þriðjudagur, september 03, 2002

Var annars loksins að klára afmælisfærsluna hennar ömmu frá því í gær, ljóðið mitt gamla fannst loksins. Horfði tvisvar á Donnie Darko um helgina, það verður vafalítið efni lengri skrifa en þessara, hún er ennþá föst í meltingarveginum einhversstaðar. Ástæða til að minnast samt sérstaklega á brilljant útgáfu Gary Jules á gamla Tears for Fears-laginu Mad World sem ásamt Halleluja útgáfu Jeff Buckley eru meðal fárra réttlætinga ótæpilegrar útgáfu cover-laga nú til dags. Svo er sérstök ástæða til að taka bíóstjóra Íslands rækilega á teppið fyrir að sýna þessa ræmu ekki í bíó. En það þarf náttúrulega tvo sali til að sýna Slap Her, She's French og heila þrjá til að sýna Austin Powers-leiðindin. Ef Mike Myers þarf að gera framhöld þá á hann auðvitað að gera þau af Wayne's World eða So I married an Axe Murderer. Samt best að vera ekki of fljótur á sér að dissa vondar myndir - ef fyrsta mynd Egg Films sem Drew Barrymore rekur, Never Been Kissed, hefði ekki slegið í gegn, er alls óvíst hvort viðkomandi kompaní hefði getað fært okkur Donnie Darko. Og Drew Barrymore hefur aldrei verið nærri jafn góð og hér þó hlutverkið sé lítið. Auðvitað get ég haldið áfram og hrósað Bráðavaktarlækninum Noah Wyle, Mary McDonnell, Jena Malone og fleiri fyrir góðan leik, svo ekki sé minnst á aðalleikarann Jake Gyllenhaal. En þetta er mynd sem á skilið pælingu, ekki hrós - hrósið er sjálfgefið.

Annars er rétt að taka fram að tunglið er 27 daga, 43 mínútur, og 11.47 sekúndur á leið sinni í kringum jörðina. Ég veit að ykkur líður betur núna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home