fimmtudagur, október 24, 2002

Perla Prag og andvaka Pacino

Sunnudagskvöldið var svo matur og bíó með sjálfum mér. Tveim dögum áður hafði ég borðað góðan mat á dýrasta veitingahúsi Prag. Það jafnast þó engan vegin á við himnasæluna sem hægt er að kaupa sér á Uglunni (U Savoy), hinni sönnu perlu Prag. Kjúklingamixtúra Alfredos í uppáhaldi (kjúlli vafin pönnukökustrimlum og rjómasósu) en þeir gætu gert þriggja ára gamla brauðsneið að sælkeramat með öllum sínum galdrasósum. Lítill staður, 5 mínútur frá aðalgötunni, ennþá blessunarlega óuppgötvaður. En miðað að maður heyrir orðið íslenskar raddir á götunni hér upp á hvern dag er ég kannski að skemma það. Ætlaði svosem alltaf að kynna FS-liðið fyrir þessum stað en það varð aldrei neitt úr því.

Þá var haldið á andvöku meistara Nolans. Insomnia er líklega einhver albest tekna bíómynd sem ég hef séð. Ég hef séð fjölmarga staði sem ég hef heimsótt, galdrastaði marga, verða að hversdagslegum leiðindum í meðförum mishæfileikamikilla kvikmyndatökumanna. En Alaska Nolans hafði sömu áhrif á mig og Vín Linklaters fyrir margt löngu – þangað langar mig. (Kannski kaldhæðni örlaganna að sjá svo Ethan Hawke í Gattaca þrem dögum seinna á DVD hjá Leos). Jú, og þó sir Al sé oftast traustur þá eru áratugir síðan hann var síðast jafn stórkostlegur og hér. En þrátt fyrir stórskotahríðina frá Pacino, Robin Williams og Hillary Swank þá er það gengilbeinan Maura Tierney (Abby úr Bráðavaktinni) sem á setningu myndarinnar: "There are two kinds of people in Alaska: those who were born here and those who come here to escape something. I wasn't born here." Eitthvað sem á alveg jafn vel við í Prag, Akureyri, Reykjavík og Zlín sem og Alaska.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home