég er ekki sofandi þá eru allar líkur á að ég sé að vinna hérna, endilega kíkið og fáið ykkur bók, nú eða bara yddara.

Frammistaðan á menningarnótt var fyrir neðan allar hellur, ég meikaði það ekki einu sinni fram að miðnætti og var sofnaður fyrir tólf. Sem var synd því Geirfuglaballið í Iðnó er alltaf skemmtilegt.
DV náði nýjum lægðum í gær. Fyrirsögn á forsíðu var:

Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson: Stórkostlegur maki og ástmaður

Ókei, ef Hildur Vala eða fyrrverandi eiginkona hans hefðu sagt þetta mætti sjálfsagt kalla þetta frétt á einhver slísí slúðurfréttamælikvarða. En nei, þetta er stjörnuspáin hans.

Annars vil ég lýsa því yfir að það er algjör skandall að South Park er hvergi sýnt í íslensku sjónvarpi ...

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Reykjavík

Það er mismikið að marka fyrstu kynni en hitt er ljóst að sú tilfinning sem maður fær í magann fyrst þegar maður kemur á nýjan stað situr ótrúlega lengi í manni, ef maður losnar þá nokkurn tímann við hana. Ímyndum okkur að ég hefði aldrei komið til Reykjavíkur áður en ég mætti á BSÍ um tvö á föstudagsnóttu eftir 40 tíma þvæling.

Það er niðamyrkur, rok og rigning. BSÍ er lokað og ekki annað hús sjáanlegt neins staðar. Ef ég væri ekki með bókaða gistingu þá er engin upplýsingaþjónusta neins staðar. Jafnvel ef ég vissi hvert ég þyrfti að fara þá er ekki einn leigubíll sjáanlegur og sjaldgæft að maður hafi númerin á leigubílastöðum í ókunnum borgum á hreinu, fyrir utan það að ef íslendingar eru undanskildir þá er alls óvíst með farsímaeign - og ekki er tíkallasími nálægur.

Líklega er ferðamaðurinn á þessum tímapunkti búin að átta sig á sannleikanum, þeim sannleika að þegar allt kemur til alls er Reykjavík ekkert annað en ofvaxið sveitaþorp.

Varsjá

Mætti á lestarstöðina illa sofinn í morgunsárið og fór að leyta mér ætis. Fann gyrossjoppu og eftir að hafa ummað og bent heilan helling þá spurði afgreiðslumaðurinn hvort ég talaði máski ensku? Ég er búin að vera of lengi í Rúmeníu og Úkraínu ... svo lengi að Pólland er menningarsjokk í vestrænu áttina ...

Téður afgreiðslumaður hafði annars áður unnið á Ítalíu við að pakka íslenskum hákarli. Veit samt ekki alveg hvort ég eigi að taka hann trúanlegan þar sem hann heldur því fram að hákarl sé góður á bragðið.

Þvælist svo aðeins um bæinn og enda í gamla bænum. Það fer ekkert á milli mála þegar maður kemur þangað. Þetta er hreinlega eins og lítill miðaldabær í eyðimörkinni, þó tæknilega sé hann náttúrulega ekki (endur)byggður fyrr en eftir stríð. Varsjá virkar annars ágætis borg, hrein og bein, þó vissulega hafi hún aðeins örlítið borgarbrot sem jafnast á við Kraká og Prag.

Allir morgunverðir sem ég borða héreftir verða hins vegar bornir saman við þann á Hotel Design. Þrjú steikt egg og beikonið einhvernveginn bakað inní þau, algjört listaverk og ólíkt mörgum listaverkamat góður á bragðið líka.

En samt grátlegt að mæta til Varsjár í fyrsta skipti og hitta ekki Piotr sem deildi með mér herbergi í götu vindanna hér í den. Fékk svo meil rétt eftir að ég kom heim þar sem ég frétti að litli Piotrek hefði fæðst fyrr í ágúst.

Leiðin til Varsjár 2

Í lest sem leggur af stað um hádegi og kemur til Varsjár um hálfsjö að morgni næsta dags þá væri væntanlega tilvalið að leggja sig upp úr ellefu. En auðvitað þá koma landamæraverðirnir í veg fyrir það. Frá hálftólf til hálffjögur þá er í gangi fjögurra tíma seremónía landamæravarða.

Fyrst eru það þeir úkraínsku. Þeim finnst aðallega svo gaman að skrifa. Taka öll vegabréfin og fara með þau í klefa þar sem þeir handskrifa allar upplýsinganar í öllum vegabréfunum í fimmriti á milli þess sem þeir segja brandara um skrítna íslendinga. Farangrinum sýna þeir hins vegar lítinn áhuga, bakpokinn minn var í hálfa sekúndu í vasaljósi tollarans og búið.

Svo koma þeir pólsku. Þeim er mest sama um vegabréfin – en þeir gera hins vegar sitt besta við að rífa lestina í sundur. Rífa öll þil burt og setja aftur til að finna alla hveitiframleiðsluna, taka loftið úr og grandskoða efra farangursrýmið. Greinilega mjög vinsælt hjá úkraínskum að fela sig í loftinu eða veggjunum, eitthvað sem ég verð að prófa næst.

En líklega verður það þreytandi til lengdar að vera endalaust meðhöndlaður sem glæpamaður, hvert sem maður fer. Líklega ekki nema von að þeir meðhöndli okkur sem slíka. Við erum öll jafn vitlaus á endanum.

