föstudagur, október 11, 2002

Leiðin til Zlín

– eða margfalt déjà vu raðferðalangs

i

Byrja föstudaginn á því að vakna klukkan tíu og ákveða eftir svefnlausar nætur fram að þeirri sem var að líða geti ég nú sofið korteri lengur. Átta korterum seinna fer ég svo á lappir. Leos gestgjafi minn kemur heim stuttu seinna og við skoðum lestarferðir til Zlín. Mér lýst best á að fara kl. 17:05, sú fer beint til Zlín milliliðalaust auk þess að gefa mér tíma til að skoða mig aðeins um í borginni minni. Þannig að ég hringi á leigubíl (aldrei taka taxa í Prag nema að hringja til að forðast ótímabær gjaldþrot) til að dröslast með dótið mitt í geymslu á Hlavní nadrazí (aðallestarstöðinni). Ég er eins og lög gera ráð fyrir með mjög mikinn farangur enda búslóð næstu 4 mánuða meðferðis. Fer svo og borða bestu franskar lífs míns. Var búinn með fjórar þegar í ljós kom að þetta var ekki minn skammtur enda höfðu franskarnar komið skemmtilega á óvart – hitt hafði þó passað alveg við minningu mína af matseðlinum. Maturinn sem ég fékk loks var svo einhver sá besti sem ég hef fengið í marga mánuði en vissulega voru vonbrigði að sjá eftir frönskunum góðu. Svo heimsótti ég gamlar minningar eins og Karlsbrúna, skólann minn og internetkaffið mitt sem var illu heilli horfið.
Metro-kerfið er enn lamað eftir flóðin en ég sé ekki betur en að trammarnir séu í góðu standi – þangað til ég kem að stoppistöðinni þar sem ég ætla að taka tram til Hlavní nadrazí – þar er allt niðri. Þannig að þá eru bara tveir jafnfljótir á lestarstöðina, næ í dótið mitt í geymslu og fer eins hratt og annars er hægt með 40-50 kíló af farangri að brautarpallinum. Kem þangað 17:06, lestin farin. En það ætti ekki að vera ástæða til að örvænta, það er önnur lest klukkutíma síðar sem er ekki nema rúma fjóra tíma á leiðinni þó ég þurfi að skipta um lest í Olomouc. Klefinn minn er fullur, þar á meðal er lítill jakkafatakall sem reynist síðan vera algjör hetja. Kem loks til Olomouc um tíuleytið, það er ekki hægt að taka dótið í einni umferð eftir lestargöngunum sökum þrengsla (það er að vísu varla hægt án þeirra) þannig að ég fer með hina pokana út og svo kemur áðurnefndur jakkafatakarl og biðst til að hjálpa mér. Hann kemur svo með hlunkinn minn rauða rétt eftir að ég er búinn að setja restina á brautarpallinn – ef hans hefði ekki notið við hefði ég orðið eftir annaðhvort á brautarpallinum eða í lestinni – og helmingurinn af farangrinum mínum á hinum staðnum – því að lestarstjóranum lá mikið á að fara af stað.
Fer svo og spyr næsta lestarvörð á hvaða brautarpalli lestin til Zlín fari. Hann hleypur með mig að næsta brottfararspjaldi og útskýrir fyrir mér á blöndu af tékknesku og þýsku að hún fari klukkan 22:30 frá brautarpalli 2. Ég fer þangað en einum tíu mínútum síðar kemur sami lestarvörður með útprentun og útskýrir fyrir mér óðamála að lestin til Zlín fari víst ekki alveg svona snemma. Við dröslum farangrinum í biðsalinn, ég skoða útprentunina betur. Jú, fyrst er það lest til Pøerov sem leggur af stað 2:07 og kemur þangað 2:23. Þar þarf ég að taka lest til Otrokovice sem fer klukkan 3:43 og kemur 4:07. Þá þarf ég að bíða til 4:56 en þá get ég loks tekið lest til Zlín sem ætti að verða komin 5:09. Þetta er ekki nema 61 km. En þökk sé tékkneska eimreiðarfélaginu mun ég þurfa að bíða 7 tíma með að komast þangað. Ég fer að eina opna afgreiðslubásnum en græði lítið á því þar sem konan þar talar hvorki staf í ensku né þýsku eins og viðeigandi er í hennar starfsgrein. Hér sit ég því biðstofunni í Olomouc og hripa þetta niður milli þess sem ég dáist af veggjaskreytingunum, gluggunum og loftinu. Lofthæðin er rétt yfir tíu metrum sýnist mér og allt sem er þrjá metra fyrir ofan jörðu eða meira er hreinræktað listaverk. Fyrir neðan lifir kommúnisminn enn mjög góðu lífi.

ii

Þetta er það sem ég er umkringdur núna:

Á vinstri hönd er hermaður í brúnum og grænum felubúningi. Á hægri hönd er gömul kona með grænnan innkaupapoka sem styður hendi við höfuð á milli þess sem hún talar reglulega við sjálfa sig. Hendin sem höfuðið hvílir á skelfur. Fyrir framan mig er svíalegur maður að berjast vonlausri baráttu við kaffisjálfsala. Bak við mig er eldri maður sofandi í málningargalla úr plasti og með alpahúfu á höfði. Í fjarska öskrar einhver.

