laugardagur, apríl 10, 2004

Leonard Cohen, Damien Rice, Jeff Buckley og David Gray í takt við Krusovice, smá heimsókn frá slöppum Starra, gamlar gulnaðar myndir í fjölskyldualbúmum og Greifapizza. Það er kvöldið í kvöld.

Cohen er svona hálfgerð frummynd af lífinu, þessi fortíðarnostalgía sem okkar kynslóð hefur frá því alvöru flagarar voru til, fólk orti um ástina án þess að muldra oh, baby í annari hverri línu og Frakkar voru ennþá dálítið kúl en ekki dottnir í einhvern tekknófíling. Passar allt saman best í late night pub í Zizkovhverfinu í Prag, mitt í nostalgíu eftir kommúnisma, nýfengnu frelsi sem nú er farið að rotna og þeirrar vonar að maður fari loksins að uppgötva borgina fyrir fullt og allt.

Damien Rice er svo aftur eins og lífið ætti að vera, eins og það væri ef sú klisja að maður gæti valið sér vini sína væri sönn. Maður velur sér frekar hverja maður geymir, heldur kontakt við. En það er hellingur af fólki sem hverfur án þess að maður geti gert neitt mikið við því, fólki sem er í raun fáránlegt að yrði ekki góðir vinir manns, fólki sem var rétt fólk á röngum tíma, Damien Rice er einhvern veginn þessi fáu augnablik þar sem allt er á sínum stað, líf þitt eins og það á að vera samkvæmt handritinu.

David Gray er svo meira hvernig líf þitt er, working class gaur sem veit að hann hefur burði til að vera eitthvað miklu meira en fær bara ekki réttu breikin, venjulegur gaur sem veit samt vel að það er ákveðinn Cohen í honum.

Svo er það Buckley, hellraiserinn, það koma augnablik sem þú ert hann, oftast ertu þó bara vinur hans, hann er sá sem allir vita hver er en bara þú þekkir. En hann er auðvitað farinn, lífið er samsett úr Cohen, Rice og Gray, þeim sem eftir eru. Buckley svífur alltaf yfir við og við, halastjarna sem sést á áratuga fresti og lýsir upp himininn – á meðan tekur engin eftir götuljósunum sem eru alltaf til staðar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home