miðvikudagur, júlí 24, 2002

Djords Mækol
(óvenju skemmtilegt að skrifa þetta nafn upp á íslenskan máta, hljómar eins og einhver Júgóslavi)

Það hefur mikið verið talað um myndband George Michael við lagið Shoot the Dog – enda sjaldan komið myndband sem er jafn langt yfir lagið hafið – man einhver hvernig það er? Enda George greinilega aðallega að söngskreyta myndbandið – og athyglisvert að engin hefur rætt um hver teiknar eiginlega myndbandið. Ætlar Kaninn ekki að gera viðkomandi útlægan líka? Þó synd hve einsýnt hefur verið á þá félaga Bush og Blair í myndbandinu, Saddam Hussein fær nefnilega líka að vera með, gamli Wham!-dúetinn dúkkar upp, Beckham og Scholes eru að sparka bolta á milli sín þegar Blair kemur og hirðir knöttinn og umbreytir honum í Amerískan fótbolta í staðinn og eitt albesta mómentið er þegar George tjúttar með Bretadrottningu og í öllum hamaganginum þá hendist kórónan af höfði drottningar á höfuð Kalla prins. Segir allt um hve gáfulegt það er að viðhalda þessari kóngafjölskyldu.

Merkilegt raunar hve miklu fjaðrafoki myndbandið hefur vakið. Pólitískar skopmyndir, þar á meðal af þjóðarleiðtogum, hafa birst um einhverjar aldir í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum sem og öðrum löndum. En um leið og þær hreyfast er það orðið sjokkerandi? Spurning um að fólk sé orðið of vant hinu, bækur sjokkera fólk til dæmis allt of lítið í dag hvað sem svo sem um er fjallað – eftir allar þessar aldir er fólk líklega orðið of vant þeim. Sem er synd því einmitt sökum þessarar elli er miðillinn loksins orðinn reglulega þroskaður núna. En þetta sannar náttúrulega bara það sem við Starri vorum að tala um á ógleymandlegum fyrirlestri
í þýðingakúrsi hérna um árið. Annars er verið að ræða um að George Michael, sem er af grískum ættum og heitir í raun Georgios Kyriacos Panayiotou muni syngja opinbert lag ólympíuleikanna í Aþenu. Það verður forvitnilegt að sjá Bandarísku keppendurna sprikla undir þeim söng.

p.s.: Það myndband sem sýnt er hérlendis er því miður ekki í fullri lengd. Það vantar framan á það þegar ráðgjafi Bush reynir að útskýra flókin milliríkjasamskipti fyrir honum og endar á að nota sokkabrúðu eftir ítrekaðar tilraunir til að útskýra þetta á eðlilegan hátt

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home