Lestin til Varsjár 1

Lestin fór upp úr tólf og ég ætlaði að gera ýmislegt í Kiev um morgunin. En auðvitað þurfti að handskrifa ritgerð í fimmriti um vegabréfið mitt og ferðir mínar í miðasölu lestarstöðvarinnar og þar af leiðandi gerði ég lítið meira en að fá mér smámat áður en ég hljóp í lestina. Búlgakov-safnið og markaðurinn verður að bíða betri tíma.

Úkraínski bóndinn sem er með mér í klefa er gjörsamlega að þröngva landbúnaðarvörunum ofan í mig. Eplið er gott þó það líti út eins og pera og brauðið væri alveg að gera sig ef það væri ekki fyrir sultuna – en mjólkin er náttúrulega skelfileg eins og alltaf í Austur-Evrópu. En éta skal ég, í hvert skipti sem ég hægi grunsamlega á átu og drykkju þá bendir bóndinn á brauðið og mjólkurglasið og klappar svo stoltur á vömbina. Ef ég verð duglegri að innbyrða landamæravörur þá fæ ég kannski einhverntímann svona stóra og fallega vömb.

Þessu til viðbótar er rétt að geta að ég og fleiri bókmenntafræðinörrar hafa verið ráðnir á samyrkjubú kallsins næstu fimmtán árin við að afbyggja landbúnaðarvörur. Að því loknu ættum við að vera kominn með góðan vísi að Framsóknarflokki Úkraínu sem þýðir að við ráðum allaf sama hversu óvinsæl við verðum – en þar sem við erum bókmenntafræðingar þá fáum við náttúrulega ávallt hreinan meirihluta.

Kænugarðsblús

Síðasta kvöldið er alltaf verst. Manni finnst maður vera á nákvæmlega sama stað og maður byrjaði á, þetta sem maður leitar að og veit ekki alveg hvað er er enn fjarlægara og óljósara en venjulega og maður þarfnast þess meira en nokkurn tímann. Maður er ennþá fjær því að skilja þennan fjandans heim og að finna sér einhvern stað í honum, eitthvert hlutverk, einhvern tilgang. Og maður finnur betur en nokkru sinni hversu gjörsamlega einn maður er í veröldinni.

Síðan fer maður heim. Hvað í fjandanum sem það nú er.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Kyiv 1

Þökk sé vegabréfsáritanaævintýrum þá rétt náði ég að segja hæ og bless við Kænugarð og Varsjá, lítið meira.

Það fyrsta sem gerist í Kyiv er að manni verður fjandi illa við Cyril bölvaðan. Er eitt stafróf ekki fjandans nóg í Evrópu? Og af hverju er bara venjulegir stafir á öllum kortunum sem ég finn þegar það eru kýrilískir á götunum sjálfum? Finn netkaffi og panta flugmiða, kíki svo á Chernobyl-safnið. Þetta er innblásin lítil sýning, firrt tragedía með englum með gasgrímur, herbílum og gömlum dagblöðum.

Finn næst eitt stykki bókabúðarkaffi sem mér skyldist að væri með “clued-in english language selection.” Fann eina bók á ensku, “How to do business in Russia.” Frekar clueless raunar, enda viðskiptafræði. En það er hægt að borða þarna, gengilbeinan hérna endurtekur allt sem ég segi á úkraínsku og ég kinka bara kolli. Virkar ágætlega, kjúklingasalatið, kókið og bjórinn skila sér, en chocolate shake verður einhvern veginn hot chocolate, sem er svo sem ekkert verri hugmynd.

Skrepp svo á annan stað og fæ mér annan bjór. Ekki í frásögur færandi nema að matseðillinn er sem heil Guðbrandsbiblía, er með bölvaðan móral yfir að vera ekki að panta eitthvað flóknara. Kem svo aðeins við á hostelinu, við virðumst vera tveir gestirnir í því. Allir hinir líklega fastir einhversstaðar að berjast við að redda vegabréfsáritun.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Leiðin til Úkraínu – önnur tilraun

Mánudagsmorgun, loksins á konsúlatið að vera opið. Er mættur klukkan 10.20, á að vera opið til 12. En auðvitað er löng röð fyrir framan konsúlatið og ég kemst loks inn kl. 11.05 – og þá segir skúnkurinn Mykhaili í afgreiðslunni að eftir klukkan ellefu séu aðeins afgreiddir íbúar Suceava. Rétt eins og á föstudeginum hugleiði ég að fara bara til Búdapest eða Prag og fljúga þaðan en sökum þess að ég er þrjóskari en andskotinn þá varð lítið úr því. Ég hefði líka væntanlega þurft að fara fyrst alla leið aftur til Búkarest sem var borg sem ég var búin að fá meira en nóg af í bili.

Mæti svo aftur á þriðjudegi klukkan hálfníu. Ennþá lengri röð þá náttúrulega og er loks kominn inn um tíuleytið. Það að fylla inn blessaða umsóknina var svo minnsta málið – en þá þurfti ég að fara í banka í bænum, fyrst til að fá stimpil á efri hæðinni og svo til að greiða fyrir áritunina á neðri hæðinni. 40 dollarar, bölvaðir Rúmenarnir sleppa með 5. Svo á næstu ljósritunarsjoppu til að ljósrita vegabréfið og fleiri gögn, konsúlatið hefur náttúrulega ómögulega efni á ljósritunarvél né peningakassa ...

