föstudagur, júní 11, 2004

Spánn - A - riðill

Spánverjar eru líklegir til þess að stefna á undanúrslitin, Fjórðungsúrslitin eru þeirra grýla og þar hafa þeir stoppað á 4 af síðustu 5 mótum. Þeir hafa með sér að vera nærri því á heimavelli – lausir við pressuna sem heimamenn í Portúgal mega þola en í kunnuglegu loftslagi Íberíuskagans og örugglega með marga stuðningsmenn með sér.
Og liðið er firnasterkt, líklega vanmetið í öllu tali um líklega sigurvegara. Markvarslan var lengi vandamál Spánverja eftir að Zubizareta gamli fór að dala, nú eru þeir hins vegar með tvo afburða markverði í Casillas og Canizares, að mínu mati 2 af 4 bestu markmönnum keppninar – hinir tveir eru báðir ítalskir. Vörnin fyrir framan þá er hins vegar veikasti hlekkur liðsins, væntanlega tveir þar úr gatasigtinu sem vörn Real Madrid var síðasta tímabil og Marchena, sem var varla sterkasti hlekkurinn í sterkri vörn Valencia. Besti varnarmaður Spánar er án vafa Carles Puyol, leikmaður sem er bestur í miðri vörninni en Spánverjar neyðast til þess að nota hann í vinstri bakverðinum því það er enginn annar til þess að leysa þá stöðu.
Miðjan er hins vegar stórkostleg, David Albelda og Ruben Baraja frá Spánarmeisturum Valencia einhverjir mestu harðjaxlar Evrópu og Xabi Alonso er með einhverjar nákvæmustu sendingar í álfunni. Eina vandamálið er hvaða tveir af þessum byrja inná. Kantmennirnir eru ekki síðri, Vicente hjá Valencia besti leikmaður Spánar undanfarna mánuði, Joseba Etxeberria það traustur að hann heldur Joaquin (líklegur super-sub) út úr byrjunarliðinu og Jose Antonio Reyes komst ekki einu sinni í hópinn – það segir í raun allt um styrkinn þarna.
Það sem gæti svo ráðið úrslitum er svo hver spilar með Raúl frammi. Flest bendir til þess að það verði Juan Carlos Valeron – sem væru mistök. Ekki nóg með að Valeron sé ofmetinn þá er myndi það þýða að hann yrði djúpur og Raúl fremstur – en Raúl nýtur sín ekkert sérstaklega vel fremstur, hann þarf að hafa ekta senter með sér uppi til að gefa á eða draga athyglina frá sér þegar hann sólar sig í gegnum vörnina. Þar væri held ég Morientes vænlegasti kosturinn en af einhverjum ástæðum virðast Spánverjar aldrei almennilega kunna að meta þann leikmann – spurning hvort það breytist eftir að hann kvittaði fyrir sig í vetur gegn sínum gömlu félögum í Real? Ungstirnið Fernando Torres væri líka góður kostur.
Að öllu eðlilegu ættu Spánverjar að geta náð langt, þeir lentu í vandræðum í riðlakeppninni og þurftu aldrei þessu vant að fara í umspil til þess að komast áfram – en það á væntanlega eftir að vera kostur frekar en hitt. Umspilið virðist nefnilega vera fínasti undirbúningur fyrir stórmót, t.d. fóru bæði Þjóðverjar, Tyrkir og Írar í gegnum umspil fyrir HM og náðu miklu betri árangri en liðin sem urðu fyrir ofan þau í forkeppninni. Lykilinn af því að komast í undanúrslitin fyrir Spánverja er þó fyrst og fremst sá að forðast Frakkana í fjórðungsúrslitum, í síðustu EM voru þeir tvímælalaust sterkasta liðið sem datt út í Fjórðungsúrslitum, einmitt út af því að þeir mættu Frökkum. Gæti gerst aftur, sé þá hins vegar ekki lenda í vandræðum með Englendinga.

Spá: Komast áfram en stoppa í Fjórðungsúrslitum.

Lykilmenn: Raúl vitanlega, Casillas í markinu og miðjan eins og hún leggur sig, einfaldlega spurning hver verður í stuði þar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home