sunnudagur, ágúst 14, 2005

Leiðin til Úkraínu - fyrsta tilraun

Nokkrum dögum fyrir brottför var ég búinn að heimsækja Úkraínska sendiráðið í Búkarest. Var búin að heyra ýmsar hryllingssögur um vesen við vegabréfsáritanir - en viti menn, starfsmaðurinn þar fullyrti að ég þyrfti enga áritun – eitthvað sem ég komst seinna að að væri Ruslönu að þakka, því þegar Eurovision var haldin þar í vor þá ákváðu þeir að fella niður vegabréfsáritanir út sumarið fyrir íbúa Evrópusambandsins og Schengen.

Mæti svo í lestina hálfátta með blautan þvott sem ég hengi upp í lestarklefanum, það var vissulega sjón að sjá svipinn á lestarverðinum. En allavega, læt fara vel um mig i lestinni þangað til að ég kem til Focsani (borið fram Fokksjani sem er viðeigandi) þar sem kemur í ljós að ég þarf að fara út – og finna einhverja leið til þess að ná næstu lest til Pascani. Ástæðan? Lestarteinarnir eru ónýtir þarna á löngum kafla, út af flóðunum fyrir mánuði síðan, eitthvað sem hvorki konan sem seldi mér miðann né lestarvörðurinn voru neitt að segja mér. Best að selja bara miða fyrir lest sem er ekki einu sinni almennilega til. Þannig að ég enda á að borga leigubílstjóra ca. 4000 kall fyrir að keyra mig 200 km. leið til Pascani, blóðugt en bílstjórinn mátti þó eiga það að miðað við vegalengdina – og hann þurfti jú að komast aftur til baka – var verðið mjög sanngjarnt.

Kem svo til Pascani – og öfugt við það sem kellan í Focsani hélt er lestin sem betur fer í dag en ekki á morgun. Bið þarna í einhvern tíma og borða einhvern vafasamasta hamborgara og pylsu sem ég hef augum litið, svona til að fá eitthvað í magann. Hengi þvínæst þvottinn minn upp í lestinni, orðnir fastir liðir. Kem svo til Suceava þar sem ég bíð eftir lestinni til Úkraínu. Hún kemur loksins, svefnvagn og alles – en eftir stuttan rúnt komum við að landamærunum. Þar eru allir passarnir teknir og grandskoðaðir, einhverjum tímum seinna koma þeir og kvarta yfir að ég sé ekki með vegabréfsáritun. Ég útskýri fyrir vegabréfsverðinum – og yfirmanni hans í síma – hvað starfsmaðurinn í Búkarest hafi sagt við mig, auk þess sem ég reyni að útskýra það furðulega fyrirbæri sem EES er – getur þessi helvítis ríkisstjórn okkar ekki ákveðið hvort hún vill eða vill ekki vera í ESB í eitt skipti fyrir öll?

En auðvitað endar þetta á því að ég er sendur aftur til Rúmeníu. Það er engin lest fyrr en daginn eftir þannig að tollarinn biðst til að skutla mér. Mér skyldist að það væri i næsta bæ en auðvitað var það bara að landamærunum, bensín er ansi dýrt í Úkraínu ef það var tíu Evra virði. Það var byrjað að rigna lítillega, það góða við þetta allt saman var að ég fékk tækifæri til þess að labba frá Úkraínu til Rúmeníu. Rúmenski tollarinn segir mér að ég þurfi að taka taxa til Suceava - 40 km. - og bendir þangað sem þeir eiga að vera. En auðvitað eru engir leigubílar þarna, bara hópur af hvítu hyski að sumbla eitthvað, þau bjóðast til að skutla mér fyrir 25 evrur. Sem er rán - sérstaklega þar sem þau eru hvort eð er að fara heim sjálf, en þar sem ég á engra kosta völ þá neyðist ég til þess að borga og sitja í bíl með ljótum og leiðinlegum kellingum i hálftíma. Í Suceava finn ég hótel og sofna fljótlega, í borginni sem ég tarf að húka a.m.k. fram a mánudag (frá fostudagskvöldi) því konsúlatið Úkraínska er ekki opið um helgar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home