Mæti svo aftur með þetta klukkan ellefu – og er þá sagt að þetta verði ekki tilbúið fyrr en fjögur – og rútan sem ég ætlaði að taka er klukkan eitt. Ef einhver hryðjuverkamaður þarna úti finnur sterka þörf hjá sér fyrir að gera óskunda í Rúmeníu þá get ég skaffað viðkomandi adressuna í þessu helvítis konsúlati ... spyrjið eftir Mykhaili ...

Mæti svo fjögur en auðvitað þýddi fjögur fimm. Maður ætti að vera búin að læra þetta. Var búin að tékka á lestunum og skyldist að það væri lest til Chernivtsi klukkan sex. Tek leigubíl á lestarstöðina en þá kemur í ljós að það er eftir allt saman rúta sem fer klukkan sex. Aftur í miðbæinn þar sem rútustöðin er – og þá kemur í ljós að rútan er í rauninni bara einn fólksbíll að ferma mig og tvær úkraínskar kellur. Hvort hann var actually eitthvað á vegum rútubílastöðvarinnar mun ég aldrei vita, svona lagað er allt afskaplega loðið í Rúmeníu.

Kem svo til Chernivtsi, þar á að vera rúta klukkan tíu til Kiev. Fæ fyrst að vísu ekki betur skilið á stelpunni í afgreiðslunni en að hún ætli bara að skutla mér sjálft klukkan hálftíu þar sem ég sé búin að missa af lestinni – en þá er málið bara að hún getur ekki selt mér miðann fyrr en þá. Don’t ask – I’ve learned not to. Bölvað svekkelsi samt að þurfa að nota rútu, maður var orðinn svo vanur fólksbílaskutli og stelpan var alveg ágætlega sæt.

Hitti svo Igor í rútunni og algjörlega af fyrra bragði kynnir hann sig og gefur mér tvær brauðsneiðar. Já, gefur. Er ekki að biðja um neitt klink í staðinn. Það er algjörlega ómögulegt að útksýra menningarsjokkið sem þessu fylgdi fyrir þeim sem ekki hafa verið tíu daga samfleytt í Rúmeníu þar sem allt kostar. Samt er Úkraína á pappírnum jafnvel fátækari en Rúmenía – en það er hægt að vera fátækur með reisn og án reisnar. Þessi tvö lönd eru sjálfsagt ágætt dæmi um sitt hvort. Úkraína væri raunar bara almennt frekar kúl land ef það væri ekki fyrir þessa eilífu skriffinnsku þeirra. Mæti svo undir morgun til Kiev, tékka inn á hostelið klukkan átta um morgunin og legg mig til hádegis.

laugardagur, ágúst 20, 2005

Afmæli

Kom heim síðustu nótt. Á víst afmæli í dag og í tilefni af því er partí í gervöllum miðbæ Reykjavíkur, þér er boðið og dagskráin er hér. Ef þú kemst ekki í Reykjavík þá eru sígaunarnir í Budapest líka með sérstakt afmælispartí í gettóinu og vinir mínir í Belgrad ákváðu að það dygði ekkert minna en nokkurra daga bjórhátíð til að fagna tímamótunum. Allt að gerast sem sagt. Klára ferðasöguna svo fljótlega þó ég sé náttúrulega búin að kjafta frá endanum núna ...

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Suceava

Suceava er næsti bær við Úkraínsku landamærin. Það var það eina sem ég vissi þegar ég kom hingað, það og sú staðreynd að hér þyrfti ég að húka alla helgina. En viti menn, þetta krummaskuð (álíka fjölmennt og Reykjavík semsagt) er bara alveg að gera sig. Er alveg við aðaltorgið þar sem eru hringekjur, klessubílar og um það bil skrilljón staðir að selja allar mögulegar tegundir af grillmat, bjór og gosi. Líklega aðeins of margir miðað við reykjarmökkinn, en það er heilmikið líf hérna. Þessu til viðbótar heitir aðaltorgið Gata 22 desember, vafalaust sökum þess að þá fæddist langbesti pabbi í heimi :)

Já, og gott ef þvotturinn minn er ekki orðinn þurr. Lyktar að vísu af óhóflegri notkun Debbie á hreinsiefni en það lagast þegar hann kemst aftur í þvottavélina í Öldugötunni von bráðar. Jú, og svo voru mishreinar lestarsnúrurnar ekki að gera hvítu bolunum mínum neina stóra greiða. Jú, svo er sjónvarp á hostelinu – og eftir mánaðarsjónvarpsleysi hékk ég fyrir framan kassann í þrjá tíma að horfa á gamla Cheersþætti (Where everybody knows your name er algjör draumsýn þegar maður er staddur þar sem fæstir geta einu sinni borið það fram) og A Bright Shining Lie, ekkert svo óvitlausa Víetnamræmu.

Leiðin til Úkraínu - fyrsta tilraun

Nokkrum dögum fyrir brottför var ég búinn að heimsækja Úkraínska sendiráðið í Búkarest. Var búin að heyra ýmsar hryllingssögur um vesen við vegabréfsáritanir - en viti menn, starfsmaðurinn þar fullyrti að ég þyrfti enga áritun – eitthvað sem ég komst seinna að að væri Ruslönu að þakka, því þegar Eurovision var haldin þar í vor þá ákváðu þeir að fella niður vegabréfsáritanir út sumarið fyrir íbúa Evrópusambandsins og Schengen.

