mánudagur, október 18, 2004

Hver hefur séð Monu Lisu?

Örfáir listfræðingar kannski. Auðvitað getur hver sem er farið í Louvre – en þá sérðu einungis málverkið í einhverra metra fjarlægð í gegnum gler sem glampar á. Þú getur talið þér trú um að þú hafir séð málverkið en í raun þá sástu ekki nokkurn skapaðan hlut. Eingöngu útlínur sem minntu þig á það sem flestir hafa séð; Monu Lisu í eftirprentunum. Það sama gildir raunar um flestöll málverk, við þekkjum þau af eftirprentunum þeirra. Hvort sem það er plakkat, mynd í bók eða hrein endurgerð. Persónulega finnst mér það allt í lagi.
Þetta er lögmálið með flestalla list, bækur eru lesnar í fjöldaprentuðum eintökum, rithöfundar sem ekki þekktu prentverkið eru nú lesnir á prenti. En ef að stafirnir eru þeir sömu þá er gildi verksins fólgið í því, ekki einhverjum pergamentrúllum af því þær eru upprunalegar. Vissulega geta frumeintök bóka og uppkast höfundar verið merkilegir gripir – en það er þá afleiðing þess að bókin sjálf, í hvaða útgáfu sem er, er merkileg og skiptir fólk einhverju máli. Hitt er fyrst og fremst auka. Þegar kemur svo að kvikmyndum skiptir svo ósköp litlu máli hvort um frumeintak sé að ræða – þar skiptir hins vegar meiru máli að eintakið sé í góðu standi og sé sú útgáfa sem leikstjórinn ætlaði.
En af einhverjum ástæðum er þetta gjörólíkt í myndlistinni. Þar er frummyndin það eina sem virkilega skiptir máli og litið er niður á eftirprentanir svo ekki sé talað um falsanir. Og falsanir eru vissulega svik við viðskiptavininn, hvernig sem þau eru. En ef verkið er nákvæmlega eins hver er þá nákvæmlega skaðinn frá listrænum sjónarhóli?
Mörg list var í gegnum aldirnar fyrst og fremst eitthvað sem konungar og aðalsmenn gátu notið – eða náðarsamlegast leyft almúganum að njóta með sér. Fyrir utan það að það voru aðallega þeir sem voru lesandi og skrifandi. Þetta hefur blessunarlega breyst á okkar tímum þar sem nær hvaða list sem er er auðfenginn í hinum vestræna heimi. En af einhverjum sökum þá er samband listamanna við auðmenn furðu líkt og áður þegar kemur að myndlist. Kannski er það eina módelið sem gengur upp fjárhagslega fyrir listamennina? Ég veit það ekki, hef ekki sett mig sérstaklega inní það. En það hlýtur að teljast sorglegt ef merkileg listaverk lokast inní hýbýlum einhverra banka eða auðmanna þar sem fá augu geta litið verkin. Sérstaklega kannski því um leið kemur ákveðinn andi snobbs inní listaheiminn, andóf verður máttlaust ef það er svo lokað inní villu þess sem andófið beindist gegn.
Kannski rétt að taka fram að ég hef aldrei talið mig hafa sérstakt vit á myndlist, ólíkt þeim listum sem ég hef einmitt notað sem samanburð – en getur verið að ástæðan fyrir því sé einmitt sú að það sé sú list sem minnst hefur komið til fólksins sjálfs? Á meðan flestar listgreinar eru að ná til fjöldans þá er hin klassíska myndlist lokuð inni að rífast um hvað kom á undan, eggið eða hænan?

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

En... ég skil ekki. Þú talar í hring. Afhverju er ekki í lagi þó að frummyndir málverka lokist inni hjá auðmönnunum, rétt eins og frumútgáfur bóka? Enginn stendur í biðröð eftir því að sjá þær.

1:46 e.h.  
Blogger Ásgeir said...

Má vera að þetta sé óskýrt. Þetta hefur kannski aðallega með gildismat að gera, það að frumútgáfa málverksins sé það eina sem skiptir máli (sem er vissulega tilfellið ef engin boðleg eftirmynd er til staðar). Ef vandaðar eftirmyndir fá sama sess í umræðu og vitund fólks og bækur eða kvikmyndir sem eru ekki endilega frumeintak þá væri líklegast óþarfi að tala um þetta.

3:56 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

I want not acquiesce in on it. I regard as nice post. Expressly the designation attracted me to be familiar with the sound story.

4:14 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Nice post and this enter helped me alot in my college assignement. Gratefulness you seeking your information.

1:43 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home