fimmtudagur, apríl 08, 2004

Skírdagsbíó

Hinn stóri villimaður, faðir vor …

Sonur hefur ekki talað við pabba sinn í langan tíma, sambandið er stirt. Þeir eru – eða halda að minnsta kosti að þeir séu – gjörólíkir. Svart og hvítt. Sonurinn fullur ábyrgðar, aðallega af því það er einmitt það sem pabbann skorti ávallt. En pabbinn er að deyja, axir eru grafnar – en til þess þarf að grafa djúpt.

Árás villimannana (Les Invasions barbares) og Big Fish, tvær fyrstu myndirnar sem ég sá í þessari suðurferð, hafa þennan sama útgangspunkt sem lýst er hér fyrir ofan. Þar líkur þó samanburðinum því úrvinnslan er gjörólík. En báðar galdra magnaðan seið.

Fyrst að nýjustu mynd Tim Burton, Big Fish. Burton var einu sinni með forvitnilegri kvikmyndagerðarmönnum, en eftir Sleepy Hollow (skelfilega ofmetin, það var eins og þeir annars góðu leikarar Johnny Depp og Christina Ricci hefðu gleypt svefnpillur) og Apaplánetuna var maður farin að efast. Og jafnvel í hans bestu myndum var það sjaldnast handritið sem heillaði – þangað til núna. Sagan minnir á margan hátt á sögu Ivo Andric um Brúna yfir Drínu, báðir höfundarnir eru að reyna að finna hvað er á bak við öll ævintýrin og tröllasögurnar. Niðurstaðan máski ekki sú sama en skilur þó eftir sömu spurningar hjá áhorfendum.

Denys Arcand er á öllu lágstemmdari og pólitískari nótum í Innrás villimannana. Þó gleymist pólitíkin, sem þó er mjög forvitnileg, fljótlega einfaldlega vegna þess hvað persónurnar eru magnaðar. Það eru óteljandi bíómyndir í þessari mynd, örstuttar frásagnar jafnvel lítilsgildustu persóna galdra fram heila bíómynd í hausnum á manni – samt er sagan á yfirborðinu jafn jarðbundin og Big Fish er uppi í skýjunum. En Arcand hefur ekki ósvipaðan frásagnarstíl og Lukas Moodyson sem býr til veröld þar sem hver einasta smápersóna fær sitt vægi. Báðum hefur á óskiljanlegan hátt verið líkt við Woody Allen en ég kýs að bera þá tvo saman, Allen er ekki samanburðarins verður. Að auki er rétt að geta þess að myndin hefur held ég örugglega að geyma fyrsta leiksigur sem unnin er í tölvupósti – eitthvað sem þarf að sjá til að skilja.

Báðar eiga það líka sameiginlegt að vera fyrst og fremst um lífið þrátt fyrir návist dauðans, yrðu seint settar í bás með tragedíum, en ég finn samt að mynd Arcand á eftir að sitja meira í mér, það er eitthvað við fjölskyldudýnamíkina sem er svo kunnuglegt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home