fimmtudagur, júní 20, 2002

Fever Pitch or just anti-climax?

Var ég ekki búinn að lofa smáfótboltapistli? Nenni ekki að rakka antisportistann Óla í mig strax en best að spá aðeins fyrir HM. Ekki það að það hafi gengið vel hingað til, ég taldi eins og fleiri Argentínu og Frakkland langsterkustu liðin, helst að Ítalía og Spánn ættu séns í þau.

Suður-Kórea - Spánn

Þannig að ég hef bara Spán eftir og spái þeim þar af leiðandi sigri gegn Suður-Kóreu - sem ég tel samt nógu sterka til að vinna öll önnur lið þarna.

England - Brasilía

Bæði tvö gróflega ofmetin. England komist þetta á leiðindavarnarbolta og því hve andstæðingarnir hafa hlegið mikið af hárgreiðslunni hans Beckham - kannski hafa þeir heyrt hann tala líka! Svo hefur Brasilía ekki fengið sérlega sterka andstæðinga utan Tyrkjanna sem þeir unnu fyrir grís, sambaboltinn er mýta sem gæti hugsanlega átt stoð í raunveruleikanum þegar ég var í núllbekk (1982) en síðan hefur þetta mestmegnis verið hnoð og einstaka móment frá Rivaldo. En mig grunar að Tjallinn hafi þetta og í kjölfarið fari menn að velta fyrir sér hvort það sé ekki hægt að innlima Svíaríki inní breska heimsveldið svo það sé nú hægt að aðla karlugluna Eriksson. Eða gera hann barasta að breta. Sir Sean George Ericsson. Hljómar eins og farsímastofnandi.

Þýskaland - Bandaríkin

Þýskarinn hefur verið heppinn með andstæðinga eftir að riðlakeppninni lauk. Það er náttúrulega þegar orðinn ósigur fyrir fótboltann að land sem veit ekki hvað íþróttin heitir sé komið þetta langt. Þýska stálið stoppar þessa vitleysu.

Tyrkland - Senegal

Skondið að annaðhvort þessara liða eigi eftir að komast í undanúrslit - og sögulegt. Tyrkland er nógu mikil Asíuþjóð þó hálfevrópsk sé til að geta - eins og Senegal - orðið fyrsta landið utan Evrópu og Ameríku til að komast í undanúrslit HM. Ég segi Senegal en hefði viljað sjá Japani þarna.

Þá erum við kominn með undanúrslitin, aðeins eitt lið af fjórum sem gæti talist til sterkustu liða heims, hin aðallega heppin að fæstir risarnir voru almennilega vaknaðir í riðlakeppnninni. Óvænt úrslit eru góð upp að vissu marki en þetta er bara orðið farsakennt - og verður til þess að það er hæpið að það verði nein epísk orusta hérna. Svo eru líka allir leiðinlegu risarnir með - Þýskaland, England og Brasilía - sem hafa hjakkast þetta og gætu vel unnið þetta núna því að þeir risar sem spila almennilegan bolta - Frakkland, Holland, Portúgal og Ítalía (það getur verið unun að horfa á þá þegar þeir eru í ham, hvað sem allri gúmmívörn líður) voru eitthvað timbruð í byrjun. Nema Spánn, þar er enn von.

England - Senegal - hlægilegt að annaðhvort þessara komist í úrslitin. England væntanlega, Senegal mundi vinna sömu rimmu í fjórðungsúrslitum en hér frjósa þeir.

Þýskaland - Spánn. Þjóðverjar eru með sinn besta þjálfara síðan Beckenbauer og fínan mann í Ballack á miðjunni og Klose í sókninni. En það er enginn með viti með Klose frammi, Ballack sá eini skapandi á miðjunni og allir meiddir í vörninni. Spánn tekur þetta og England létt, mega þakka sínum sæla að fá ekkert alvöru lið í keppninni þar sem þau eru öll úr leik. Það var annað í síðustu EM þegar Frakkland, Holland og Ítalía voru öll í undanúrslitum. En það væri vissulega gaman ef Spánn bjargaði mótinu - og ekki verra ef Gaizka Mendieta spilar sig inn í byrjunarliðið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home