Mæti svo í lestina hálfátta með blautan þvott sem ég hengi upp í lestarklefanum, það var vissulega sjón að sjá svipinn á lestarverðinum. En allavega, læt fara vel um mig i lestinni þangað til að ég kem til Focsani (borið fram Fokksjani sem er viðeigandi) þar sem kemur í ljós að ég þarf að fara út – og finna einhverja leið til þess að ná næstu lest til Pascani. Ástæðan? Lestarteinarnir eru ónýtir þarna á löngum kafla, út af flóðunum fyrir mánuði síðan, eitthvað sem hvorki konan sem seldi mér miðann né lestarvörðurinn voru neitt að segja mér. Best að selja bara miða fyrir lest sem er ekki einu sinni almennilega til. Þannig að ég enda á að borga leigubílstjóra ca. 4000 kall fyrir að keyra mig 200 km. leið til Pascani, blóðugt en bílstjórinn mátti þó eiga það að miðað við vegalengdina – og hann þurfti jú að komast aftur til baka – var verðið mjög sanngjarnt.

Kem svo til Pascani – og öfugt við það sem kellan í Focsani hélt er lestin sem betur fer í dag en ekki á morgun. Bið þarna í einhvern tíma og borða einhvern vafasamasta hamborgara og pylsu sem ég hef augum litið, svona til að fá eitthvað í magann. Hengi þvínæst þvottinn minn upp í lestinni, orðnir fastir liðir. Kem svo til Suceava þar sem ég bíð eftir lestinni til Úkraínu. Hún kemur loksins, svefnvagn og alles – en eftir stuttan rúnt komum við að landamærunum. Þar eru allir passarnir teknir og grandskoðaðir, einhverjum tímum seinna koma þeir og kvarta yfir að ég sé ekki með vegabréfsáritun. Ég útskýri fyrir vegabréfsverðinum – og yfirmanni hans í síma – hvað starfsmaðurinn í Búkarest hafi sagt við mig, auk þess sem ég reyni að útskýra það furðulega fyrirbæri sem EES er – getur þessi helvítis ríkisstjórn okkar ekki ákveðið hvort hún vill eða vill ekki vera í ESB í eitt skipti fyrir öll?

En auðvitað endar þetta á því að ég er sendur aftur til Rúmeníu. Það er engin lest fyrr en daginn eftir þannig að tollarinn biðst til að skutla mér. Mér skyldist að það væri i næsta bæ en auðvitað var það bara að landamærunum, bensín er ansi dýrt í Úkraínu ef það var tíu Evra virði. Það var byrjað að rigna lítillega, það góða við þetta allt saman var að ég fékk tækifæri til þess að labba frá Úkraínu til Rúmeníu. Rúmenski tollarinn segir mér að ég þurfi að taka taxa til Suceava - 40 km. - og bendir þangað sem þeir eiga að vera. En auðvitað eru engir leigubílar þarna, bara hópur af hvítu hyski að sumbla eitthvað, þau bjóðast til að skutla mér fyrir 25 evrur. Sem er rán - sérstaklega þar sem þau eru hvort eð er að fara heim sjálf, en þar sem ég á engra kosta völ þá neyðist ég til þess að borga og sitja í bíl með ljótum og leiðinlegum kellingum i hálftíma. Í Suceava finn ég hótel og sofna fljótlega, í borginni sem ég tarf að húka a.m.k. fram a mánudag (frá fostudagskvöldi) því konsúlatið Úkraínska er ekki opið um helgar.

Búkarest 9

Svona ef Búkarest var ekki nógu ljót fyrir þá var borgarstjórinn að fá hugmynd til þess að gera hana ennþá ljótari.

Það sorglega er að einu sinni var Búkarest falleg borg. Skoðaði nokkrar myndabækur frá því fyrir stríð á hostelinu og Búkarest virðist alveg hafa verið á pari með Prag og París. En á meðan aðrir kommúnistaleiðtogar létu sér mestmegnis nægja að byggja ljóta steinkubbalda í úthverfum og leyfa gömlu borgunum að liggja í niðurníslu þá var Nicolae Ceausescu duglegur við að rústa heilu borgarhlutunum til þess að leyfa eigin skelfilega smekk að njóta sín.

Við þetta bætist að niðurníslan hefur haldið áfram eftir að valdatíma hans lauk. Það vantar allt stolt í íbúana, það þarf að borga fyrir allt smáræði - borgunin að vísu smáræði líka en það er siðurinn sem er plagandi, á meðan betlararnir eru miklu agressivari en nokkurs staðar annars staðar sem ég hef komið þá eru í raun nær allir sem maður hittir að betla af manni, fyrir að benda til vegar eða eitthvað álíka smáræði - eða jafnvel fyrir ekki neitt.

