fimmtudagur, apríl 29, 2004

Fjölmiðlasirkus Íslands

Hef verið á leiðinni að úthúða þessu blessaða fjölmiðlafrumvarpi hérna. En er samt með bakþanka. Vissulega er frumvarpið út úr kú og öll vinnubrögð í sambandi við það virðast afskaplega vafasöm og þetta gæti verið óbætanlegt skemmdarverk á atvinnugrein sem ég hef persónulega alltaf haft í miklum metum. En eiga íslenskir fjölmiðlar eitthvað skárra skilið en þetta frumvarp?

Mér er nokk sama hvort þeir tala vel eða illa um Baug, fréttir úr matvælaheiminum eru ekki sérstaklega spennandi hvort sem þær eru ritskoðaðar eður ei. Hins vegar er ansi þægilegt fyrir suma miðlana að hafa engar alvarlegri ásakanir að glíma við heldur en paranojskar ásakanir forsætisráðherra í eilífum skærum sínum við Baugsfeðga, enda þær ásakanir mest óráðshjal.

Hins vegar er öllu alvarlegra að íslenskir fjölmiðlar eru upp til hópa ofurseldir afskaplega ófagmannlegum vinnubrögðum sem einkennast fyrst og fremst af metnaðarleysi og aumingjaskap. Það er sjaldnast nein hugsun eða dirfska í gangi, helst bara prúðbúin alvarlegheit eða yfirdrifin æsifréttamennska, allt eftir því hvaða guðspjall viðkomandi aðhyllist. Það var helst að Skjár einn væri að gera eitthvað nýtt hér fyrir einhverjum misserum síðan en um leið og kreppti að þar þá lifðu bara af flatir söluþættir á borð við Innlit – Útlit, Já og Fólk – allt kjöt var horfið af beinunum líkt og hjá hinum miðlunum og þegar maður rekur augun í þætti sem unnir eru að metnaði eða fréttir og greinar sem eru skrifaðar af einhverri list þá hefur maður hreinlega stundum á tilfinningunni að efnið hafi óvart sloppið í gegnum rusleftirlitið. Við þessar kringumstæður þrífast ýmsir hæfileikalitlir fjölmiðlamenn afskaplega vel. Það er svo sem ekki eins og það sé ekki líka hæfileikafólk að vinna á mörgum fjölmiðlum landsins - en það er bara í flestum tilfellum búið að draga flestar tennur sem eitthvað bit er í úr áður en nokkru er hleypt í landann enda má efnið ekki vera of tormelt svo Doritos-flögurnar standi nú ekki í mannskapnum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home