föstudagur, júní 11, 2004

Portúgal A-riðill

Portúgalir eru á heimavelli, hafa þjálfarann sem gerði Brasilíu að heimsmeisturum og gamla snillinga á borð við Luis Figo og Rui Costa auk efnilegra stráka á borð við Cristiano Ronaldo, Queresma og ýmsa leikmenn Evrópumeistara Porto. En vandamál liðsins er fyrst og fremst aldurinn; það eru mjög fáir leikmenn í þessu liði á besta aldri. Figo er enn mjög sterkur þó hann sé kominn yfir sitt besta, Rui Costa og Fernando Couto eru á síðustu metrunum – þessir þrír eru í raun þeir síðustu sem eftir eru af þessari frægu gullkynslóð sem vann öll unglingamót á sínum tíma og kom Portúgölum í undanúrslitin á EM fyrir 4 árum. Menn eins og Juao Pinto og Vitor Baia eru ekki í náðinni og aðrir jafnvel hættir. En það virðist vera að koma upp nýir, sterkir árgangar – en það er varla að þeir strákar verði tilbúnir fyrir EM. Það vantar fleiri leikmenn á þessum toppaldri fótboltamanna, 25-30, þú vinnur sjaldnast mikið með stráklingum og gamalmennum. Þó gætu Portúgalar verið ein af undantekningunum, þjálfarinn sannaði sig með Brasilíulið sem sjaldan hafa verið ólíklegri sigurvegarar og hæfileikarnir eru til staðar, ef þeir eru orðnir nógu þroskaðir hjá þeim yngri og ef þeir gömlu ná að kreysta síðustu galdrana úr skónum þá er aldrei að vita. Einnig gæti sigur Porto í meistaradeildinni haft mikið að segja, það lið verður kjarninn í liðinu sem verður svo skreytt nokkrum stjörnum öðrum. Portoliðið er raunar ekki dæmigert Portúgalskt lið, aðalsmerki þess var aginn frekar en einstaklingsframtakið sem venjulega einkennir Portúgalska landsliðið. Eins er ákveðið vandamál hvort þrír sterkustu leikmenn liðsins, Figo, Costa og Deco, séu ekki of svipaðir leikmenn til þess að vera allir inná í einu, framliggjandi miðjumenn vantar aldrei hjá Portúgal en hins vegar er aftari hluti liðsins meira spurningamerki, traustir leikmenn en fæstir í heimsklassa.
Þá er óvíst hvaða áhrif heimavöllurinn hefur, verður hann óþarfa byrði eða hvatning? Sjálfsagt blanda af báðu, eftir því hvernig gengur. Hvað sem öllu líður ætti liðið að komast örugglega áfram úr riðlinum, líklega stoppa þeir í undanúrslitunum eins og flestir gestgjafar undanfarinna stórmóta – eitthvað sem enginn getur kvartað yfir en enginn yrði neitt sérstaklega ánægður með heldur.

Spá:

Vinna riðilinn, komast í undanúrslit.

Lykilmenn:

Figo auðvitað, Deco (eina stjarna þeirra á besta aldri) og Pauleta, markaskorarinn sem Portúgala hefur svo oft vantað.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home