mánudagur, október 13, 2003

HKL+HHG

Voðalegt fjaðrafok með Kiljan greyið þessa dagana. Annars hugsa ég að ég sé einn af þeim fáu sem lýst alveg ágætlega á þessar bækur hans Hannesar. Ekki það að ég nenni að lesa þær enda efast ég ekki um að þær verði neitt annað en þrautleiðinlegar. Hins vegar hafa fáir jafn gott af því og heilagur Kiljan að vera tekinn ofan af stallinum og fá smá drullubað. Það fékk ég endanlega staðfest þegar ég var að leita að heimildum fyrir BA - ritgerðina í fyrra þar sem Vefarinn mikli var eitt viðfangið. En heimildir um Laxness eru því miður flest allar nær vitagagnslausar fyrir nokkurn mann sem ekki er í Guðfræði, virðulegir bókmenntafræðingar æsast uppí lýsingarorðaflaumsoflofstílinn hennar Kolbrúnar Bergþórs og stundum virðist flest sem um kallin er ritað vera fórnir á stall þjóðardýrlings - með heiðarlegum undantekningum, vissulega. Þannig mega bókmenntafræðingar ekki haga sér, þeir eiga náttúrulega að vera kaldhæðnir, bernskir, krítískir, einlægir, póetískir og með passlegt magn af bröndurum sem engir skilja nema aðrir bókmenntafræðingar (þetta síðasta gildir vissulega fyrir allar greinar Háskólans). En jákvæðir? Ekki nema í ítrustu neyð, höfundum á að vera það nægilegt lof að við látum svo mikið að skrifa um bækurnar þeirra!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home