Gekk út af hostelinu í morgunsárið með blautan þvott í bakpokanum, hundur gelti að mér og hermaðurinn hló, skelfilega viðeigandi eitthvað. Enda segja skapillir hundar hvað mest um eigendurna - og það er meira af löggum og hermönnum hérna en nokkur ástæða er til, ekki að þeir geri neitt svosem.

laugardagur, ágúst 13, 2005

Búkarest 8

Það er lélegur djókur að ég hafi þurft að hanga í Búkarest í sex nætur en bara náð einni í Brasov, borg sem hefur um það bil allt fram yfir Búkarest. Ástæðan var túlkavandræði. Túlkurinn minn í Búdapest var búinn að benda mér á stelpu hér sem ég hringdi í frá Pest en náði svo ómögulega í þegar ég kom til Rúmeníu. Þá bauðst Stefan, eiginmaður hosteleigandans, til að fara með mér - en hann hafði unnið sem túlkur í Kanada. Hann komst samt ekki í þetta fyrr en á þriðjudeginum. Við náðum ágætum viðtölum á caravansvæði rétt utan við Búkarest, á grænmetismarkaði í borginni og í gettói hinum megin við járnbrautarstöðina. Gallin var að viðtölin voru mestöll á rúmensku (ekki þýdd jafnóðum semsagt eins og í Búdapest) - þannig að í raun var ljóst að það þyrfti að transcriba viðtölin líka. Ég talaði við hann á miðvikudeginum um hvenær hann kæmist í það, hann bjóst við að geta klárað það fyrir morgundaginn þannig að ég ákvað að skreppa í dagsferð til Brasov á meðan frekar en að húka í Búkarest og læt þvottinn minn í hendur Debbie á meðan.

Síðan kem ég aftur til Búkarest á fimmtudagskvöldið, hvorki Stefan né Debbie heima, þannig að ég bý mig undir að þurfa að redda öllu saman snemma um morguninn, vona að Stepan se búinn að skrifa þetta upp og Debbie sé búin með þvottinn minn. Þau koma svo heim þegar ég er um það bil að sofna, um eittleitið – og í ljós kemur að Stepan er búin að eiga vonlausan dag og komst ekki í þetta. Ég að fara til Úkraínu í fyrramálið þannig að við semjum um að hann sendi mér þetta annað hvort í pósti eða ímeili og í staðinn fyrir greiðslu þá gefi ég honum upptokutækið mitt. Þessu öllu til viðbótar var þvotturinn auðvitað ekki til, átti eftir að þurka hann. Hann fékk að vera útá snúrum í fimm klukkutíma – en svo var lestin til Úkraínu strax kl. hálfátta um morguninn.

Brankastali

Klukkutímarútuferð frá Brasov, frægasti kastali Rúmeníu. Vlad Tepes var að vísu væntanlega aldrei þar, en ég var þar, þannig að hverjum er ekki sama um afdankaðar blóðsugur?

Brasov 2

Transylvanía er allt annað en Búkarest. Bjórinn er betri, stelpurnar sætari og maturinn betri. Svo ekki sé minnst á húsin og göturnar, þessi borg er jafn falleg og Búkarest er ljót.

Brasov 1

Fólkið fyrir framan mig í strætónum veifar kunningjum sínum í bíl sem ekur fram hjá og ég hugsa með mér hvað það sé nú notalegt að vera kominn í svona lítinn og sætan bæ. Man svo að það búa tvöfalt fleiri hér en á höfuðborgarsvæðinu - sem segir okkur hvað um Reykjavík?

Rant

Rúmenar eru fégráðugir eigingjarnir fávitar, Úkraínumenn smámunasamir hálfvitar og Íslendingar aular að kjósa sér nærsýna ríkisstjórn með hausinn uppí afturendanum á sér.

Nei, ég er ekki í góðu skapi.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Búkarest 7

Villtist inná lítin alrúmenskan pöbb og fékk mér að borða. Afgreiðslustúlkunni tókst að láta tungumálaörðugleikana verða skondna, trust me, það eru nógu margir sem halda að þeir geri þá fyndna.

Þetta er ósköp hversdagslegur pobb. Það er einmitt þetta sem þú getur aldrei snert, þjóðina sjálfa, hversdagsleg en samt með eitthvað gloppótt minni um sjálfa sig og sína sögu og samkennd sem þú færð aldrei að fullu skilið. Allt þetta á litlum hverfispöbb í Búkarest þar sem maður þarf að bíða of lengi eftir reikningnum.

Búkarest 6

Aðalbjórinn hér heitir Ursus, veit Hjalti af þessu?

Búkarest 5

Líkneski Nicolae

Það eru bráðum sextán ár síðan stóra blóðsugan dó. Blóðsugan sem mergsaug landið svo rækilega að því er enn að blæða, gervöll þjóðin virðist máttfarin. Sérstaklega af því að þeir sem nú ráða virðast hafa lært ansi mikið um spillingu og vanhæfni frá félaga Nicolae. Afleiðingin meðal annars allur þessi fjöldi betlara sem er miklu aðgangsharðari en nokkurs staðar annarsstaðar.

Síðustu æviár Ceausescu fór til dæmis 70 % efnahags Rúmeníu í að byggja höllina hans, afsakið, Höll fólksins. Næststærsta bygging i veröldinni, aðeins Pentagon er stærri. Merkilegt að tvær stærstu byggingar mannkyns standi aðallega fyrir vanhæfni, spillingu og á köflum hreina illsku. Kíkti í höllina á sunnudaginn. Bíósalurinn nokkuð flottur en auðvitað gleymdu þeir glasahöldurunum. Annars er höllin vissulega glæsileg, en ég get eiginlega ekki sagt að hún sé falleg. Til þess er hún alltof köld, karakterlaus. Nicolae var þegar allt kom til alls sveitadurgur, þetta er meira kits en alvöru klassi þó dýrt sé þetta vissulega. Væri samt alveg hægt að gera fína hluti með þetta.

