sunnudagur, febrúar 08, 2004

Sunnudagsgöngutúr

Frelsið er yndislegt ...

Sígaunar og gyðingar

Ætlaði í sunnudagsletinni að horfa á leik Manchester City og Birmingham City. Leikurinn var markalaus en það gerði lítið til vegna þess að ég þvældist yfir á rúv og sá forvitnilegan þátt um Eli Wiesel og svo í kjölfarið á því lokin á mynd um Nürnberg réttarhöldin. Forvitnilegt vissulega en það er alltaf skrítið að horfa á / lesa um helförina þessi misserin, hugurinn reikar alltaf til skilgetins afkvæmis hennar sem nú á sér stað í Palestínu. En einmitt þeir hlutir eru samt ástæða til þess að skoða helförina betur. Því að rétt eins og Fyrri heimstyrjöldin bjó til jarðveginn fyrir þá síðari þá er Helförin sá jarðvegur sem helförin gegn Palestínumönnum nú er sprottin úr. Einhver furðuleg og sorgleg blanda af hatri, sektarkennd og aðgerðaleysi, þekkingarleysi og sinnuleysi.

Þekking manna á örlögum Palestínumanna er þó hátíð miðað við þekkingu á málefnum sígauna. Það er helst að menn tali um hvað tónlistin þeirra sé skemmtileg og svona ... hérlendis þekkja menn aðallega björtu hliðina á sígaunum, annars staðar er algengt að fólk njóti björtu hliðarinnar og ali á dökku hliðinni. Það er grein sem ég ætla einhvern tímann að skrifa, ég er ekki tilbúinn til þess núna, en tilefni þessara hugleiðinga er grein í sunnudagsmogganum, forvitnileg grein eftir ítalska stúlku sem hefur dvalist langdvölum í sígaunabúðum í Róm að vinna að mannfræðiritgerð. Eitt fannst mér merkilegt í greininni, það er það að grundvöllur lífs sígauna er sagður sveigjanleiki. Ef maður hugsar út í það er kannski merkilegast hvaða orð er ekki notað.

Orðið frelsi.

Orðið frelsi er nefnilega orðið tískuorð á vesturlöndum undanfarin ár, töfraorð. Símafrelsi, viðskiptafrelsi og svo framvegis og svo framvegis. En sú staðreynd hversu illa sígaunar virðast þrífast á vesturlöndum segir sína sögu um hversu lítið þetta frelsi er í raun. Það eru nefnilega fáar manneskjur sem hafa í gegnum aldirnar þurft að berjast jafn hatrammlega fyrir sínu einstaklingsfrelsi og sígaunar, í raun má segja að meðferð sú sem sígaunar hafa fengið í gervallri Evrópu sé skólabókardæmi um hversu mikið tómahljóð er í öllum hægri- og vinstristefnum sem hafa tröllriðið Evrópu undanfarin ár. Endalausar kenningar sem ávallt fara í baklás þegar einhver raunverulega lifir eftir eigin hugsjónum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home