föstudagur, febrúar 06, 2004

Bókahorn Gambrans á í stríði og hugleiðir fjöldasjálfsmorð

Er að bíða eftir að næsti tími byrji, afskaplega syfjaður eitthvað í dag. En í tilefni þess að ég er búin að myrða fjöldan allan af trjám í dag með köldu blóði er tilvalið að skella eins og einu bókahorni í loftið.

Jólalesningin þetta árið voru tvær nýlegar bækur sem ég átti fyrir - fyrstu jólin mín sem löggiltur bókmenntafræðingur datt náttúrulega ekki einum einasta manni í hug að gefa mér bækur í jólagjöf. En á Þorláksmessu og Ingólfsmessu (22. des.) þá las ég Af stríði þeirra nýhilista, Haukur byrjar með skemmtilegum formála sem meðal annars gagnrýnir mikið af þeim málverndunarfasisma sem ég hef lengi verið að röfla yfir. Einhver Stefán Snævarr var víst að nöldra yfir formálanum á kistunni - að því er virtist án þess að lesa hann almennilega. Svar Hauks hafði að geyma þessa óborganlegu útleggingu á Bogart: "Ég er ekki góður í svona göfgi en það er ekki erfitt að sjá að pervisin ástarsaga einnar forntungu og einnar smáþjóðar er ekki baunadósar virði í þessum klikkaða heimi. Einhvern daginn muntu skilja það ... here's looking at you, kid."

Hvað aðrar greinar varðar þá eru þær allavega, grein Arundhati Roy um Instant-Mix heimsveldislýðræði er mjög sterk og snjöll á meðan slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žizek er með mjög góða punkta sem eiga það til að týnast í orðaflaum. Full algengt með heimspekinga. Einþáttungur Vanessu Badham er svona gróteskt og frekar stefnulaust og minnir mig afskaplega mikið á eitthvað leikrit eftir Sam Shepard – en endirinn er snjall. Hápunktur bókarinnar er svo “Draumar um Bin Laden” þar sem nýjustu heimsatburðir eru settar í bókmenntalega hrærivél með 1001 nótt, Ódyseifskviðu og fleiri skemmtilegum hlutum. Steinar nær sér ekki alveg jafn vel á strik í “Möguleikar skálda” sem er engu að síður fínn texti, fer bara dálítið út um víðan völl. Undantekningar Viðars Þorsteinssonar er vel skrifaðar og kemur beint að efninu í stuttu máli. Kveðskapur Donald Rumsfeld gefur svo náttúrulega algjörlega nýja sýn á misskilin snilling sem vissulega er brjálaður eins og þeir allir.
Svo var skrítið að lesa örsögur Vals Hlyns Antonssonar. Þær voru nefnilega með sama tregann, sömu stemninguna og sömu pælinguna og ein smásaga sem ég skrifaði einhverntímann í menntaskóla. Eða svipaða að minnsta kosti. Tek fram að hún hefur aldrei byrst þannig að ég er ekki að saka Val um ritstuld heldur að bjóða hann velkominn í hóp háfleygra manna :) Bókin er hins vegar því miður frekar endaslepp, kaflar Reto Pulfer og Eiríks Arnar Norðdahl virkuðu því miður meira sem attidjúd en innihald á mig.
En næst á dagskrá var svo Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð. Þar sem þessi bók er finnsk þá er náttúrulega um gamansögu að ræða. Sagan er oft skemmtileg en ég fékk dálítið sömu tilfinningu og þegar ég las Fight Club, þetta væri frábært handrit af bíómynd. Ekki alveg jafn sterkt sem bók. Komst svo náttúrulega að því að Finnar eru auðvitað búnir að mynda skrudduna, þá sá ég líka að sorgarspillirinn Seppo Sorjanen virðist vera í flestum sögum hans í mismunandi hlutverkum – og það gefur vissulega hans hlut mun áhrifameiri. En nóg um það, það er kominn helgi, það er kominn föstudagur – og þá er kominn tími á föstudagslagið!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home