Það er þó ennþá meira niðurdrepandi að kíkja á Unirii buluvard. Það var byggt til höfuðs Champ Elysee, viljandi einhverjum sex metrum lengra. En það er steindautt. Vissulega óvenjuhreint og smekklegt fyrir Búkarest, en það er ekkert líf þarna. Einhverjir bílar og búið. Sýnist vera aðallega stjórnarráðsbyggingar við þessa breiðgötu. Fyrir allt þetta voru rifin niður stór hverfi af gömlu Búkarest þannig að sjöþúsund manns fóru á götuna – þar sem sumir eru enn, allt fyrir gosbrunna sem enginn sér.

Búkarest 4

Það þarf stundum að borga fyrir að fá að fara inná lestarstöðina í Búkarest, jafnvel þó þú sért bara að kíkja á upplýsingar eða að skreppa í e-a sjoppuna þar. Einhvernveginn grunar mig að það sé mjög gott dæmi um hvernig Rúmenar eru að klúðra sínum málum rækilegar en flest önnur Austur-Evrópulönd.

Búkarest 3

Vila 11

Hostelið sem ég er á er sjarmerandi. Fjölskyldurekið, kanadísk fjölskylda sem á rætur í Búkarest frá því fyrir kommúnismann fékk húsið aftur eftir að honum lauk, eftir 7 ára málaferli auðvitað.

Eini gallinn er að framan af voru tómir frakkar hérna. Sökudólgurinn er víst einhver fræg frönsk guidebook sem mælir sérstaklega með pleisinu. Frakkar eru auðvitað fínir en það ætti að vera kvóti a einstökum þjóðernum á hostelum, enda hostelin venjulega staðirnir sem maður getur treyst á enskuna. Eða kannski ætti ég bara að andskotast til að fara að læra frönsku?

Búkarest 2

Busl

Rigningin elti mig til Búkarest. Það var gott veður til að byrja með, á meðan ég kom mér fyrir á hostelinu og þvældist niðrí bæ. Kom síðan heim á hostel og blundaði í þrjá tíma til að ná næturlestinni úr mér og öllu miðaleysisstressinu. Svaf held ég miklu betur út af því regnið byrjaði að lemja gluggana. Komin ausandi rigning þegar ég vaknaði og ansi langt í matsölustaði frá hostelinu. Ég og frönsk freelance blaðakona (sem var að vinna að grein um flóðin hér i byrjun júlí) ákváðum samt að láta okkur hafa það, löbbuðum heillengi en vorum svo heppin að rigningin var í rólegri kantinum þá. Fundum loks veitingastað, frekar fancy en alltaf gaman að því. Á meðan við vorum að borða bætti heldur betur í rigninguna og eldingarnar lýstu staðinn mjög reglulega upp. Þegar við vorum búin að borga reikninginn hafði hins vegar stytt upp. En þegar út var komið var nærri hnéhátt fljót sem umkringdi staðinn. Þannig að það var bara að fara úr skónum og toga buxurnar eins hátt upp og þær kæmust.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Búkarest 1

Ég var búin að vera kortér í Búkarest þegar ég var orðinn milljónamæringur. Leu er mjög fyndin mynt. Svo eru þeir að breyta um mynt þannig að 10.000 lei er nákvamlega jafnmikið og 1 leu (leu er et. og lei ft.). Það er samt ekki eins og það sé e-ð smávegis eftir af gömlu myntinni, nei, það er frekar eitthvað örlítið komið í umferð af nýju myntinni. Allgjört kaos, eitthvað sem mér sýnist þeir hafa hæfileika til hérna. Fyrsta sem ég keypti var svo kort, næst var það bjór til að losna við gamla kallinn sem hafði sýnt mér hvar kortin fengjust. Hann var búinn að bjóðast til að sýna mér höll Ceausescu, taka mig í bíltúr og redda mér kvenmanni á 40 evrur. Frekar óljóst samt, ég veit ekki hvort kvenmaðurinn fylgdi með höllinni, spurning hvort ég hafi klúðrað tækifærinu á að gerast einræðisherra yfir Rúmeníu fyrir þrjúþúsundkall?

Miðalaus til Búkarest

Var mjög tímanlega í því að koma mér á lestarstöðina hélt ég. Fór á hostelið og náði í bakpokann rúmum klukkutíma fyrir brottför og sökum þess að það var hellidemba auk þess sem metróinn var mestmegnis i lamasessi bað ég strákinn í afgreiðslunni að hringja á taxa. Við vorum tvö að fara á Keleti stöðina þannig að það var ekki svo dýrt. En auðvitað leið heil eilífð áður en við náðum loksins sambandi, önnur eilífð í að bíða eftir bílnum og þriðju eilífðinni síðar, sökum umferðarteppna, komum við loksins a lestarstöðina. Virtist samt ætla að sleppa en síðan kemur í ljós að miðasalan á þessari lestarstöð er sú hægvirkasta sem ég hef kynnst. Þegar bara stelpurnar fyrir framan mig eru eftir sýnist mér þetta ætla að sleppa en þá barasta hverfur afgreiðslustúlkan heillengi og þegar ég lít á klukkuna og sé að ég hef 3 mínútur þá ákveð ég að taka bara sénsinn og skella mér miðalaus í lestina frekar en að vera strand í Búdapest næsta sólarhringinn. Frekar pirraður enda þó maður fyrirgefi A-Evrópu venjulega svona hluti þá er Búdapest bara sú borg þeim megin járntjalds sem er með langmestu heimsborgarakomplexana þannig að ég ætla bara að vera fúll.

