miðvikudagur, desember 31, 2003

Topp 10 - Bíó 2003:

About Schmidt var svo skemmtilega mannleg, sýndi á skemmtilegan og merkilega lýrískan hátt hvernig það er líka sorglegt þegar maður missir konuna sína þegar maður er kominn á ellilaunaaldurinn og fátt dramatískt að sjá við atburðinn (eða manneskjurnar tvær utan frá) utan að frá. Manni verður eiginlega hugsað til Dalla frænda þegar maður skrifar þetta, mann hefði langað að kynnast honum betur og meira en bara sem frænda ...

Bowling for Columbine var líklega mest viðeigandi mynd ársins – þó hún hafi verið gerð á árinu á undan – og ólíkt innihaldsmeiri en uppgerðarmótmælin hérlendis. Hvar var þetta fólk þegar Kaninn valtaði yfir Júgóslavíu rétt fyrir kosningarnar á undan þessari?


Dirty Pretty Things var um það sem er enn ekki komið að alvöru í umræðuna hérlendis, það hvernig fólk með doktorsgráðu fær í besta falli að hreinsa klósett ef nafnið er ekki nógu ástkært eða ilhýrt, því miður erum við nefnilega engu skárri. Þessi Lundúnasaga er ótrúlega vel gerð, myndmálið frábært og það sem hún nær best er að það eru engir ný-nasistar að angra innflytjendurna, nei, það eru jakkaklæddir menn með Schengen-samninga og Evrópusambandið á heilanum sem hundelta alla sem eru utan landamæra þess sem er móðins í augnablikinu – eða öllu heldur nógu ríkt. Í skjóli þessa geta yfirmenn allra rottuhola borgarinnar níðst á þessu fólki í krafti þess að leyfa þeim þó að vera þar.

Gangs of New York var tæp inn, hefði þurft betri sæti í bíó til að sjá hana almennilega! En þó var stemmningin og bravúraofleikur Day-Lewis alveg þess virði þó ég hafi aldrei verið skráður í aðdáendaklúbb Scorsese.

Lilja 4-Ever. Enn eitt meistarastykkið frá Lukas Moodyson, andlegs barnabarns Astrid Lindgren. Tilsammans var kannski besta dæmið um það en það á þó vel um Lilju líka, það sem mér fannst fara fram hjá flestum var að þessi mynd hefði ekki haft neitt vægi nema kannski pólitíkst ef hún hefði verið endalaust svartnætti. En þessi hefur á einhvern einkennilegan hátt sömu lífsgleðina og hjartahlýjuna og Tilsammans þó það sé dýpra á henni.

Lord of the Rings: The Return of the King var nærri því búin að klúðra þessu með því að enda að minnsta kosti fjórum sinnum en það er ekki hægt að neita því að feilsporin hjá Jackson í þessu tíu tíma verki eru fá. Hálf sorglegt samt að einhver Rósa skyldi koma upp á milli ástarsambands Fróða og Sáms.

Mystic River var merkilegt dæmi um hvernig hægt er að láta heila bíómynd hverfast um eitt byrjunaratriði ef það er nógu vel gert. Minnti mig ótrúlega á Sleepers en var bara svo miklu betur heppnuð.

Nói Albínói og The 25th Hour eiga heima saman, tvö góð dæmi um hvernig harmleikir geta dregið fram það besta í þjóðum – og einnig það versta. Því miður er síðarnefnda myndin eina dæmið sem ég man í augnablikinu um það besta í bandarískum þjóðarkarakter tengt 11. september. En er Nói besta íslenska myndin? Þarf að sjá hana aftur til að geta gert á milli hennar og 101 Reykjavík, að minnsta kosti áhrifamesta Malt-auglýsing sem ég hef séð enda tók Malt-neysla á mínum heimilum stóran kipp á árinu.

X-Men 2. Það varð nú að hafa eina teiknimyndasögu á þessu mikla teiknisöguári. Og stökkbreyttu fríkin kom betur og skynsamlegar inná heimsmálin en flestar “alvarlegri” myndir þetta ár. Sannar enn og aftur að framhaldsmyndir geta verið betri en orginallinn. Hvað hinar varðar þá fannst mér Hulk ansi fróðleg tilraun sem tókst alveg að sumu leiti og Daredevil skemmtileg stundum en í flestu dáðlítil, ólíkt sögunum sjálfum sem eru miklu skemmtilegra dæmi um dökka ofurhetju en Batman nokkurn tímann.

Þær sem hefðu verið inni á góðum degi:

Punch-Drunk Love og Catch Me If You Can voru skemmtilega kolsvartar og skjannabjartar til skiptis án þess að litasamsetningin klikkaði nokkurntímann, Kill Bill verður skoðuð betur þegar hún er kláruð, Adaptation klúðraði þessu á afkáralegum endi og Master and Commander hefði væntanlega komist inn ef einhver annar hefði leikstýrt henni en snillingurinn Peter Weir, hann verður að þola það að ég geri meiri kröfur til hans en að myndir hans séu bara mjög góðar.

Pirates of the Caribean, Confessions of a Dangerous Mind, The Quiet American, Borg Guðs og Sweet Sixteen eru þær myndir sem ég á óséðar sem ég hef einhverja trú á að hefðu getað komist inná listann – þær eru nú samt merkilega fáar miðað við alla dvölina í bíólausum Skagafirðinum!

Femínisminn kemur upp í hugann þegar ég hugsa um ofmetnustu og vanmetnustu myndir ársins, The Hours bað mann um að sýna einhvern samúðarvott yfir húsmæðrum sem áttu litla samúð skylda út frá einhverjum vælukjóa femínisma á meðan hin stórskemmtilega og litríka Frida hins vegar sýndi ótal myndir af því hvað konur geta verið frábærar án þess þó að þurfa nema eina konu til þess.

Vonbrigði ársins voru hins vegar Matrix-framhöldin, ég er að reyna að stilla mig inná að líta á þær eins og framhöldin við Psycho og Jaws til dæmis, myndir sem koma frummyndinni nákvæmlega ekkert við. Hin eina sanna Matrix á nefnilega heima á lista yfir áhrifamestu og merkilegustu bíómyndir mannkynssögunar, framhöldin voru bara einhver leiðinda aukaverkanir.

Vona svo að lesendur verði duglegir að vera mér ósammála áður en þetta kommentakerfi fer að ryðga - og Gleðilegt ár dúllurnar mínar!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home