föstudagur, september 13, 2002

Bóksala stúdenta, au revoir!

Einn dagur í viðbót, níu tímar, 540 mínútur. Og þá er nær fimmtán mánaða vinnu lokið. Hvernig byrjaði þetta svo allt saman? Aðrir hlutir sem ég var að skoða gengu ekki upp, þetta var stutt að labba - og þetta var bókabúð. Bækur - The stuff dreams is made off. En því miður hefur sömuleiðis allri skriffinsku veraldarinnar og sjálfshjálparviðskiptafræðiburðarþolsmælingum heimsins verið komið fyrir í bókum og sá pakki er töluvert þyngri en andagiftin. Sérstaklega hjá æðstu menntastofnunum landsins.
8 tímar á dag þar sem lífið er annars staðar, þegar heim er komið þá er maður oft of þreyttur fyrir lífið. Sérstaklega því ég var með meterslangan lista af hlutum sem áttu að vera undirbúningur fyrir líf. Maður sér það stundum einhversstaðar í hillingum handan fjallstinda ógerðra hluta. Ég gæti sjálfsagt stytt mér leið en það er ekki minn stíll. Öllu heldur; ég kann það ekki. Sumt verður sjálfsagt strikað af listanum en eingöngu þó það sem er skrifað með blýanti því ég er þrjóskur andskoti og þegar allt kemur til alls er penninn allt sem ég á. Ef hann lýgur að mér þá lýg ég að sjálfum mér. Skilji hver sem vill.

Hverju er ég annars að ljúga að ykkur núna? Já, ég var að tala um bókabúð hér á hjara veraldar. Á þrem hæðum, fæstir sjá nema eina-tvær og sumir virðast hafa komist alla leið í Háskóla án þess að læra stafrófið. Þessu fólki tekur maður langmest eftir eðlilega, meirihlutinn er hið ágætasta fólk sem er aðallega á leiðinni eitthvað annað en kemur við til að ná sér í bækur sem er áfangi að þeirra ógerðu hlutum. Einstaka tekst að gleyma öllum ógerðu hlutunum og finna eitthvað splunkunýtt. Svo við vinnuþrælarnir sem erum sjálfsagt stundum ósköp sæt og brosandi en líka alltof oft ofstressuð út af ... jú, væntanlega út af þeim sem halda að lífið sé hér og gera sér ekki grein fyrir að ef heimurinn ferst þá gerir hann það annars staðar. Heimsendir er aldrei í vinnunni nema vinnan sé orðin lífið. Ef svo er þá ertu annað hvort heppin eða sorglegur. Eða kannski bara þreyttur? Já, ég er ekki einn um að eiga minn síðasta dag á morgun. Það verður vonandi kaka eins og lög gera ráð fyrir og svo verður maður ósköp mushy síðasta hálftímann og vill barasta alls ekkert hætta. Svo labbar maður út frjáls maður og saknar skyldnanna.
En ég þarf að komast í burtu, langt í burtu og vekja sálina í mér aftur, ég er búinn að svelta hana aðeins of lengi því aðrir hlutir voru settir í forgang. Sálin er líka frekar ópraktískt fyrirbæri og hún fær ekki borgað fyrir að mæta í vinnu frá níu til sex. Þangað til einn góðan veðurdag ...

Auðvitað erum við öll að leita að þessari vinnu, þessari tilveru sem rímar við sálina í okkur og auðvitað er þetta bölvað væl í mér mestanpartin. Ég hef það ekkert slæmt þannig séð. Samt er hálfskrítið að þrátt fyrir að hafa það alveg þokkalegt (fyrir utan að vera bíllaus í dag, atvinnulaus á morgun og heimilislaus eftir helgi) í einu mesta velferðarríki heimsins þá þurfi maður að væla svona og hafi alveg efni á því. Af hverju nákvæmlega? Ef einhver kemur með einhverjar vinstri/hægri/kapítalisma/kommúnisma/krata-tillögur verður viðkomandi vissulega barinn enda eru stjórnmálakenningar eingöngu til þess fallnar að dreifa athygli fólks frá því sem skiptir máli. Þetta snýst ekki um hver fær hvað og hvað ekki, þetta snýst um það að við áttum okkur á því hvað er einhvers virði. Og gleymum því ekki svona fjandi oft.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home