Kem svo í lestina, asnast nattúrulega í - algjörlega ómerkt - koju lestarvarðarins, en hann samþykkir að selja mér miða til landamæranna. Er svo vonlaust stressaður hvað gerist hinum megin við landamærin enda fékk ég hvorki kvittun né miða. Það gengur samt allt, enginn miði né kvittun Rúmeníu megin svosem en þeir mega alveg stinga þessu í eigin vasa mín vegna svo framarlega sem mér er ekki hent út á einhverri vafasamri landamærastöð. Lestin siglir svo inní Rúmeníu átta um morgunin, blessunarlega þrem tímum of sein, 5 að morgni er nefnilega ekki spennandi tími til að koma i ókunna borg.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Póstkort

Skrifaði nokkur póstkort í ferjunni. Heyrist samt að slóvakíska póstþjónustan sé alveg að bregðast mér því póstkortin sem ég sendi frá Bratislava fyrir tæpum tveim vikum eru enn ekki kominn heyrist mér. Samt voru tvö frímerki á þeim vegna þess að ég keypti þau í Tékklandi en komst ekki í að skrifa á þau fyrr en á leiðinni inní Slóvakíu. Þannig að líklega þýðir tékkneskt og slóvakískt frímerki að þau hafa verið send í langa heimsreisu fyrst. Eða bara til Írlands eins og venjulega.

Búdapest 4

Fór í gærmorgun með pakka a pósthúsið, dót sem ég þarf ekki lengur og dót sem ég þurfti eftir á að hyggja aldrei að nota. Þar á meðal var jakki og ein langerma skyrta - en þegar hver einasti dagur er vel yfir 30 þá er slíkt mesti óþarfi. Auðvitað er veðrið búið að vera ömurlegt síðan og allt í einu er ég farinn að sakna jakkans.

Rölti i Gerland, eitt af baðhúsunum, og akkúrat þegar ég var kominn nógu nálægt til að sjá það fann ég regndropa og sá að skýin voru að hrannast upp. Lét mig samt hafa það og baðið var ágætt þó það hafi alveg eyðilaggt þetta fallega sigg sem ég var kominn með á fótana eftir að hafa verið endalaust berfættur i skónum sökum hita.

Um kvöldið hafði planið raunar verið að kíkja á útipöbb í Búda en sökum veðurs var sú hugmynd ekki alveg að gera sig. Við ákváðum samt að hanga ekki bara á hostelpöbbnum og röltum aðeins til að finna pöbb með Ungverjum í. Það var þurrt á leiðinni en eftir einn bjór þá röltum við heim og þá byrjaði fyrst að rigna, hellidemba og mættum rennblautir á hostelið aftur.

Kikti svo í Dónársiglingu í morgun, núna er sem sagt orðið kalt til viðbótar við rigninguna, lítið spennandi að kíkja á Margrétareyju úr þessu - frábær staður en ég efast um að eyjan sé jafnfrábær i þessu veðri.

Búdapest 3

Kíkti á hostelbarinn um kvöldið. Umræðurnar fóru fljótlega að snúast um hvort svín sem borðuðu mannaskít væru betri en önnur svín á bragðið. En Ástralinn sem er með mér á herbergi kenndi sem sagt ensku í Kóreu í sex ár og hitti einn annan fyrrum Kóreuexpat.

Búdapest 2

Fyrstu tveir dagarnir i Búdapest fóru nær eingöngu í viðtöl og heimsóknir. Daniel túlkur og ég kíktum fyrri daginn út fyrir borgina til Czobanka, lítið en fjandi líflegt úthverfi, hittum Guðföður sígaunanna í bænum, eina húsmóður og einn votta Jehóva. Við Daniel náðum vel saman en það er óneitanlega verra að þurfa að taka viðtöl i gegnum túlk. Umhverfi þorpsins er heillandi, skógivaxinn klettur gnæfir yfir öllu, vinsæll til klifurs - en mér heyrðist að það væri ekkert alltof algengt að menn kæmust i heilu lagi niður.

Seinni daginn fórum við i gettóið, ekki svo langt frá miðborginni í metrum en samt furðu fjarlægt. Allt mun niðurníddara en í Czobanka þó að þetta sé liklega skárra en í Lunik IX. Enduðum hjá þekktum músíkant sem var sérlegur vinur núverandi konungs Habsborgara - þ.e.a.s. ef Habsborgararnir væru ennþá kóngar.

Búdapest 1

Lestin til Búdapest var troðfull, framan af var helmingurinn af farþegunum, ég meðtalinn, sitjandi á ganginum. Náði þó sæti fyrir rest og kom til borgarinnar um tíuleytið. Var samferða á hostelið áströlskum mæðgum, mamman hafði flúið héðan 56 og dóttirin var að sjá borgina í fyrsta skipti. Hálfsvekktur að rekast ekkert á þær aftur, stemning í því að vera að snúa aftur heim.

Zagreb

Fótanudd

Rútan til Zagreb var ótrúlega snögg, ég var rétt byrjaður að koma mér fyrir og bjóst við 3 tímum í viðbót þegar hún renndi í hlað. Líklega orðinn of vanur seinum lestum. Leitaði að einhverju smálegu að eta og fann bara vondan hamborgara sem gerði ekkert annað en að minna mig á hvað gyrosstaðurinn fyrir utan hostelið í Belgrad var góður, besti gyros í gervallri Evrópu so far. Ísinnn í Zagreb er hins vegar sá allra besti.

