þriðjudagur, maí 11, 2004

Þriðjudagsbíó

A Civil Action á RÚV um helgina, sá hana síðast þegar ég “gleymdi” að fara út eftir American History X í Háskólabíó. Sú var töluverð vonbrigði man ég, óttalega einfeldingsleg oft í boðskap sínum um að rasismi væri vondur, en A Civil Action kom á óvart. Ég bjóst við einhverju þunglamalegu réttardrama – sem er að vísu ekki fjarri lagi, but not in a bad way!

Þess ber að minnast að myndin er gerð þegar Travolta var ennþá heitur, merkilegt hvernig honum hefur tekist aftur – eftir nokkrar fínar myndir eftir Pulpinn – að verða hámark hallærislegheitanna aftur.

En málið sem lögfræðingurinn Jan Schlictmann (Travolta) á að leysa kviknar verður svo sem aldrei neitt ógurlega spennandi og maður fær ósköp takmarka samúð með fórnarlömbunum. Einmitt þetta var það sem margir fundu að myndinni – en málið er einfaldlega að þetta er ekki það sem höfundum myndarinnar er mest umhugað um. “Aumingja-veiku-börnin-og-fjölskyldur-þeirra” var ágætlega tekið fyrir í Erin Brockovich, en málið hér er einmitt keimlíkt, risafyrirtækli eru grunuð um stórfelld mengunarhryðjuverk sem hafa gert heilu hverfin af pestarbælum hvíttblæðis og fleiri bölvalda.

En A Civil Action er þó miklu meira um lögfræðingana sjálfa – og það hvernig leikreglur mannana, brauðstritið og fjölskyldulífið breyta göfugustu hugsjónum í sjálfskaparvíti. Það hvernig líf lögfræðinganna fer í vaskinn út af því þeir halda áfram að berjast í máli sem þeir vita að þeir geta ekki unnið er það sem er átakanlegt í þessari mynd. Hugsjónir kosta nefnilega oftast peninga, á einn veg eða annan. Þær geta kostað það að þú þarf að vanrækja hluti sem þú hefur þó engan rétt til þess að vanrækja, fjölskyldu eða vini til dæmis. Sálin er dýru verði keypt.

Verð svo að lokum að minnast á hvað persóna Anne Anderson (Kathleen Quinlan) fór mikið í taugarnar á mér. Sjálfhverft fórnarlamb í hæsta gæðaflokki, hneykslast á því að lögfræðingarnir beri saman (að hennar mati nota bene) hennar harmleik og þeirra en athugar ekki að þeirra ógæfa – sem vissulega er minni – er komin til vegna þess að þeir voru að reyna að hjálpa öðrum, henni þar á meðal, á meðan hennar harmur er eingöngu fyrir kaldhæðni örlaganna – og gerir hana ekki sjálfkrafa að göfugri manneskju, eftir ákveðin tíma þá hætta allir að vorkenna fólki sem vorkennir sér svona óendanlega mikið sjálft.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home