miðvikudagur, júní 26, 2002

Hárnákvæm taktík

Ég held ég sé loksins búinn að komast að leyndardómnum um þessa furðulegu Heimsmeistarakeppni. Þökk sé óæskilegum áhrifum stærstu knattspyrnustjörnu heimsins í dag, David Beckham, þá er það ekki sparkhæfileikar sem skipta máli eins og í gamla daga heldur hárgreiðslan. Hvað leikmennina varðar þá borgar fáránleikinn sig, Clint Mathis fór og fékk sér forljóta Travis Bickle klippingu, skoraði strax og Kanahelvítin komust það langt að það hlýtur að teljast einn af helstu sköndulum knattspyrnusögunnar. Ronaldo er vart kominn í gang aftur en hann fær sér einhverja fáránlega derhúfuskyggnisklippingu og eftir að einn Tyrkinn varð fyrir óvæntu slysi í Japanskri raftækjabúð þá hafa þeir spilað eins og englar eftir rólega byrjun. Japanirnir hafa verið nokkuð töff með litadýrðina í fyrirrúmi en það hafði sig enginn þeirra sig út í að gera sig að fífli þannig að þökk sé áðurnefndu slysi eins Tyrkjans með japanska rakvél duttu þeir út tveim umferðum á undan meðgestgjöfum sínum. Þá má ekki gleyma þjálfurunum en um þá virðast gilda nokkuð önnur og jákvæðari lögmál. Rudi Völler virðist vera einn af örfáum mönnum í veraldarsögunni sem ber það vel að vera með sítt að aftan, kannski var þetta greiðsla sem alltaf var ætluð mönnum sem voru farnir að grána? Svo er það fransmaðurinn Bruno Metsu sem þjálfar Senegala, líklega það næsta sem fótboltaþjálfari hefur komist nálægt rokkara – á meðan stjórnar landi hans Roger Lemerre franska liðinu. En það að vera með hæfileikaríkasta lið keppninar dugar lítið þegar hugmyndasnauð hárgreiðslan skilar sér í álíka hugmyndasnauðri taktík sem veldur því að íslenskir íþróttafréttamenn kalla þig freðýsuna. Þjálfari Brassana virðist að vísu falla í sama flokk en þegar betur er að gáð þá er þetta útpælt Gene Hackman lúkk, gott ef hann er ekki búinn að ná augnaráðinu líka, og á hans aldri er það klassík sem ekki klikkar. Eins virðist mottan vera merkilega sterkt vopn á þessu móti, Rudi Völler kemur þá aftur upp í hugann og gæti mottan hans jafnvel gert þjóðverja algerlega ósigrandi í úrslitaleiknum. Svo er það Guus Hiddink sem hefur verið með mottu jafn lengi og elstu menn muna. Hún er að vísu fokin núna en það minnir aðeins á eineigða menn og guði í goðafræðinni sem geymdu augað annarsstaðar til að fylgjast með. Gott ef yfirvaraskeggið hangir ekki yfir dyrunum á búningsherberginu og blæs vandlega rökuðum Kóreubúunum eld í æðar. Svo er bara spurning hvort við látum ekki kyntröllið okkar í Berlín, Jolla, safna mottu og taka við liðinu. Hann ætti að geta lært öll trikkin í návígi við Völler …

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home