Ég horfi niður á landið mitt og hef ekki hugmynd um hvar ég er. Gæti máski reiknað það út ef ég hefði fylgst með hvort við fórum á stað á réttum tíma. En ég var upptekin við að lesa um Eirík sem hatast við Reykjavík, langar til Vestfjarða en endar í Mexíkó. Að því er virðist, var að byrja á bókinni.
Og þetta er þessi fósturjörð, ómótað frekar tilgangslítið óreglulegt landslag, óbyggðir, á vissan hátt drungalegt en ég næ ekki að tengja mig við það að þetta komi okkur sérstaklega við. Landslag, oftast skýjum hulið, þar sem þögnin ein ríkir utan þess að vindgnauðið gerir einstaka innrás, landslag sem að við sjáum aðallega í litprentuðum gjafabókum sem gefnar eru á stórafmælum og barist er um á Austurvelli - einmitt þar sem sál blessaðrar höfuðborgarinnar er leyft að drabbast niður í hamaganginum við að byggja Smáralindir og Kringlur og hraðbrautir og hvað það annað sem getur fengið okkur til þess að gleyma því að við séum stödd rétt við heimskautsbaug.
Þar ryðst svo flugstjórinn inn með tillitslausa tilkynningu um hvar við séum, dulúðinni er svipt af, landslagið fær nafn og verður á endanum lokað inní bók þangað til að einn daginn verður það 10 % spurning á landafræðiprófi sem fellir táningsstúlku í Breiðholtinu sem í kjölfarið hættir í skóla og byrjar að vinna í 10 - 11, eignast 3 börn með stráknum á lagernum og verður svo löngu seinna litið á þennan blett þegar hún flýgur út á land löngu seinna, albúin að hefja nýtt líf.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home