fimmtudagur, október 24, 2002

Heimsókn Bóksölugengis

- og fleiri góðs fólks

Hitti Nönnu, Hörpu, Maríu, Auði, Kalla og Döggu fyrir framan klukkuna, tók þau með mér á steikhús skammt frá áður en við kíktum á brúðuleikhúsútgáfuna af Don Giovanni, domestic violence a la Mozart.

Daginn eftir var svo árshátíðin mikla, Perle de la Prague, aka Ginger & Fred, skitsófrenisk nýbygging í ævafornri húsalengju. Eftir smá fjölskylduerjur um hver skyldi sitja hvar þá fengum við rándýran mat sem við þurftum ekki að borga fyrir – og Harpa skuldar mér súkkulaði þegar ég kem heim! Miðað við hvað ég er venjulega blankur þegar ég kem heim að loknum utanförum verð ég líklega að treina það út maí …
Dró svo helstu snillingana á kjallaraknæpu rétt hjá Vaclavska namnestí áður en haldið var heim.

Á laugardaginn var svo haldið á sýningu Svartljósaleikhússins á Faust, algjört brill og orðið lovebirds fékk nýja og bókstaflega merkingu. Þá má ekki gleyma djöfullegu og sprenghlægilegu mörgæsunum og gullfallegu stúlkunni sem frelsar Faust. Eftir það voru kokteilar á Don Giovanni, ég hélt mig við klassíkina og pantaði Casablanca, svo bjór. Þá var haldið á Skandalinn (eftir viðkomu á Radegastinum eina sanna sem var að loka), þar var meiri bjór og ég varð náttúrulega að sýna smá lit og sjússa eitt Absint-skot. Sirkabát mínútu seinna finnurðu fyrir smá bruna í maganum.
Eftir þetta var haldið á hótelbarinn þar sem ætlunin var að fá sér Grashopper. En það var greinilega vinsæl hugmynd þetta kvöldið og þegar kemur að mér er piparmyntulíkjörinn nýbúinn. Þannig að minn ákveður að föndra smá og út úr misskilningi okkar bardömunnar varð til eðaldrykkurinn Súkkulaðikaka (© Ásgeir H Ingólfsson) – Kakólíkjör, Baileys og Sambucca – í jölnum hlutföllum. Bardaman dáðist svo að mér að hún gaf mér annan stuttu seinna. Fljótlega fóru svo Nanna og María að hugsa sér til svefns og ég kvaddi þær við lyftuna.
Ég aftur á móti nennti varla að dröslast heim strax – enda gisti ég hinum megin í Prag. Þar að auki var ég gripinn skyndilegri nostalgíu eftir gamla neighbourhoodinu mínu, Žižkov. Nostalgíu eftir dansandi Slóvökum, Pakistönskum barþjónum, ísjakahlaupi til að forðast hundaskít, trúðnum og skáldinu, hinni einu sönnu Borijova-götu, tegötunni minni, sjónvarpsturninum … og Palac Akropolis. Einhvernvegin æxlaðist það þannig að ég dró Pálma, Völu dóttir Oddu heitinnar Lundarskólakennara og einhvern hrekklausan Ísraela í þetta vafasama mekka Pragverskrar jaðarmenningar. Eftir að einhver Íradjöfull dreifði takmarkaðri athygli minni frá hössli sem var að ganga alveg ágætlega (hjá henni sko, ég var orðinn alltof skakkur til að hössla mikið) þá var mig eiginlega farið að langa heim í bælið - en bölvuð ábyrgðartilfinningin er alltaf söm við sig hversu skakkur sem ég verð þannig að ég bíð eftir að Palms, Vals og Ísraels séu búinn að dansa nægju sína. Enda ekki alveg staðurinn til að skilja grunlausa græningja eftir í Prag. Eignast góðan vin meðan ég bíð, góðan mann úr Jesseníkí-fjöllunum sem er mjög glaður að heyra að ég hafi eitt þremur ljúfum dögum og einum óendanlega súrealískum degi á þeim slóðum.
Undir morgun var svo loks kominn tími á heimferð, ég uppfyllti loforð eimitt við mann sem ég kann ekki að nefna og skilaði þríeykinu heim, svo skilaði ég sjálfum mér heim þó ég hefði engu lofað þar um.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home