föstudagur, ágúst 09, 2002

Mickey

Jólin 1985 gerðist það að mér var gefin minnismiðablokk skreytt meindýrinu snjalla Mikka mús eða Mickey eins og nagdýrið ku heita á frummálinu. Óskipulagt barn sem ég var sá ég ekkert annað notagildi með minnismiðablokk heldur en að búa til tímarit úr henni. Tímaritið var í fyrstu A6 blað (eða einn minnismiði) prentað báðum megin og var gefið út alla daga milli jóla og nýárs það ár, uppfullt af bröndurum og gátum stolnum úr hinum og þessum jólabókum. En fljótlega stækkaði blaðið, ráðinn var fréttaritari í Bandaríkjunum og áskrifendum safnað. Nafnið Mickey og viðeigandi haus hélt sér og vona ég að forssvarsmenn Disney-samsteypunnar fyrirgefi mér að hafa láðst að biðja um afnot af vörumerki þeirra en lögfræði og viðskiptasiðfræði var barasta ekki meðal námsgreina í Lundarskóla. Markmið blaðsins var frá upphafi að lesendur tækju sem virkastan þátt í efni blaðsins, hugmyndin var nokkurs konar gagnvirkni langt fyrir tíma alnetsins. Einnig var reglulega efnt til vinsældarlistakannana á meðal lesanda og er skemst frá því að segja að engin leikari hafði neitt í Shogöninn Richard Chamberlain að gera og enginn sjónvarpsþáttur var frægari en Fame. Þá mætti Stekkjastaur í viðtal í jólablaðið og myndasería birtist af ketti ritstjóra. Ekki má svo gleyma framhaldssögunni um ljónsungann Leó, lesendahorninu (þar sem ónafngreindur notandi Eimote sjampós fékk útrás) og verðlaunagetrauninni. Blaðið lognaðist vissulega út eftir glæsilegt jólablað 1986 enda augljóslega langt á undan sinni samtíð. En áðurnefndur fréttaritari er væntanlega á leið í barneignafrí og mun því ekki verða ráðinn fréttaritari þessarar síðu strax (orlofsgreiðslur til fólks í barneignafríi eru nefnilega ekki inní kostnaðaráætluninni) og er ástæða til þess að stytta biðina löngu eftir barninu (sem nú er orðið tíu dögum á eftir áætlun og virðist ætla að bíða a.m.k. viku í viðbót) með því að birta einn pistil umrædds fréttaritara.

p.s.: “Ritstýrði skammlífu blaði 10 ára gamall” vekur ávallt aðdáun á atvinnuumsókninni og er vafalaust helsta ástæðan fyrir að fólk hafi yfirhöfuð verið að ráða undirritaðan í vinnu

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home