Í kjölfar allrar umræðunnar um draum Gyðu - sem ég talaði um hér - bentu sumir feministar á að þetta væri aðeins ein skoðun og allar skoðanir í femínistafélaginu væru jafn réttháar. Sumar eru aftur á móti geymdar á vef Femínistafélagsins, sem öllum er opin án fyrirhafnar, og hinar flestar á póstlista félagsins sem um svipað leiti fór að komast í umræðurnar í þessum skrítna litla heimi sem bloggið er. A.m.k. tveir einstaklingar sem ég tek mikið mark á sögðu sig úr félaginu en þó vildi ég kanna hvað væri á ferðinni sjálfur, ég var nefnilega orðinn svo afskaplega þreyttur á umræðum sem snérust um að einhver vitnaði í eitthvað sem annar vitnaði í og svo var bara alveg ómögulegt að vita hver sagði hvað fyrst (sérstaklega þar sem þetta var vinsælt í pólitíkinni á sama tíma, Ingibjörg sagði að Davíð hefði sagt að Ingibjörg hefði sagt að Davíð hefði sagt að lítill feitur hvítflibbakall hefði mútað etc.) og ákvað því að skrá mig á títtnefndan póstlista. Miðað við að þær skilgreina femínisma sem jafnréttissinnað fólk og að sannir karlmenn séu femínistar þá gat ég ekki betur séð en ég hefði fullan rétt til þess. En seinna fóru að renna á mig tvær grímur.
Fyrsta sjokkið var fjöldi bréfanna - sem eru innan um önnur bréf sem eru annað hvort persónulegs eða professional eðlis og skipta mig því máli á allt annan hátt. Lokuð umræða svona stórs hóps á netinu hlýtur að geta farið fram á skynsamlegri hátt - og svo er spurning hvort það sé rétt að hafa þær lokaðar yfir höfuð. En það er aukaatriði og fer vonandi í skynsamlegri farveg í framtíðinni.
Það er rétt að benda á að það er margt gott í gangi á listanum og ýmist fólk sem á hann skrifar sem ástæða er til að taka mark á. En því miður vitum við dæmi um að sum þeirra hafi verið hrakin á brott. Ástæður þess eru ýmsar, kannski helst sú að öll gagnrýni inn á við er ansi oft rökkuð niður. Sérstaklega ef hún kemur frá karlmönnum - einkennilegt í ljósi eftirminnilegasta slagorðs hópsins: "Sannir karlmenn eru femínistar." Vissulega var einn ákveðinn karlmaður á listanum sem átti harða gagnrýni skilda (mér sýnist að sá hafi nú verið ritskoðaður af listanum sem er umdeilandlegt, kannski ágætt en gæti verið hættulegt fordæmi - það er miklu auðveldara að ritskoða í annað skipti) - en það var sorglega algengt að allir settu okkur hina karlmennina undir sama hatt. Skilaboðin að sannir karlmenn haldi kjafti?
En það sem fyllti mælinn var þegar fræg nauðgunartölfræði VG (flokksins sem ég kaus eftir allt saman þó þetta hefði nærri komið í veg fyrir það) kom til umræðu að nýju. Ég skrifaði þetta um málið og framhaldið af umræðunni um málið þótti mér vægast sagt orka tvímælis - í sumum tilfellum fékk ég vægast sagt upp í kok - sem var synd því í raun var margt ágætt í umræddum bréfum líka. Ég ætla ekki að birta annara manna bréf hér en sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa það sem ég skrifaði hér. Svo vona ég að umræðan á þessum póstlista horfi til betri vegar.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home