Slæm bókmenntagagnrýni
Hitt sem er þó sýnu verra er það sem ýjað er að í lok dómsins.
"Við þurfum ekki að vera hissa á því að lítið miði áfram í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna þegar bækur á borð við þessa, þýddar eða íslenskar, eiga greiðan aðgang í útgáfu."
... og aðeins seinna ...
Að lokum ber þess að geta að íslensk útgáfa bókarinnar Hr. Ibrahim og blóm Kóransins var styrkt af menningaráætlun Evrópusambandsins, Culture 2000, í samvinnu við bókaútgáfuna Bjart sem aftur fékk konu til að þýða söguna. Á heimasíðu Bjarts, undir dálkinum höfundar, sést að útgáfan hefur gefið út bækur eftir 20 íslenska karlmenn og 5 konur. Bjartur hefur fengið 24 karlkyns þýðendur til þess að vinna fyrir sig, en aðeins 3 konur. Erlendir höfundar eru um 40 talsins og þar af eru kvenkyns höfundar innan við 10.
Bíddu, hvað er þetta annað en ákall á ritskoðun? Eiga þýðendasjóðir og útgefendur fyrst og fremst að standa vörð um siðferði en ekki gæði? Þetta minnir mig ansi mikið á andmæli þingmanns við því að bók sem kennd var við guðlast fékk þýðingastyrk - en um það má lesa meira hér. Þar var helsti andmælandi þeirrar firru einn besti málsvari femínista sem og rithöfunda hérlendis, Svava Jakobsdóttir. Enda ljóst að ef öllum viðhorfum sem óæskileg teljast á hverjum tíma er ýtt út í horn þá fá þau að grassera þar sem síst skildi. Sérstaklega þar sem ávallt er fín lína á milli skoðanna höfunda og efnis bókar, stundum fer það vissulega saman en það er eitthvað sem lesendur ættu frekar að dæma um en þýðingasjóðir. Annað er uppskrift af pólitískri rétthugsun á þeim stað sem hún á allra síst heima, enda bókmenntirnar algerlega gagnslausar ef þær hafa ekki leyfi til þess að vera óþekkar þegar við á.
Eins er einkennileg sneiðin til Bjarts. Vel má vera að hlutur kvenna sé þar ekki nægur en á umræða um útgáfuna almennt heima í ritdómi um staka bók? Miklu eðlilegra væri að gera sérstaka grein um hlut kvenna hjá útgáfufyrirtækjum landsins, frekar heldur en að taka eitt út að því er virðist aðallega út af einni bók. Það minnir nefnilega helst á einelti.
1 Comments:
Hmmm... já, leiðindatilhneiging til þess að kvarta undan því þegar skrifað er um karlmenn að það sé kvenremba.
Annars hafa femínistar mikið farið í taugarnar á mér undanfarið. Skemmst er að minnast fyrirlesturs (kvenkyns) mannfræðinema sem fór fram í dag eða gær sem var fluttur undir fyrirsögninni "Af hverju nauðga karlar?" og var thesis fyrirlesara sú að það væri í "menningu" karlmanna að nauðga. (Gaman að menningu sem nær til helmings mannkyns...)
Aðra tilvísun til þessa sérkennilega menningarsamfélags sá ég í pistli Katrínar Jakobsdóttur á Múrnum (http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1396&gerd=Frettir&arg=5) um leikritið Héra Hérason. Þar segir: "Í leikritunu eru því dregin upp skörp skil á milli kvenlegra og náttúrulegra gilda sem snúast um að byggja upp og skapa og karllægra og menningarlegra gilda sem snúast um að rífa niður og eyðileggja." Jahá.
Í ljósi þess að þetta menningarsamfélag er svo ljóslega til, afhverju er það þá karlremba að fjalla um það?
Niðurstaða: Það er engin leið að gera öfga-feministum til geðs :)
Dúnjan
Skrifa ummæli
<< Home