mánudagur, janúar 26, 2004

Mánudagsmæða i

Handboltalandsliðið úr leik, var í flugvél þegar það gerðist. Að einhverju leiti var þetta um vanmat að ræða, þeir voru að spila við lið sem voru á mjög svipuðum standard og þeir – ekki lið sem eru slakari og þeir. Ungverjaland, Slóvenía og Tékkland eru öll með lið sem eru vön því að vinna einstaka leiki gegn stóru liðunum – eins og við – en lenda líka reglulega á rassinum – eins og við. Auk þess eru þessi lið í rauninni öll því sem næst á heimavelli, Slóvenía heldur keppnina, Ungverjaland er næsti bær við og Tékkland ekki svo langt undan, þetta eru í raun þrjú best stæðu löndin sem voru handan járntjalds. Ekki nema rúmt ár síðan ég tók rúntinn Tékkland--Ungverjaland-Slóvenía. Slóvakía var að vísu á milli Tékkó og Ungverjalands en ég sá ekki ástæðu til að stoppa þó að símafyrirtækin þar töluðu íslensku.
Það jákvæða er að það er stutt í næsta mót og menn ættu að geta mætt þangað með giska ferskt blóðbragð í munninum – en þetta undirstrikar líka það að það hefði átt að reka Guðmund strax eftir síðustu Evrópukeppni. Það er nefnilega að sannast enn og aftur að af einhverjum einkennilegum ástæðum þá duga landsliðsþjálfarar á Íslandi aldrei nema í eina, mesta lagi tvær, keppnir. Bogdan náði 6. sætinu á ÓL 84 og HM 86, en eftir þetta var allt á niðurleið, 8 sætið á ÓL 88 og 10 sætið á HM 90. Þeir unnu að vísu B-keppnina 89 en ég náði nú aldrei upp í það hvað var merkilegra við að vinna keppni þar sem 9 bestu þjóðir heims eru fjarverandi heldur en að vera í 10 sæti í A-keppninni? Svo kom Þorbergur og eftir að hafa gert það sem þurfti í B-keppninni þá náði hann besta árangri sem íslenskt landslið hafði náð til þessa, 4 sæti á ÓL 92. En eftir það, eintóm niðurleið, 8 sæti á HM 93 og 13-16 sætið á HM 95 á heimavelli. Þá er það Þorbjörn Jensson sem viðheldur þeirri hefð að byrja sitt fyrsta stórmót með stæl, 5 sæti á HM 97 – en hélt síðan upp á það með að komast ekki í næstu keppnir og þegar þeir loksins komust áfram, EM 2000 og HM 2001, þá hefði jafnvel betur verið heima setið. Síðan kemur Guðmundur og rífur liðið upp í 4 sætið á EM 2002, nær svo sem þokkalegum árangri á HM 2003, 7 sætinu, en svo renna þeir á rassinn núna. Er ekki kominn tími til að tæla Alfreð frá Magdeburg?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home