Lestarstöð í Olomouc, eitt að nóttu.

iii

Áðurnefnd kona með grænan innkaupapoka er vissulega að stalka mig. Sest alltaf niður við hliðina á mér öðrum hvorum megin á milli þess að hún hverfur eitthvað. Þess ber að geta að sjalið hennar og inniskórnir eru grænir í stíl við innkaupapokann. Kannski átti hún vestur-Evrópskan kærasta sem svipaði til mín fyrir 35 árum. Hann ætlaði að sækja hana hingað á lestarstöðina og fara með hana í alsnægtirnar hinum megin járntjalds. En vorið varð að hausti og hann varð frá að hverfa þegar skriðdrekar Brézhnevs réðust inn. Síðan hefur hún eilíft gengið um lestarstöðina og beðið eftir honum.

iv

Ég fór auðvitað í vitlausa lest. Hún var eina lestin á brautarpalli 2, það var engin önnur lest samkvæmt upplýsingaskjánum í biðsalnum fyrr en eftir 3 (þetta er skömmu eftir tvö) og hún heitir nákvæmlega það sama. En nei, auðvitað er hún að fara í hina áttina. Sem betur fer var Hollendingur sem gat talað ensku og tékknesku í klefa með mér þegar lestarvörðurinn upplýsti mig um þetta. Ég hefði svosem skilið lestarvörðin án hans og leiðbeiningarnar sem hann gaf mér var ekkert sem ég ekki vissi. En það var ótrúlega róandi að skilja fullkomlega það sem einhver var að segja. Auðvitað er næsta stoppistöð, Ceske Trebelne, í rúmlega klukkutíma fjarlægð þannig að ég fjarlægist áfangastað minn hratt og örugglega. Þegar þangað er komið bendir lestarvörðurinn mér á lestina til baka til Olomouc. Ég rétt næ í hana og sá að það var maður í anddyrinu, sofandi á bakpokanum sínum. Það voru fleiri á ganginum þannig að annaðhvort var var allt fullt eða svona agalega vond lykt í klefunum? Þannig að ég tek mér stöðu við hliðina á Þyrnirós, enda ágætt með allt mitt hafurtask að geta verið snöggur út. Nokkru seinna vaknar kauði og virðist þurfa á klósett. Það er við hliðina á honum en harðlæst. Hann reynir að komast í næsta vagn en eftir baráttu við þær dyr endar minn á að fara hinum megin í vagninn, kemur svo og nær í töskuna sína og fær sér blund við hlið félaga síns. Ég þakka þvagblöðrunni á mér innilega fyrir að vera til friðs. Ég stend þarna svo næsta klukkutímann, kemst að því mér til ómældrar ánægju að þessi lest tekur mig alla leið til Pøerov. Þar hleyp ég í afgreiðslunna, töskurnar í vörslu manns sem ég skildi ekkert í frekar en hann í mér, og fæ upplýsingar um stystu leið til Zlín. Sem er klukkan 6:04 og kemur til Otrokovice klukkan 6:42 – þaðan tek ég lest til Zlín klukkan 6:45 – sem þýðir að ég mun hafa 3 mínútur til að finna hvaðan sú lest fer. Ég næ í dótið sem ég þarf að færa um þrjá brautarpalla, ég kúgast á leiðinni því ég er allur að þorna upp en sem betur fer er vatnskrani úti á pallinum. Vatnið er hreinn viðbjóður en bjargar engu að síður lífi mínu. Auk þess sem ég næ að halda öllum miðdegisverðinum niðri. Nú er ég í lest til Okronouc og það er byrjað að daga, ég lifði a.m.k. þessa nótt af.

v

Það hefur engin reynt að ræna mig ennþá þó að með fötunum sem ég er í þá er ég lágmark 200 þúsund kalls virði. Þetta er eitt af því sem ég hef eytt tímanum í að reikna út þessa nóttina því af honum hef ég haft nóg. Það er líka gott að vita að maður er einhvers virði þó maður upplifi sig vissulega sem algjöran hálfvita í svona aðstöðu. Einnig hef ég eytt töluverðum tíma í að stara á skóna mína því þeir eru í hrópandi ósamræmi við niðurnísluna sem þeir eru umkringdir. Líka sem lukkugrip, svona góðir skór hljóta að lokum að komast til skóbæjarins mikla Zlín. Vona að ég verði í þeim ennþá þá.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home