föstudagur, júlí 25, 2003

Svona trúleysingjar fara í taugarnar á mér. Sérstaklega af því flestir mundu setja okkur undir sama hatt því hvorugur trúum við á Guð. Hins vegar kalla ég mig ekki trúleysingja - ég trúi á allan fjandann en bara ekki á almáttugan guð. Enda er í raun ekki hægt að vera trúlaus - þú trúir allaf einhverju. Til dæmis því að himininn sé blár. Þú hefur góða ástæðu til að trúa því vissulega, en síðan hvenær voru skilningarvit okkar fullkomin? Fyrir nokkrum öldum höfðum við álíka miklar sannanir fyrir tilvist baktería, sýkla og annara örvera og við höfum fyrir tilvist drauga og jólasveina í dag. Að útiloka allt yfirnáttúrulegt lýsir heimskulega mikilli trú á alvisku þess takmarkaða dýrs sem mannsskepnan er.

Ásgeir sem trúir til dæmis á drauga, engla og auðvitað jólasveininn

e.s.: nærri búin að gleyma pælingunni um munin á trú og trúarbrögðum:

Gallin við trúarbrögð er fyrst og fremst sú að réttyrði yfir þau væri eiginlega trúarlög. Í trúarbrögðum er trú troðið upp á fólk, hún er fest í kerfi - og þar kafnar hún að lokum og verður aðeins að þægilegri hækju fyrir okkur þegar við erum ekki að skilja allt þetta yfirnáttúrulega og ótrúlega í heiminum. Enda hafa fáir barist harðar gegn margskonar trú fólks en kirkjan - allir draugar, álfar og huldufólk sem ekki passa við hennar heimsmynd eru bannfærðir - á þennan hátt er kirkjan ótrúlega lík þeim sem telja sig trúlausa með öllu - allt sem stangast á við þeirra heimsmynd er merki um heiðingja sem ekkert gott getur komið frá.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home