Rölti um bæinn um kvöldið og þegar ég var að labba heim þá fékk ég skyndilega þá hugmynd að prófa hvernig væri að ganga berfættur þarna. Og auðvitað voru göturnar í miðbænum akkúrat passlega hrjúfar, að labba berfættur þarna í kvöldhitanum var eitthvert besta fótanudd sem hægt var að hugsa sér.

Banja Luka 2

Markaðurinn í Banja Luka er frábær, ég keypti samt ekkert því það er svo lítið pláss eftir í töskunni. Sé samt mikið eftir að hafa ekki keypt Sin City sjóræningja dvd-diskinn.

Fyrst þegar ég kíkti á aðaltorgið var hópur af köllum að tefla á risaútitafli þar sem taflmennirnir náðu þeim upp að mitti. Svo kíkti ég á torgið aðeins seinna og þá var brúðkaup í gangi og auðvitað fékk allur bærinn að taka þátt í því.

Belgrad 7

Big in Belgrad

Ég hreinlega gleymdi að taka fram að undir popular music í plötubúðinni í Belgrad rakst ég á disk með Selmu. Sem var nota bene gefin út rétt eftir að hún varð í 2 sæti, ekki 22 sæti eða hvað það var síðast.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Banja Luka

Leigubilstjórinn og dóttir hans

Þegar ég skipti um vagn og fer frá Króatíu til Bosníu þá breytist allt. Flugurnar breytast í ryk og rykið í flugur, því hér eiga draugarnir ennþá heima.

Svo stoppum við. Einhverjar lagfæringar á teinunum og lestarvörðurinn segir við mig autobus. Téð rúta reyndist svo vera tveir pínulitlir og drullugir Jugo og farþegunum er skipt niður á þá og keyra í þeim til Banja Luka, mestan partinn í svartaþoku. Þegar þangað kemur þá sé ég engan hraðbanka nálægt lestarstöðinni en sé eitt stykki leigubíl sem ég rölti að og sé þá að bílstjórinn situr við kaffihúsið að innbyrða einhverskonar einkennilega pylsusúpu og hann bíður mér upp a kókglas á meðan ég bíð. Á veitingastaðnum eru tveir stráklingar að slást og heimilislaus kona gengur í hringi í kringum okkur.

Síðan höldum við af stað, finnum hraðbanka en áður en við finnum hótel er leigubílstjórinn búin að bjóða mér að gista frekar hjá honum fyrir sanngjarnt verð. Án þess að hafa hugmynd um hvort hótelið yrði ódýrara samþykki ég enda getur maður alltaf gist á hótelum en sjaldnast hjá ókunnugum leigubílstjórum. Rétt áður en við komum heim til hans hringir hann í dóttur sína sem talar ensku, ég tala örstutt við hana en við virðumst bæði álíka ringluð af ólikindaháttum föðursins. Ég fer inní íbúðina, lítil aukaíbúð tengd við aðalíbúðina. Það er ekkert að drekka nema vatn og enginn matur. Ég er í miðju hæðóttu íbúðarhverfi, ofarlega, og engir ljósastaurar sjáanlegir, aðeins kolniðamyrkur. Ég ákveð samt að labba örstutt, ekki nógu langt til að villast sem virðist nógu auðvelt þarna - og athuga hvort ég finn sjoppu til að kaupa samloku og kók.

Gefst fljótlega upp en þegar ég er við það að komast aftur upp í íbúðina þá sé ég að það er mótorhjól að koma upp götuna. Ég er endurskinsmerkjalaus og þar sem það sést varla spönn frá rassi þá er það visst áhyggjuefni þannig að ég fer eins langt út í kannt og ég kemst. En mótorhjólið stoppar og dóttir leigubílstjórans spyr hvort við höfum nokkuð talað saman í síma nokkrum mínútum fyrr.

Við Ivana stöndum þarna í korter, hún á vespunni og ég í stuttbuxunum, og eigum eitthvað undirfurðulegt og gullfallegt móment. Hún er falleg og virðist eldri en átján - en hun á í ástar/haturs sambandi við foreldrana og Banja Luka sem er ótrúlega keimlíkt því sem ég átti við Akureyri og mína fjölskyldu þegar ég var átján. Ég hugsaði þetta allt en ég man ekki hvort ég hafði einhverntímann þá einlægni sem hún hafði að bera að segja þetta. Þegar maður var átján og allt var hratt og maður var ekki orðinn svona fjandi cynískur.

Lest til Banja Luka

Á leiðinni til Króatíu - en þar skiptist lestin í tvo hluta og ég þarf að skipta um vagn – er ég að spjalla við Króata sem flakkar á milli Serbíu og Króatíu út af vinnu og fjölskyldu. Það sem var samt merkilegast voru hæfileikar hans til að grípa flugur og henda þeim út um gluggann. Það voru endalaust moskítóflugur og ættingjar þeirra að heimsækja okkur og alltaf náði hann að góma þær og henda þeim út.

Belgrad 6

Þegar ég yfirgef litla hostelið í Hvítu borg þá er farinn að koma virkilegur fjölskyldufílingur í hópinn á hostelinu þannig að maður verður eiginlega alveg ónýtur að vera að fara þetta. Við erum síðasti hópurinn þarna, þau eru að flytja hostelið í annað húsnæði – að mér heyrist af því að löggan komst á snoðir um þau. Alltaf gaman að styrkja svarta hugsjónastarfsemi.