föstudagur, október 11, 2002

Skógarferð

Þegar Majka keyrir mig í íbúðina sem hún var búinn að útvega mér þá villist hún aðeins og mér verður ekki um sel. Ef hún villist hvað um mig? Eftir að hafa eytt kvöldinu í að koma mér fyrir og morgninum í langþráðan svefn þá ákveð ég að kynna mér svæðið. Þetta er giska þétt fjallabyggð þar sem kræklóttir vegirnir liggja út um alla hlíð innan um óteljandi tré. Ég vanda mig mikið við að leggja leiðina til baka á minnið og enda á að fara eina þrjá til fjóra kílómetra frá nýju heimkynunum. Ég geng fram hjá öldruðum manni í bláum vinnugalla sem leiðir hjól með vinstri hendi. Í þeirri hægri heldur hann á vandlega brýndum ljá. Þegar ég geng svo fram hjá ketti sem liggur í vegarkantinum, blóðugur og höfuðlaus, ákveð ég að það væri réttast að snúa við. Og ég er kominn nærri því alla leið þegar ég tek loks vitlausa beygju. Efst í götunni sé ég að húsið sem ég bý nú í er hinum megin við húsið sem ég stend fyrir framan. En það er tennisvöllur á milli, þar fyrir ofan rammgirtur garður með einhverjum nytjajurtum. Þannig að ég ákveð að í stað þess að bakka, sem hefði skilað mér nokkuð örugglega heim, þá sé spurning að stytta sér leið gegnum runnastóðið fyrir ofan áðurnefnda girðingu. Eftir að hafa komist lítillega áleiðis þar í gegn þá sá ég að ég komist ekki mikið lengra óskaddaður því mest eru þetta þyrnirunnar sem þarna eru í vegi mínum. Fer aðeins ofar þar sem meira er um tré og minna um þyrnirunna og reyni að komast þar. Og asnast auðvitað lengra og lengra inní skóginn í von um að finna útgönguleið. Ég kemst loksins út eftir ansi langt labb en kannast þá náttúrulega ekkert við mig. Þessi skógur svíkur öll eðlisfræðilögmál, það virðist sem ég hafi farið fram hjá húsinu og sé kominn eitthvert langt fyrir neðan það. Ég ákveð að það sé best að leita að aðalbrautinni sem er ansi stór, breið og áberandi og legg af stað í vitlausa átt. Eftir svona klukkutíma labb þá er ég orðinn sannfærður um að sú braut sé hvergi nærri og sný því við. Geng sömu leið til baka með örlitlum útúrdúrum og vissulega reynist fyrsti afleggjarinn upp að húsinu mínu vera aðeins um 200 metra frá þeim stað sem ég kom út úr skóginum – í hina áttina. Þramma svo upp þessa bröttu brekku sem gefur Spítalastígnum heima á Akureyri ekkert eftir og kemst loksins í öruggt skjól, húsbóndinn spyr mig þegar ég kem heim hvort ég hafi verið í labbitúr. Ég jánka en kann ekki orðin fyrir nánari lýsingu enn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home