laugardagur, mars 20, 2004

Laugardagsminningar

Íslendingar eru vanir að monta sig af öllum fjöllunum. Væntanlega af því að “löndin sem við berum okkur saman við” er oftast Danmörk. Þess vegna kemur manni á óvart þegar maður kemur til Týról – þá er eins og maður sé að sjá fjöll í fyrsta inn. Það fyrsta sem ég skrifaði í stuttlífa dagbók Austurríkisveturinn …

Þriðjudagur 9. desember 1997:

Það var snjór. Þungur, myrkur, dökkur - samt hvítur. Fyrir ofan snjóin var himinn og fyrir ofan himininn voru fjöll. Fjöllin sem guðirnir búa í? Nei, Guð er dauður - en þetta er samt stórkostlegur - og óhugnanlegur minnisvarði. Veistu, ég ímynda mér að þarna búi maður. Maður sem er jafngamall fjallinu, maður sem hefur séð marga eins og mig horfa, stara, á fjallið sem hann ólst upp með. Ég hugsa mér að ég hitti hann, spyrji hann - hvers? Að hverju getur maður spurt fjall? Manninn í fjallinu. Fyrir einhvern sem hefur alltaf verið þarna og mun alltaf vera þarna, einhvern sem hefur séð allt og mun sjá það allt aftur - skiptir eitthvað af þessu öllu einhverju máli lengur? Falla okkar lítilfjörlegu spurningar ekki dauðar? Grafast í fönn.

Ég held að ég sé að fá hausverk. Samt, mér líður vel en það er bara sumt sem er ekki hægt að skrifa um, er ekki hægt að tala um, lýsa, er varla einu sinni hægt að upplifa - en maður verður samt að reyna. Manni finnst stundum eins og lífið sé tilraun til þess að reyna að gera hið ómögulega, segja hið ósegjanlega og þess vegna göngum við í gegnum það og gerum heimskulega hluti af því að heimskan er það eina sem við höfum fram yfir almættið. Storkum Guði. Bíddu,af hverju er ég að skrifa þetta, ég trúi ekki á Guð. Það er kannski þessvegna. Ég meina, ef ég tryði á Guð, hvað gæti ég þá skrifað? Hallelújah og Amen? Jæja, ég er komin til Austuríkis, fjöllin hérna eru stór og Guð er ekki til. Amen.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home