fimmtudagur, mars 11, 2004

Fimmtudagsbíó

Dead Poets reunite

Sá yðar sem syndlaus er

Meistari formsins


Hef haft skelfilega lítinn tíma til að nota þetta dvd tæki mitt eftir að ég keypti það en fyrsta myndin sem ég horfði á í því var Spóla. Tape, sjöunda mynd Richard Linklater. Og það er skemmtilega margar fyrirsagnir sem manni detta í hug eins og sjá má. Ethan Hawke er þarna með sínum gamla félaga úr Dead Poets Society, Robert Sean Leonard, og þeir leika gamla vini, eiginlega gæti maður alveg séð fyrir sér að þessir tveir væru tveir af Dauðraskáldafélaginu uppvaxnir (ef persóna Leonard hefði ekki framið sjálfsmorð í myndinni). Sömuleiðis eina myndin sem Ethan og Uma gerðu á meðan þau voru hjón – eftir að þau hittust í annari vanmetinni snilld, Gattaca. Og síðast en ekki síst þriðja myndin sem Hawke gerir með Linklater.
Sagan hverfist í rauninni í lokin um það að allar persónurnar eiga sér sínar beinagrindur í fortíðinni, draugar sem myndin leiðir hægt og rólega í ljós. Líklega sterkasta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð um nauðgun – án þess að það sé eitt einasta augnablik af ofbeldi eða klámi. Ekki bara afleyðingarnar á fórnarlambið og gerandann, heldur merkilegt nokk, þriðja aðila. Og í raun einfaldlega um sambönd yfir höfuð, ástarsambönd, vinasambönd – nauðgunin er á endanum bara einn atburður, sem er þó vissulega ákveðin vendipunktur, í samskiptum þeirra þriggja við hvort annað, annað fólk og ekki síst eigin sjálfsmynd.

Linklater fer frábærlega með efnið, yndislegt að sjá þennan meistara kominn aftur í toppform, vona að School of Rock sé álíka góð – og heyrist það á öllu.

Þó að fleiri þekki nöfn eins og Tarantino, Gus van Sant (stundum), Lynch og Kevin Smith þá er í mínum huga Linklater hinn eini sanni guðfaðir óháðra kvikmyndagerðamanna í Bandaríkjunum. Ekki af því að hans myndir séu betri heldur af því að hann er endalaust að gera tilraunir, þá djörfustu líklega fyrst þegar óháðar bíómyndir varla sáust nema í örfáum sölum – og það eru ekki nema þrettán ár síðan.
Tilraunir með formið, möguleika bíósins, frásagnatæknina – en þó alltaf með söguna í huga – hugmyndin er alltaf: hvaða frásagnaaðferð hentar þessari sögu best? Fyrstu fjórar myndirnar eiga það allar sameiginlegt að gerast á einum sólarhring eða minna – í þeirri fyrstu, Slacker, er engin einasta manneskja í mynd í meira en mínútu, myndavélin einfaldlega eltir fólk og missir svo áhugan um leið og einhver meira spennandi kemur, kvikmyndatökuvélin sem gægjutæki, eltandi uppi lífsviðhorf ungs fólks í Austin, Texas, þegar X – kynslóðin stóð í blóma, Slacker í raun ekki síður mikilvæg fyrir þá kynslóð og sjálf bók Coupland, Generation X. Og orðið sjálft, Slacker, gekk í endurnýjun lífdaga. Síðan var það Dazed and Confused, ákveðið millistig að 3 myndinni, persónugallerí en ekki nærri jafn stórt og í Slacker, meira í ætt við American Graffiti (og ekki færri stjörnur uppgötvaðar í þessari, þó engin Ford) – á meðan sú lýsti lífi unglinga á 6 áratugnum og var gerð á þeim 8 þá lýsti þessi lífi unglinga á 8 áratugnum og var gerð á þeim tíunda. En svo kom Before Sunrise og þá var hann búin að fara hringinn, úr engri eiginlegri aðalpersónu yfir í tvær persónur sem eru á skjánum nær allan tímann, einstaka aukapersónur og þá eingöngu þær sem þau Jesse (Ethan Hawke) og Celine (Julie Delpy) hitta. Síðan var SubUrbi@, ágæt í sjálfu sér en bætti litlu við hinar þrjár. Svo lenti kall í óstuði, fraus þegar hann vann í fyrsta skipti fyrir stúdóin og The Newton Boys var alltaf hálf misheppnuð – og þó tilraunin sem hann gerði með að teikna ofaní raunverulega leikara í Waking Life hafi verið skemmtileg – og útlitið fínt – þá var sagan alltof veik. En síðan kemur Tape, þar sem hann notfærir sér alla helstu kosti ódýrrar stafrænnar tækni, það hversu líkt þetta getur verið fjölskyldumyndböndum – það er eins og maður sé að gægjast. Öll myndin gerist í einu einasta herbergi, aðeins 3 leikarar, framan af meira að segja aðeins tveir – en aldrei verður þetta þó eins og maður sé að horfa á leikrit (sem það er vel að merkja byggt á). Þetta er alltaf einkennilega cinematic (vantar skikkanlegt íslenskt orð yfir þetta) á hráan hátt – og svo er bara vonandi að maður komist fljótlega í tíma hjá honum og Jack Black!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home