fimmtudagur, júní 16, 2005

Missing people

Blogg um ímeil

Það er fátt ömurlegra heldur en þegar maður týnir ímeilum útlendinganna sinna eða þau hætta að virka (Það er alltaf hægt að finna Íslendinga í símaskránni). Nema ef vera skyldi allir þeir sem maður hafði ekki vit á að fá ímeil hjá. Brassinn Casio sem ég flakkaði um Berlín með (var búin að fá nóg af honum eftir stanslausar þriggja daga samvistir en saknaði hans náttúrulega eftir klukkutíma), Slóvenarnir Natalije og Sasja, Anka pólska, Kanadísk-tékkneska parið sem ég bjó með í Zizkov, Vera í Prag, þýðverja/belgagengið þar, Bodil og Amalia ...

en allavega, dreif mig í að meila útlendingunum mínum öllum fyrir stuttu. Meilaði líka þeim sem voru orðnir óvirkir, svona af gömlum vana. Og viti menn, haldiði ekki að ég hafi fundið Charlie og Valentinu aftur. Netfangið Valentinu hafði verið óvirkt en var skyndilega orðið virkt aftur, stelpan orðin mamma og allt í lukkunar velstandi í Udine, enda sér Vale um að redda innflytjendum húsnæði. Gott að vera ekki búin að týna síðustu manneskjunni sem ég fór til Auschwitz með og spáði fyrir mér undir súð í Kraká með Wyborova vodka og Prins Póló í maganum.

Charlie vissi ég að var komin með nýtt meil en sú adressa var grafin í tölvu sem crashaði á Króknum. En fann svo adressuna nýju eftir krókaleiðum og gamli brúarsmiðurinn er núna í Leicester á milli þess sem hann flýgur til Asíu fyrir háskólann sem hann vinnur hjá að reyna að telja þarlendum trú um hvað breska menntakerfið sé æðislegt. Í gamla daga vorum við Charlie í tékkneskutímum saman (ehemm, hóst, stun) og kíktum venjulega á Radegast á eftir – og horfðum á Spörtu Prag taka Barcelona í kennslustund í Meistaradeildinni. Verst að þeir töpuðu.

Svo kom meil frá Piotr, herbergisfélaga mínum á Vétrník, götu vindanna, sem var auðvitað ánægður með landa sinn Dudek. Annars er Pési mest upptekin við það að kenna útlendingum pólsku og lesa pólskar hip-hop vísindaskáldsögur. Jack sendi póst frá Egyptalandi þar sem hann var að þykjast vinna eitthvað. Fyrir þá sem ekki vita er Jack þekktari undir nafninu Volcano Ernie og var annar helmingur merkasta brandaratvíeykis sem nokkurn tímann hefur búið á Gamla garði. Fyrir utan að búa til helvíti góðar chips klukkan fjögur á föstudagsnóttum. Ofurhetjunafn hins helmings tvíeykisins var Crazy Icelandic Person.

Þá má ekki gleyma sjálfskipuðum sálfræðingnum mínum í Oxford. Ilona sér náttúrulega um dramatíkina eins og venjulega. Ennþá afskaplega ástfanginn af Kýpverska stjörnufræðingnum Kostas og staurblönk í Oxford. Sem sleppur alveg því hún borðar eins og kanína.

Tékknesk-Ástralska kengúran Elka skrifaði óvenju stutt bréf (by her standards) og var ennþá að vinna í Radio Australia og nudda fólk í hjáverkum. Jim er í Þýskalandi að klára skáldsögu og kenna ensku. Þau voru einmitt bæði gjörn á að villast með okkur Charlie á Radegast eftir, ehemm, tékkneskutíma.

Svo reikna ég með árlega tölvupóstinum frá Carsten bráðlega, síðast þegar ég vissi var hann að vinna í súkkulaðiverksmiðju eða að þvælast um S-Afríku. Man ekki hvort var á undan ... Jamie var einmitt einhversstaðar þar síðast þegar ég vissi. Þeir voru náttúrulega sidekickin okkar Jacks á Gamla garði. Svo var Karl heima í Ástralíu að surfa, Leos hálfónýtur í Prag og Manuel í ástarsorg á Spáni. Karl vann með mér í Sölden við að bera matarbakka í burtu frá fullum Austurríkismönnum – sömu matarbakka og við renndum okkur svo niður alpana á seint um kvöldið til þess að komast í fótbolta eða á pöbb, svona eftir atvikum. Leos er fyrrverandi Ilonu og besti sénsinn minn á frírri gistingu í Prag. Tékkar eru frábærir fyrrverandi. Manuel var á Gamla garði, solid spánverji sem ég komst að löngu seinna að allar stelpurnar voru brjálaðar í. Ég sem hélt við Cesar værum með það coverað. Cesar var einmitt síðast þegar ég vissi í Finnlandi, meilið hans er löngu dautt. Sarah kann ekki á tölvupóst en Karl ætti að geta komið mér í samband við hana við tækifæri. Mathias geymi ég ennþá sjóarahandklæði fyrir, Jesse er væntanlega í New York sem fyrr og Lúkas er væntanlega á skíðum í Póllandi – það kæmi á óvart ef ég heyri nokkurn tímann í þessum þrem snillingum aftur. En samt ekki nærri jafn mikill missir og ef ég hefði týnt Charlie eða Valentinu.

Gróf svo nú í gær upp meilið hans Padraic sem er í Dyflinni að klippa stuttmyndir. Á heimboð þar.

afskaplega samhengislaus færsla, ég veit, en það er einmitt málið, maður er svo dreifður eitthvað. Allir að fara eitthvað annað, nema ég sé sjálfur að fara. Hef aldrei fattað almennilega hugtakið vinahópa, mínir eru út um allt og ansi langt frá því að vera einhver hópur. Ótrúlegasta fólk sem hefur aldrei séð hvort annað.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home