mánudagur, ágúst 22, 2005

Leiðin til Úkraínu – önnur tilraun

Mánudagsmorgun, loksins á konsúlatið að vera opið. Er mættur klukkan 10.20, á að vera opið til 12. En auðvitað er löng röð fyrir framan konsúlatið og ég kemst loks inn kl. 11.05 – og þá segir skúnkurinn Mykhaili í afgreiðslunni að eftir klukkan ellefu séu aðeins afgreiddir íbúar Suceava. Rétt eins og á föstudeginum hugleiði ég að fara bara til Búdapest eða Prag og fljúga þaðan en sökum þess að ég er þrjóskari en andskotinn þá varð lítið úr því. Ég hefði líka væntanlega þurft að fara fyrst alla leið aftur til Búkarest sem var borg sem ég var búin að fá meira en nóg af í bili.

Mæti svo aftur á þriðjudegi klukkan hálfníu. Ennþá lengri röð þá náttúrulega og er loks kominn inn um tíuleytið. Það að fylla inn blessaða umsóknina var svo minnsta málið – en þá þurfti ég að fara í banka í bænum, fyrst til að fá stimpil á efri hæðinni og svo til að greiða fyrir áritunina á neðri hæðinni. 40 dollarar, bölvaðir Rúmenarnir sleppa með 5. Svo á næstu ljósritunarsjoppu til að ljósrita vegabréfið og fleiri gögn, konsúlatið hefur náttúrulega ómögulega efni á ljósritunarvél né peningakassa ...

Mæti svo aftur með þetta klukkan ellefu – og er þá sagt að þetta verði ekki tilbúið fyrr en fjögur – og rútan sem ég ætlaði að taka er klukkan eitt. Ef einhver hryðjuverkamaður þarna úti finnur sterka þörf hjá sér fyrir að gera óskunda í Rúmeníu þá get ég skaffað viðkomandi adressuna í þessu helvítis konsúlati ... spyrjið eftir Mykhaili ...

Mæti svo fjögur en auðvitað þýddi fjögur fimm. Maður ætti að vera búin að læra þetta. Var búin að tékka á lestunum og skyldist að það væri lest til Chernivtsi klukkan sex. Tek leigubíl á lestarstöðina en þá kemur í ljós að það er eftir allt saman rúta sem fer klukkan sex. Aftur í miðbæinn þar sem rútustöðin er – og þá kemur í ljós að rútan er í rauninni bara einn fólksbíll að ferma mig og tvær úkraínskar kellur. Hvort hann var actually eitthvað á vegum rútubílastöðvarinnar mun ég aldrei vita, svona lagað er allt afskaplega loðið í Rúmeníu.

Kem svo til Chernivtsi, þar á að vera rúta klukkan tíu til Kiev. Fæ fyrst að vísu ekki betur skilið á stelpunni í afgreiðslunni en að hún ætli bara að skutla mér sjálft klukkan hálftíu þar sem ég sé búin að missa af lestinni – en þá er málið bara að hún getur ekki selt mér miðann fyrr en þá. Don’t ask – I’ve learned not to. Bölvað svekkelsi samt að þurfa að nota rútu, maður var orðinn svo vanur fólksbílaskutli og stelpan var alveg ágætlega sæt.

Hitti svo Igor í rútunni og algjörlega af fyrra bragði kynnir hann sig og gefur mér tvær brauðsneiðar. Já, gefur. Er ekki að biðja um neitt klink í staðinn. Það er algjörlega ómögulegt að útksýra menningarsjokkið sem þessu fylgdi fyrir þeim sem ekki hafa verið tíu daga samfleytt í Rúmeníu þar sem allt kostar. Samt er Úkraína á pappírnum jafnvel fátækari en Rúmenía – en það er hægt að vera fátækur með reisn og án reisnar. Þessi tvö lönd eru sjálfsagt ágætt dæmi um sitt hvort. Úkraína væri raunar bara almennt frekar kúl land ef það væri ekki fyrir þessa eilífu skriffinnsku þeirra. Mæti svo undir morgun til Kiev, tékka inn á hostelið klukkan átta um morgunin og legg mig til hádegis.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home