föstudagur, maí 30, 2003

Til hvers?

Kynni einhver að spyrja sig. Til hvers að láta sig femínisma skipta sig máli? Eða þá rasisma og annað ofstæki? Af hverju ekki bara þegja og þakka fyrir það að vera hvítur karlmaður í vestrænu velferðarþjóðfélagi? Réttlætiskenndin til að byrja með - en líka þetta:

Ég hef aldrei barið né nauðgað konu, ég hef aldrei borgað konu eða svörtum manni lægri laun né hneppt þau í þrælahald eða selt mannsali. Ég hef heldur aldrei hvatt til slíks þó ég sé sekur eins og við öll um að gera ekki nóg á móti í einhverjum tilfellum. En ég hef verið sakaður um allt þetta - þótt óbeint sé. Þetta er stór hluti af ímynd hins hvíta vestræna karlmanns og stundum furðar maður sig á því hvernig maður sem einn slíkur sé ekki í einhverri feitri stöðu með Benz og villu. En oftast er maður samt reiður, reiður þeim aumingjum, kyn- og litbræðrum mínum, sem létu þessa meðferð viðgangast. Hendum biblíunni, þetta er mín erfðasynd. Þó ég hafi ekki gert neitt af þessu. White man's burden? Aumingjaröfl þess sem allt hefur? Nei, reiði yfir því að ég og þeir aðrir hvítir karlmenn sem eiga virðingu skylda séu hólfaðir niður með aumingjum sem deila fyrst og fremst með okkur kynfærum og húðlit. Stundum hefur George Bush sem líklega valdamesti hvíti karlmaður heimsins orðið til þess að mann langar helst að setja poka yfir hausinn áður en maður fer út. Það er ein lykilástæðan fyrir því að ég vil jafnrétti, ég vil að ég sé metin að eigin verðleikum, ekki sem "æðri" af sveittum karlrembupúngum í Hvítum húsum og ekki sem skúrkur af öfgafullum femínistum. Ég er ekki að fíla mitt hólf, það hefur ekki gert mér neitt gott frekar en það hólf sem konur hafa verið settar í. Það eru aðeins þeir sem búa til hólfin – og þeir sem hika ekki við að notfæra sér þau – sem eru að græða eitthvað á þeim. Þetta tengist nefnilega ekki bara femínisma, þetta tengist stærri hlutum sem skiptir okkur öll jafnmiklu máli:

Margir, konur og karlar, hafa notið velgengni sem er verðskulduð, ég bið þá að taka þetta ekki til sín.

En þjóðfélagið okkar er byggt upp á þann hátt að allt of algengt er að fólk njóti velgengni af þessum tveim orsökum: að beita óréttlæti eða að nýta sér kinnroðalaust það óréttlæti sem viðgengst – og í sumum tilfellum er innbyggt – í þjóðfélagið. Fyrst og fremst þetta er ég er helst ósáttur við í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Ég er nefnilega hægrisinnaður af því leyti að ég er mjög harður á því að réttlátt þjóðfélag byggist á því að fólk fái umbunað í eðlilegu hlutfalli við þá hæfileika og dugnað sem það sýnir af sér (án þess þó að einhverjir séu algerlega skildir útundan). En kerfið er því miður ekki að virka þannig. Þetta prinsipp hefur ekkert með afnám ríkisafskipta og kapítalisma að gera þó margir hafi reynt að klína því þar við – gallinn við kapítalismann er einfaldlega sá að hann er ekkert endilega sanngjarn. Höfundar hans hafa ekki sett inn neitt siðferðielement inn í jöfnuna. Hann er ekki heldur skynsamlegur, kerfi sem þegnarnir skynja að er ekki sanngjarnt er aldrei skynsamlegt því þannig dregurðu ekki fram hið besta í fólki. Kommúnisminn er svo allt önnur vitleysa, það eiga ekki allir að vera jafnir því fólk á einfaldlega mismunandi örlög skilið, glæpamenn, morðingjar, letingjar og tækifærissinnar eru ekki líklegir til að láta af sinni iðju ef þeir fá nákvæmlega það sama í launaumslagið og sömu íbúð o.s.frv. og allir hinir – og þessir hinir munu einhverjir halda í sín prinsipp en það brýtur þá alltaf að einhverju leyti niður þessi tilfinning að það skipti einfaldlega engu máli hvort þú gerir hlutina vel og að heilindum eða ekki. Er ekki kominn tími til að hætta þessari vinstrihægri vitleysu, hugsa hlutina upp á nýtt, nota þessa skynsemi sem við mennirnir þykjumst alltaf hafa fram yfir dýrin og gera eitthvað af viti?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home