þriðjudagur, júní 28, 2005

Kvöldið hans Eiríks

Eiríkur Jónsson fékk að njóta sín í báðum eftirfréttaþáttum kvöldsins.

Eiríkur Jónsson vinnur við fjölmiðla sem eru bestir af því þeir tala til fólksins. Hvaða óskilgreinda massa af fólki hann er að tala um veit ég ekki, ég veit bara að það lesa færri DV en nokkuð annað dagblað landsins.

Hins vegar gerir það hluti ekkert betri þó það sé talað við fólkið. Nasistarnir töluðu við fólkið. Ólíkt Eiríki Jónssyni voru þeir góðir í því. Því miður.

Það var heldur ekki fólkið sem ákvað að gefa út Hér og nú heldur fjölmiðlamógúlar í Skaftahlíð.

Sú staðreynd að til séu blöð úti sem eru jafn vond er engin afsökun fyrir að gefa út vond blöð hér. Í það minnsta eru þau blöð ekki svo illa haldin að afsaka sig með því að svona geri menn jú á Íslandi.

Eiríkur reynir að halda því fram að fréttamennskan sem blaðið stundi sé óhefðbundin. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta er afskaplega hefðbundinn plebbaskapur. Rétt eins og karlaklúbbarnir og fermingarveislurnar sem Eiríkur sækir – nema ef vera skyldi að eingöngu þeir plebbalegustu nenni að tala við hann þar.

Eiríkur Jónsson fullyrðir að meintur viðmælandi hans – sem hafði gagnrýnt vinnubrögð hans við meint viðtal – sé einfaldlega rugluð og geri fátt annað en að ljúga. Teljast það sem sagt marktækir heimildamenn sem eru ruglaðir og gera fátt annað en að ljúga? Nógu marktækir til að byggja heila forsíðufrétt á?

Eiríkur talar fjálglega um það ábyrgðarlausa fólk sem hleypur frá börnum með allt niðrum sig - en á þó aðeins við fólk sem er fráskilið, alveg óháð því hvernig það sinnir börnunum sínum. Eiríkur Jónsson er fráskilinn.

Umræður spinnast um það í Íslandi í dag hvort þetta sé innanhúsmál 365 eða mál sem varði alla fjölmiðla. Eiríki finnst þetta prívatmál sem á að ræða í reykpásum hjá 365 - hins vegar er það forsíðufrétt þegar Bubbi kveikir sér í rettu.

Eiríkur fullyrðir að málið virðist ekki varða alla fjölmiðla enda sé aðeins talað um þetta hér innanhúss (á fjölmiðlum 365). Korteri seinna er hann mættur í Kastljós Ríkissjónvarpsins að ræða sömu hluti.

Eiríkur afrekar það í Kastljósinu að misnota fleiri spakmæli á um hálftíma en áður var talið mögulegt.

„Þú ert fulltrúi hræsninnar“ – segir holdgervingur hræsninnar.

Símon Birgisson er einhver vandaðasti maður sem Eiríkur Jónsson hefur kynnst. Menn sem Eiríkur Jónsson hefur kynnst íhuga meiðyrðamál.

Helga Vala fékk helling af rokkprikum fyrir að jarða Eirík Jónsson með aðra hendi aftan við bak.

Eiríki Jónssyni tókst að láta Kristján Jóhannsson líta vel út.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Bravó! Vel sagt!

2:40 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Góður! Ég held að Eiríkur fái nafnbótina drullusokkur mánaðarins, bæði fyrir júní og júlí :þ

2:02 e.h.  
Blogger Ásgeir said...

Við skulum nú gefa Símoni og Jónasi Kristjáns einhverja daga til þess að ná drullusokksnafnbótinni af honum í júlí - ég hef heilmikla trú á þeim í þeim efnum ...

5:46 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home