föstudagur, ágúst 09, 2002

Einnig fann ég tvær tilraunir til dagbóka sem hafa venjulega ekkert gengið nema ég hafi notað flóknari tækni til, svosem blogger eða diktafón. Sú seinni gerist í skólaferðalagi til Algarve og er helst merkileg fyrir það að hætta um leið og eitthvað spennandi fer að gerast - a.m.k. var ég búinn að gleyma öllu sem ég skrifaði en man daginn eftir síðustu færsluna vel og greinilega, eftir það var sko ekki tími til dagbókaskrifa. En þessar lágtæknitilraunir með penna og blað eru þó vissulega allar athygli verðar. Má nefna hér utanlandsferð til Grænlands sumarið áður en ég var tólf ára, ég hafði nýlokið við allar þá útgefnar bækur um Ísfólkið (41) og ljáði það ritstílnum án efa dulúðlegan blæ. Þar entist ég til að skrásetja fyrri vikuna af tveimur. Áhugamönnum um heimskautamenningu til fróðleiks birti ég hér nokkur dagbókarbrot:

5. júlí:

svo fórum við í búðir og ég keypti ísbjörn, þrykkimyndir og Jolly-Cola.

6. júlí:

þvínæst var danskt völd þar sem var orðaleikur, stólaleikur, leikur sem átti að þekkja hendur aftur og mylla.

7 júlí:

seinna var æðislegur matur og ég borðaði þrjá diska af frönskum, súkkulaðibúðing og safa. 2 klst. seinna var franskt kvöld þar sem var Rómeó og Júlíu-leikur, Hver er morðinginn?-leikur, 2 blikkleikir og leikur þar sem allir þurftu að kyssa einhvern. Svo fórum við í sturtu, og þvínæst að sofa.


8. júlí:

svo fórum við yfir fjallið aftur. Á leiðinni sáum við illa rúnar kindur

9. júlí:

svo var hollenskt kvöldvaka þar sem við fórum í ísjakaleiki, boltaleik og pottaleik. Þvínæst fórum við í sturtu og svo að sofa.

11. júlí:

Kl. sjö fórum við á þyrlu uppá fjall, þar sem við gerðum vörðu. Svo fékk ég mér Coke.
...
Svo var Sutton-kvöld þar sem var Hoky Poky, húfuleikur, látbragðsleikur, radíóleikur, "hvernig flutt var yfir á" dans og krabbafótbolti. Svo var sturta og þvínæst fórum við að sofa.

Þarna lauk skrifum og ber mannfræðingum ekki saman um hvort ástæðan hafi verið ofþreyta sökum leikjaálags eða ofneysla á Jolly-Cola.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home