föstudagur, júní 11, 2004

Rússland - A - riðill

Rússar koma til með að berjast við Grikki um 3. sætið. Fyrir ári síðan töldust þeir líklegir til að sitja heima, nýbúnir að þola niðurlægingu í Albaníu og Georgíu. Já, fyrir rétt rúmu ári síðan voru Rússar að tapa í smáríki sem taldist til veigaminni eininga í hinu mikla heimsveldi þeirra fyrir ekki nema einum og hálfum áratug síðan. En þegar þjálfarinn fauk þá fékk einhver þá snilldarhugmynd að ráða einhvern sem var ekki upptekinn við að þjálfa eitt af stóru Moskvuliðunum. Þannig að eftir að þjálfarar Spartak og Lokomotiv höfðu skipst á að þjálfa landsliðið í frítímanum þá var loksins ráðinn maður sem gat einbeitt sér algerlega að landsliðinu, Georgi Yartsev, sem náði að sameina sundurleitan leikmannahóp og koma þeim til Portúgals fjallabaksleiðina. Þó voru andstæðingarnir vissulega engin stórskotalið, traust en veigalítil lið á borð við Írland, Sviss og Wales. En Rússneski björninn er að rumska, hann er varla orðinn nógu vel vaknaður til þess að komast fram hjá Íberíuliðunum tveimur, besti maður liðsins er Alexander Mostovoi – sem er að verða 36 ára í sumarlok og er nýfallinn með Celta Vigo á Spáni. Aðrir spila flestir í Rússnesku deildinni. Sú deild er þó heilmikið að styrkjast enda miklir peningar að koma þangað inn, sterkir Austur-Evrópskir leikmenn frá t.d. Tékklandi eða gömlu Júgóslavíuríkjunum sem áður hefðu farið til Vestur-Evrópu eru í ríkari mæli að taka gylliboðum frá Moskvu og Rússarnir sjálfir eru tregari til þess að yfirgefa heimahagana en áður. Það gæti verið tvíbennt, sterk Rússnesk deild ætti að styrkja liðið en ekki þó ef bestu leikmenn Rússa staðna þar.

Spá: Rétt merja Grikki í baráttunni um þriðja sætið.

Lykilmenn: Mostovoi þrátt fyrir aldurinn, Marat Izmailov er mesta efni Rússa og svo er Dmitri Alenichev líklega með tíu sinnum meira sjálftraust en aðrir í liðinu eftir að hafa skorað í úrslitaleik meistaradeildarinnar – fyrir utan það að hann er á heimavelli.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home