Verslunarmannahelginni er þá opinberlega lokið. Hún var einstaklega róleg á þessum bænum en þó var ástæða til að deila einum bjór með kisa gamla. Kisi er nefnilega hinn fullkomni drykkjufélagi. Spyr engra heimskulega spurninga og gul augun tala af reynslu. Kisi veit allt, það þarf ekkert að tala of mikið, hann man og malar, mjálmar eða þegir eftir atvikum. Vináttan er engu háð, hún einfaldlega er.
Það væri gott að taka kisu með suður í sollinn. En kisi vill hvergi fara. Rétt eins og véfréttin var í Delfí og hvergi annars staðar þá er kisi á Akureyri og hvergi annars staðar. Man allt og ekkert, hokinn af elli (fimmtán sinnum sjö = 105 kattaár) en þó yngri en ég. Skrítið að einhver sem ég man eftir nýfæddum skuli vera orðinn gamall á undan mér. Skrítið að heimspekingar telji dýr vera sálarlaus þó þau hafi sérstakt hljóð til að tákna hamingju sem kemur frá óþekktum stað einhversstaðar innanúr þeim. Malið er eins og besti blús, djúpt innúr sálinni, alla leið úr kvikunni, fallegt með passlegum skammti af sorg og visku.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home