föstudagur, júní 21, 2002

Beikon og bolti?

En ástæðan fyrir að ég er á fótum á þessum óguðlega tíma? Jú, England - Brasilía. Ég held mig við að England vinni - en það sem einkennir þessi lið er að eftir heilmikið vesen þau fjögur ár sem hafa liðið frá síðustu HM eru þau loksins kominn með rétta þjálfara. Big Phil, Luis Felipe Scolari ef þið eruð smámunasöm, byrjaði á að berja vörnina í þá, síðan leyfði hann þeim að sækja. Að vísu ræður þar nokkru að múrbrjóturinn þeirra - Emerson - fór sömu leið og Roy Keane þó í hans tilfelli væri um meiðsli að ræða og það var einfaldlega enginn nógu góður í hans stöðu til að koma inn. Þannig að í staðinn hefur sóknarmiðjumaðurinn Juninho byrjað - en spurningin er hvort þeir hafi gleymt því sem Stóri Phil kenndi þeim um varnarleik. Ýmislegt sem bendir til þess, auk þess sem ég er ekki viss um að það sé nógu góður balans í brasilísku sókninni. Hefði ekki verið snjallara að hafa einn þýskan Brassa, Elber eða Amoruso, með Ronaldo uppi? Gaman að sjá hann koma svona vel upp eftir meiðsli, hann var aldrei í uppáhaldi þegar hann var á hátindinum hér um árið, en maður saknar svona leikmanna þegar þá vantar. Rivaldo er svo þeirra besti maður, en samt spurning hvort hann ráði úrslitum. Þá er það England, með ungt lið en vörnin hefur staðist prófið og manni finnst þeir ennþá eiga Owen inni. Ekki alveg sáttur við Heskey þarna uppi með honum, litli og stóri senterinn er ofnotuð klisja þó hún virki stundum. Væri ekki spurning um að kvelja Brassavörnina almennilega með því að setja Fowler inn? Annars held ég að þó ég telji enska liðið vera einmitt rétta liðið til að slá Brassana út þá verði lítil breidd á miðjunni þeim að falli - en þó varla fyrr en í sjálfum úrslitaleiknum, þar sem sigurvegarans í dag bíður spútnikliðið úr Senegal - Tyrkland. Spútnikar drífa aðeins ákveðna vegalengd, undanúrslit á HM er með því lengsta og úrslitaleikurinn er of langsótt. Kynnarnir raunar að minnast á að öll þrjú skiptin sem Brassarnir hafi mætt Englandi í HM hafi þeir unnið titilinn, en samkvæmt sömu bókum hefði sigurliðið í leik Dana og Frakka átt að fara alla leið eins og í EM 84, 92 og 2000 og HM 98. En nóg af röfli, boltinn er að fara að rúlla og best að fara að hita beikonið. Fjandinn annars að hafa ekki beikon núna, væri skemmtilega táknrænt. Best að muna eftir því í undanúrslitunum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home