Sumir voru að kvarta yfir því á kommentunum (sem lesendur eru alltof latir við að nota) um daginn að það væri vöntun á greinaskilum í einni færslu. Það var svo sem sökum tæknilegra örðugleika. En það væri vissulega freystandi að lána viðkomandi nóvellu Hrabals, Dancing Lessons for the Advanced in Age, sem ég las um helgina. Bókin er ein setning – bara dálítið löng setning, rétt 100 síður. Margar kommur, einstaka spurningamerki en enginn einasti punktur. Þetta er náttúrulega glæsilegt ull-á-ykkur á alla sérskipaða stílista sem fullyrða að stuttar setningar séu forsenda góðs stíls. Og gengur þetta upp? Hrabal er náttúrulega alltaf skemmtilegur, en nei, ekki alveg. Kannski ef þetta væri styttra, kannski ef þetta væri á íslensku – það skiptir mig venjulega ekki miklu máli hvort bók er á íslensku eða ensku en ég hugsa að í tilfelli eins og þessu þá telji þessi aukaprósent sem móðurmálið hefur. Maður heldur frekar athyglinni.
Svo minnti þetta mig á Ferðasögu með kommum sem ég skrifaði þegar ég nennti ómögulega að hlusta á einhvern kennarann í tíma hér um árið, ég er að hugsa um að kalla þetta nýja listform kommuljóð – eða kommuörsögu? Anyways, þetta er merkilega effektív leið til að rifja hluti upp (ætti að prófa að endurtaka hana einhverntímann), þú ert ekkert að velta þér upp úr lýsingarorðunum, bera hluti saman og ákveða hvort þetta var mikið eða lítið, erfitt eða auðvelt o.s.frv., þetta er einfaldlega það sem gerðist án allra málalenginga. Og ég man alla ferðina (sem er sem sagt vinna einn vetur í Austurríki 97-8 og svo flakk um Evrópu eftir það) við að lesa þetta, spurning hvort aðrir fái einhvern botn í þetta? Látum á það reyna með því að birta þetta hérna á eftir (eða fyrir ofan, þetta bloggsystem getur verið frekar öfugsnúið þegar þú gerir eina færslu í beinu framhaldi af annari).
Annars er náttúrulega til skammar að bókmenntafræðinemi eins og ég sé ekki með skárri bókmenntaumfjöllun hérna – það skýrðist í sumar af fádæma lestrarleti en ég hef ekki þá afsökun lengur. Þannig að er ekki spurning um að rifja þetta upp? Ég ætla samt ekki að fara aftur og byrja á Selinum Snorra eða hverju það var sem ég las fyrst (ég man aftur á móti að Doppuhundarnir var fyrsta bíómyndin sem ég sá, næst var það annaðhvort leiðindin Little Lord Fauntlery eða snilldin Black Stallion), ég sleppi Ármanni við samkeppni í minningarbrotunum. Ég fæ nostalgíuköst, (sjá fyrri hluta ágúst) þess á milli er ég ágætur. Tek bara það sem ég hef lesið síðan ég flúði klakann. En fyrst, ferðasaga með kommum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home